Námstefna í samningagerð 14.-16. janúar

Ákveðið hefur verið að halda eina námstefnu í samningagerð dagana 14.-16. janúar ef næg þátttaka næst. Áhugasöm eru eindregið hvött til að skrá sig fyrir 21. desember en þann dag verður endanleg ákvörðun um námstefnuna tekin. Skráning fer fram á vef ríkissáttasemjara. Emma Björg Eyjólfsdóttir veitir nánari upplýsingar í síma 511-4411.

Námstefna í samningagerð 19.-21. nóvember

Fjórða námstefnan í samningagerð fór fram í Borgarnesi dagana 19.-21. nóvember. Námstefnuna sátu 70 þátttakendur frá mörgum aðilum vinnumarkaðarins. Á námstefnunni var fjallað um samskipti, lög og reglur á vinnumarkaði, efnahagslegt samhengi kjarasamninga, ábyrgð og skyldur samningafólks, kjarasamningagerð á tímum samfélagsmiðla og samningafærni.

Námstefna í samningagerð 5.-7. nóvember

Dagana 5.-7. nóvember fór námstefna í samningagerð fram í þriðja skipti á þessu ári. Námstefnan var haldin á B59 hótel í Borgarnesi og tóku yfir 70 mann þátt í henni. Á námstefnunni var fjallað um atriði á borð við góð samskipti, teymisvinnu, lagaumgjörð vinnumarkaðar, efnahagslegt samhengi kjarasamninga, kjarasamningagerð á tímum samfélagsmiðla, samskipti og ábyrgð samningafólks og samningafærni. Síðasta námstefna ársins verður haldin dagana 19.-21. nóvember.

Nýtt sáttamál hjá ríkissáttasemjara

Máli Flugvirkjafélags Íslands og Bluebird Nordic hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Málið er það níunda sem er vísað til embættisins á árinu 2018. Fyrsti fundur verður boðaður í málinu eins fljótt og auðið er.

Viðræðuáætlanir

Ríkissáttasemjari minnir samningsaðila á að nú eru 8 vikur til áramóta en þá renna 82 kjarasamningar út. Samkvæmt 23. grein laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur skulu viðsemjendur skila viðræðuáætlun til ríkissáttasemjara eigi síðar en 10 vikum áður en samningar renna út. Því er frestur til að skila viðræðuáætlun liðinn.

Ríkissáttasemjari vill hvetja samningsaðila sem ekki hafa enn skilað viðræðuáætlun til að gera það hið snarasta en einungis þrjár viðræðuáætlanir hafa borist embættinu. Viðræðuáætlunum skal skila til Elísabetar í gegnum netfangið elisabet@rikissattasemjari.is

 

 

 

 

 

 

Fullbókað á námstefnu í samningagerð

Fullbókað er nú á námstefnu í samningagerð dagana 5.-7. og 19.-21. nóvember. Tekið er við skráningum á biðlista fyrir báðar dagsetningar í gegnum vef ríkissáttasemjara. Áhugasöm eru hvött til að skrá sig á biðlistann.

Námstefna í samningagerð 1.-3. október

Námstefna í samningagerð var haldin í annað sinn dagana 1.-3. október. Tæplega 80 manns sem eiga sæti í samninganefndum bæði stéttarfélaga og launagreiðenda á almennum og opinberum vinnumarkaði tóku þátt og fræddust um ýmis atriði sem hjálpað geta til við kjarasamningagerðina.

Hér má nefna atriði á borð við góð samskipti, teymisvinnu, lög og reglur á íslenskum vinnumarkaði, efnahagslegt samhengi kjarasamninga, samningafærni, samskipti og ábyrgð og kjarasamningagerð á tímum samfélagsmiðla.

Námstefnan var bæði fróðleg og skemmtileg og starfsfólk ríkissáttasemjara kann öllum þeim sem komu að henni bestu þakkir fyrir.

Boðun vinnustöðvunar

Flugfreyjufélag Íslands hefur boðað vinnustöðvun flugfreyja um borð í flugvélum Primera Air Nordic SIA sem fljúga farþegum frá og til Íslands. Hafi samningar ekki tekist á milli aðila fyrir klukkan 6:00 þann 15. nóvember næstkomandi mun ótímabundin vinnustöðvun hefjast þá.

Ådne Cappelen í heimsókn

Dagana 3.-5. október er Ådne Cappelen, hagfræðingur á norsku hagstofunni og formaður nefndar um tölfræðilegan undirbúning kjarasamningana í Noregi (TBU), í heimsókn hér á landi á vegum Embættis ríkissáttasemjara og Forsætisráðuneytisins.

Ådne Cappelen flutti fróðlegan fyrirlestur um starfsemi TBU í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag sem var sóttur af fulltrúm aðila vinnumarkaðarins, Hagstofunnar, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Forsætisráðuneytisins auk starfsfólks ríkissáttasemjara.

Í framhaldinu mun Ådne Cappelen funda með nefnd Forsætisráðuneytisins um um­bæt­ur á úr­vinnslu og nýt­ingu launa­töl­fræðiupp­lýs­inga og starfshópi í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem kannar nú fýsileika þess að taka upp heildartalningu á launagögnum að norskri fyrirmynd.

 

Fundur norrænna ríkissáttasemjara í Kaupmannahöfn

Annað hvert ár hittast ríkissáttasemjarar allra norðurlanda á fundum þar sem rætt er um það sem ber hæst í starfsemi hvers embættis fyrir sig. Embættin skiptast á að halda fundinn og í þetta sinn fer hann fram í Kaupmannahöfn.

Hver ríkissáttasemjari flytur skýrslu um helstu atriði í starfseminni frá síðasta fundi. Að auki er þema á hverjum fundi og í ár er það áskoranir tengdar deilihagkerfinu og notkun embættanna á samfélagsmiðla.

Athygli vekur að af fimm ríkissáttasemjurum norðurlanda eru nú fjórar konur og hafa þær aldrei verið fleiri.