Skip to main content

Fyrirbyggjandi sáttastörf

Samningur taki við af samningi

Flestir geta tekið undir mikilvægi þess að „samningur taki við af samningi“, þ.e. að samkomulag hafi tekist um nýjan samning áður en sá eldri rennur út. Raunin er hins vegar sú að hartnær alltaf líða mánuðir frá því samningur rennur út þar til nýr samningur er undirritaður.

Til þess að auka líkur á að samningur taki við af samningi er æskilegt að samningsaðilar skipi samninganefndir og hefji undirbúning snemma. Mikilvægt er að samningsaðilar hefji samtöl a.m.k. hálfu ári áður en eldri samningur rennur út. Ræði þá framkvæmd samnings og vinni saman að markvissri viðræðuáætlun fyrir endurnýjun hans.

Mælt er með að aðilar kynni sér hvaða fræðsla er í boði hjá ríkissáttasemjara sem gæti nýst gæti þeim við undirbúning og framkvæmd samningaviðræðna. Þó að málum hafi ekki verið vísað með formlegum hætti til ríkissáttasemjara býður embættið aðstoð og aðstöðu, óski samningsaðilar eftir því, áður en samningur rennur út. Þannig leitast embættið við að styðja það markmið að kjarasamningsferlið verði ein órofa heild.

 

Markvissar aðgerðir 

Með fyrirbyggjandi sáttastörfum er átt við markvissar aðgerðir embættisins; annars vegar til að greiða fyrir því að samningur taki við af samningi og hins vegar til að koma í veg fyrir að hnökrar við innleiðingu kjarasamnings verði til þess að ekki takist að semja fyrir lok samningstíma.

Reynslan og rannsóknir sýna að fyrirbyggjandi aðgerðir til sátta auka verulega líkur á að samningur taki við af samningi. Slíkar aðgerðir geta verið í formi reglulegra samskipta og funda samningsaðila á gildistíma samnings, með eða án þátttöku sáttasemjara. Fyrirbyggjandi sáttastörf eru mikilvægur þáttur í starfsemi ríkissáttasemjara og það er undir samningsaðilum komið að nýta sér aðstöðu og aðstoð sem embættið veitir. Ferlið getur hafist nokkru áður en gildandi samningur rennur út og staðið þar til nýr samningur er í höfn.

 

Áherslur

Aukin fræðsla /þjálfun fyrir samningsaðila í gegnum embætti ríkissáttasemjara.

Afmarkaður tími til sáttamiðlunar.

Sameiginlegar rannsóknir, gagnaöflun og miðlun niðurstaðna.

Samningaviðræður með aðstoð þriðja aðila.

Aukin samvinna í átt að sátt.