Skip to main content

Fræðslustefna

Framtíðarsýn ríkissáttasemjara er að samningur taki við að samningi og almenn sátt ríki á vinnumarkaði. Henni hyggst embættið ná fram með því að rækja hlutverk sitt í sáttstörfum, með fyrirbyggjandi aðgerðum og fræðslu og upplýsingagjöf þar sem fagmennska, skilvirkni og traust er haft að leiðarljósi.

 

Í átt að sátt
fræðslustefna embættis ríkissáttasemjara

Fræðsla og upplýsingagjöf er skilgreind sem einn af þremur lykilþáttum í starfsemi embættis ríkissáttasemjara. Embættið styður við starf samninganefnda og annarra sem koma að kjarasamningagerð með fræðslu og þjálfun við hæfi, stuðlar að samtali um kjarasamningagerð á milli fulltrúa launafólks og launagreiðenda og stendur fyrir fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla um starfsemi embættisins.

 

Tilgangur og markmið

Markmiðið með fræðslustefnu og aðgerðum ríkissáttasemjara er að stuðla að því að fleiri samningar náist án aðkomu ríkissáttasemjara, þau mál sem vísað er til embættisins leysist hraðar og samningar sem af hljótast verði samþykktir í baklandinu. Leggja þannig grunninn að skilvirkari kjarasamningagerð, hraðari úrvinnslu og meiri sátt á vinnumarkaði og í íslensku samfélagi. Fræðslustefnan gegnir þannig mikilvægu hlutverki í að stuðla að sátt á vinnumarkaði, framtíðarsýn embættisins.

 

Áherslur

Lögð er áhersla á að fræðsla og útgáfustarfsemi í hvers konar mynd sé markviss, sniðin að umhverfinu og að notendur hafi traust á gæðum og áreiðanleika efnisins. Fræðsluáætlun skal gerð ár hvert og endurmetin árlega. Fræðsluráð, sem setið er fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, fer yfir fræðsluáætlun áður en hún kemur til framkvæmda. Við innleiðingu og framkvæmd stefnunnar er fagmennska, skilvirkni og traust haft að leiðarljósi.

 

Endurskoðun

Lagt skal mat á árangur af fræðslustefnunni og þeim leiðum sem valdar hafa verið við fræðsluna. Miðað er við að slíkt mat ásamt endurskoðun stefnunnar fari fram árlega og við það notast við kannanir sem gerðar eru í lok námskeiðs eða fyrirlesturs, auk viðtala. Mat á einstökum þáttum fræðslunnar svo sem námskeiðum, fyrirlestrum og vef er gert jafnóðum. Mælikvarðar eru ákveðnir fyrirfram, hvenær og hversu oft skuli mælt. Fræðsluráði eru kynntar niðurstöður úr námskeiðsmati og öðru árangursmati.

 

Ábyrgð

Yfirumsjón með framkvæmd og reglulegri endurskoðun fræðslustefnu embættisins, ásamt samskiptum við fræðsluráð, er í höndum skrifstofustjóra.

 

Við stefnumótun hefur ríkissáttasemjari haft til hliðsjónar gögn og viðmið frá Stefnuráði Stjórnarráðsins samhæfingar- og samráðsvettvangi innan stjórnsýslunnar.