Skip to main content

Lykilhugtök

Smelltu og lestu skýringuna

Hér á síðunni má nálgast stuttar skýringar á ýmsum hugtökum sem snerta kjarasamningaumhverfið og notuð eru við samningaborðið.

Aðalkjarasamningur

Við gerð kjarasamninga eru fyrri samningar iðulega lagðir til grundvallar. Með aðalkjarasamningi er átt við safn af efnisatriðum sem áður hefur verið samið um og nýir samningar leiða til breytinga á. Í upphafi nýs kjarasamnings er jafnan vísað til þess að allir gildandi kjarasamningar og sérkjarasamningar aðila framlengist með þeim breytingum og fyrirvörum sem samið er um.

Aðfarasamningur

Aðfarasamningur er stuttur samningur til að brúa tímabil þar til nýr kjarasamningur verður gerður.

Aðilar vinnumarkaðarins

Aðilar vinnumarkaðarins er safnheiti sem notað er yfir heildarsamtök launafólks annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Á almennum vinnumarkaði eru Alþýðusamband Íslands (ASÍ) heildarsamtök launafólks og Samtök atvinnulífsins (SA) heildarsamtök atvinnurekenda. Á opinberum vinnumarkaði eru Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, (BSRB), Bandalag háskólamanna (BHM) og Kennarasamband Íslands (KÍ) heildarsamtök launafólks, Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) í forsvari við gerð kjarasamninga vegna ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna sveitarfélaganna.

Aðilaskipti

Lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, gilda um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis. Þegar fyrirtæki eða hluti þess rennur saman við annað fyrirtæki er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna „aðilaskipta“ bæði fyrir og eftir aðilaskipti, nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi og hafi áhrif á starfsmannahald fyrirtækis. Þá skal starfsmaður að jafnaði halda sömu kjörum eftir aðilaskiptin og hann naut fyrir þau.

Almannatryggingar

Almannatryggingar eru opinberar tryggingar sem veittar eru af íslenska ríkinu á grundvelli laga um það efni. Þær skiptast í lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Almannatryggingar ná til allra landsmanna.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Annar launakostnaður

Jafnan er rætt um „annan launakostnað“ þegar vísað er til annars kostnaðar sem atvinnurekandi þarf að bera vegna launagreiðslna, en brúttólauna starfsmannsins. Annar launakostnaður samanstendur af hlutdeild atvinnurekanda í lífeyrissjóðsiðgjaldi, tryggingagjaldi, kjarasamningsbundnum iðgjöldum til stéttarfélaga, auk annarra launatengdra gjalda, veikindalauna og eftirlauna.
Heimild: Hagstofa Íslands

Atvinnu – og búseturéttur

Allir ríkisborgarar EES-ríkja eiga jafnan bæði atvinnu- og búseturétt hér á landi. Þannig hafa ákvæði reglugerðar ESB nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan sambandsins, lagagildi hér á landi með lögum nr. 105/2014.

Atvinnufrelsi

Með atvinnufrelsi er átt við að mönnum sé heimilt að velja sér það lífsstarf sem hugur þeirra stendur til. Í 69. gr. stjórnarskrárinnar segir; „að engin bönd megi leggja á atvinnufrelsi manna, nema almenningsheill krefji, enda þurfi lagaboð til“.

Atvinnugrein

Þegar rætt er um atvinnugrein er átt við tegund atvinnustarfsemi eða atvinnuvegar. Íslensk atvinnugreinaflokkun, ÍSAT2008, var gefin út með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1247, 12. desember 2007, og tók gildi 1. janúar 2008. ÍSAT2008 er byggð á atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins, NACE Rev. 2.
Heimild: Hagstofa Íslands

Atvinnulausir/Atvinnuleysi

Atvinnuleysi er samkvæmt skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eftirfarandi: Þeir teljast atvinnulausir sem 1) eru án vinnu á viðmiðunartímanum, 2) eru virkir í atvinnuleit á íslenskum vinnumarkaði og 3) gætu hafið störf innan tveggja vikna ef þeim byðist starf.
Heimild: Hagstofa Íslands

Atvinnuleysisbætur

Atvinnuleysisbætur eru bætur sem launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir eiga rétt á úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sbr. lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Atvinnuleysistryggingar

Atvinnuleysistryggingar veita fólki rétt til að fá atvinnuleysisbætur ef það er án atvinnu. Markmið laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Heimild: Stjórnarráðið

Atvinnuleysistryggingasjóður

Atvinnuleysisbætur skulu greiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem fjármagnaður er með atvinnutryggingagjaldi, samanber lög nr. 113/1990 um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins. Vinnumálastofnun skal annast fjárvörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs og framkvæmd laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar á grundvelli þjónustusamnings við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.
Heimild: Stjórnarráðið

Atvinnurekendur

Atvinnurekandi er einstaklingur eða fyrirtæki, sem hefur með höndum hvers kyns atvinnustarfsemi, kaupir vinnuframlag starfsmanna sinna og stýrir vinnu þeirra.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Atvinnurekstur

Atvinnurekstur er hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi. Sjálfstæð starfsemi sem rekin er reglubundið og í nokkru umfangi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Atvinnustig

Atvinnustig segir til um þátttöku í atvinnulífinu, þ.e. hversu margir á vinnufærum aldri (16-74) taka þátt í því.

Atvinnuþátttaka

Þegar rætt er um atvinnuþátttöku er átt við þá sem taka þátt í atvinnulífinu, stunda vinnu.
Heimild: Íslensk orðabók

Ábyrgðasjóður launa

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrissjóðsiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Ábyrgðasjóðsgjald er gjald sem greitt er í Ábyrgðasjóð launa.
Heimild: Vinnumálastofnun

Álagsgreiðsla

Álagsgreiðsla er sérstök greiðsla sem bætist við laun vegna aukins álags.
Heimild: Íslensk orðabók

Ársgrundvöllur

Þegar rætt er um að eitthvað sé „á ársgrundvelli“ er miðað við á heilu ári.

Árslaun/árstekjur

Árslaun eru heildartekjur einstaklings á einu ári.

Árstíðasveifla

Ársfjórðungslegar hagtölur innihalda oft reglubundna árstíðarsveiflu. Atvinnuleysi er t.d. að öðru óbreyttu lægra yfir sumarmánuðina en yfir háveturinn. Einkaneyslan er jafnan mest á fjórða fjórðungi ársins og minnst á fyrsta ársfjórðungi.
Heimild: Seðlabanki Íslands

Barnabætur

Barnabætur eru sérstakar bætur frá ríkinu, í formi lækkunar skatta, sem foreldrar eiga rétt á að fá samkvæmt ákveðnum reglum fyrir hvert barn sem þeir eiga, sbr. a-lið 68. gr. laga 9/2003 um tekjuskatt.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Betri vinnutími

Í flestum kjarasamningum sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 er kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Þetta á þó ekki við um öll stéttarfélög, því ýmsir hópar eru með annars konar útfærslu á vinnuskyldu en hefðbundna 40 stunda vinnuviku. Meginmarkmið breytinganna er að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu. Þessar breytingar hafa verið kallaðar „Betri vinnutími“.
Heimild: Betrivinnutimi.is

Biðlaun

Biðlaun eru laun sem starfsmanni eru greidd tímabundið eftir að starf hans hefur verið lagt niður eða honum sagt upp störfum, hafi verið um það samið í ráðningarsamningi eða ef það leiðir af lögum eða kjarasamningi.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Bifreiðahlunnindi

Bifreiðahlunnindi eru launauppbót sem felst í afnotum af bifreið fyrirtækis eða greiðslum fyrir akstur eigin bíls.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Boðun vinnustöðvunar

Mismunandi reglur gilda um boðun vinnustöðvana á almennum og opinberum vinnumarkaði. Árangurslaus tilraun til að ná sáttum í viðræðum undir stjórn ríkissáttasemjara er forsenda þess að heimilt sé að boða til vinnustöðvunar á almennum vinnumarkaði. Hana ber að tilkynna til ríkissáttasemjara og þeim sem hún beinist að með sjö sólarhringa fyrirvara. Þá er samninganefnd aðila á almennum markaði heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun en þetta er ekki heimilt á opinberum markaði. Þegar um er að ræða samningsaðila sem vinna á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna er ekki gert að skilyrði að mál hafi verið tekið til árangurslausrar sáttameðferðar hjá ríkissáttasemjara áður en vinnustöðvun er boðuð og boðunarfrestur er 15 sólarhringar. Þá gilda einnig aðrar reglur um þátttökuhlutfall í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga opinberra starfsmanna en á almennum markaði.

Bókanir

Bókanir með kjarasamningi taka til ágreiningsefna, sem ekki eru leyst í eiginlegum kjarasamningi. Bókanir hafa sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur samkvæmt úrskurði Félagsdóms.

Bónus

Bónus er afkastahvetjandi viðbótargreiðsla sem er ýmist tengd afköstum eða árangri tiltekins hóps í heild. Sérstakir kaupauka- og bónussamningar hafa tíðkast hjá tilteknum starfshópum.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Bótagreiðslur

Bótagreiðsla er tiltekin upphæð sem greidd er þeim sem á rétt til, t.d. vegna atvinnuleysis, elli eða örorku.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Dagpeningar

Dagpeningar eru greiðslur sem launþegi fær frá vinnuveitanda sínum til þess að greiða kostnað við ferðir og uppihald ef hann er sendur í ferðalag á vegum fyrirtækisins eða þarf að vinna tímabundið fjarri heimili sínu. Dagpeningar eru í raun endurgreiðsla atvinnurekanda á útlögðum kostnaði starfsmanns, sem atvinnurekandinn hefði með réttu átt að bera. Starfsmanni er því heimilt að draga dagpeningagreiðslur frá í skattskilum sínum, upp að tilteknu hámarki sem Skatturinn ákveður.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Dagvinna

Dagvinna er vinna á dagvinnutímabili, eins og það tímabil er nánar afmarkað í þeim kjarasamningi sem starfsmaður tekur laun eftir. Vinna á dagvinnutímatímabili er greidd með dagvinnukaupi.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Dagvinnutímabil

Í kjarasamningum er mælt fyrir um hver vikulegur vinnustundafjöldi starfsmanna í fullu starfi skuli vera, (talið í virkum vinnustundum), og um leið skilgreindur sá tímarammi frá morgni til kvölds sem þeirri vinnu skuli skilað á frá mánudegi til föstudags. Þessi daglegi tímarammi er kallaður dagvinnutímabil. Dagvinnutímabilið er haft rýmra en dagleg vinnuskylda starfsmanna og býður atvinnurekendum og starfsmönnum upp á ákveðinn sveigjanleika við ákvörðun eða samninga um hvenær vinna skuli hefjast að morgni og ljúka að kvöldi.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Desemberuppbót

Svo kölluð desemberuppbót eða jólabónus er eingreiðsla sem atvinnurekendum ber samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi að greiða starfsmönnum sínum í byrjun desember ár hvert, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.m.t. að því er varðar starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Efnahagshorfur

Þegar rætt er um efnahagshorfur er átt við útlit í efnahagsmálum tiltekins ríkis.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Eftirlaun

Eftirlaun er lífeyrir starfsmanns eftir að hann hefur hætt störfum. Á Íslandi eru eftirlaun óverulegur hluti launakostnaðar enda tíðkast almennt ekki að launagreiðendur greiði eftirlaun til fyrrverandi starfsmanna.
Heimild: Hagstofa Íslands

Eftirlaunaaldur

Eftirlaunaaldur er aldur fólks þegar það má byrja að þiggja eftirlaun, á Íslandi yfirleitt um 67 ára aldur.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Eingreiðslur

Eingreiðslur eru samtala greiðslna sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímibili, svo sem orlofs- og desemberuppbót, 13. mánuður og frammistöðutengdar greiðslur.
Heimild: Hagstofa Íslands

Einkageiri

Einkageiri er sá hluti atvinnulífsins sem er í höndum einkaaðila.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Einkennisfatnaður/einkennisbúningur

Einkennisfatnaður er klæðnaður sem menn bera við skyldustörf t.d. í lögreglunni.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Einyrki

Einyrki er einstaklingur með sjálfstæðan atvinnurekstur án þess að hafa aðra í (fastri) vinnu.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Ellilífeyrir

Ellilífeyrir er mánaðarleg greiðsla sem fólk á rétt á úr almannatryggingum eða lífeyrissjóði eftir ákveðinn aldur þegar það hættir að vinna. Greiðsla ellilífeyris hefst venjulega við 67 ára aldur á Íslandi en í einstaka atvinnugreinum við lægra aldursmark, og sérreglur um áunnin réttindi í einstaka lífeyrissjóðum geta leitt til þess sama.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Embættismaður

Embættismenn eru samkvæmt lögum ákveðinn hópur starfsmanna ríkisins sbr. ákvæði 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þeir taka laun skv. úrskurði Kjararáðs.

Fastlaunasamningur

Fastlaunasamningur er samningur um tiltekin heildarlaun þar sem að baki liggur heildarmat á umfangi starfsins og þeim verkefnum sem starfsmaðurinn þarf að standa skil á til að sinna starfinu á fullnægjandi hátt.
Heimild: Ríkisendurskoðun

Félagsaðild

Á vinnumarkaði er með orðinu félagsaðild vísað til aðildar launafólks að stéttarfélögum í sinni starfs- eða atvinnugrein.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Félagsdómur

Verkefni Félagsdóms er að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur s.s. vegna ólögmætra vinnustöðvana, broti á kjarasamningi eða öðrum málum, sem aðilar hafa komið sér saman um að leggja fyrir dóminn. Fjallað er um hlutverk og réttarfar Félagsdóms í lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Félagssvæði

Félagssvæði stéttarfélaga eru mismunandi en það má þó aldrei vera minna en eitt sveitarfélag.

Foreldraorlof

Foreldraorlof er samkvæmt lögum orlof sem foreldrar eiga rétt á til að annast barn sitt. Réttur til foreldraorlofs stofnast við fæðingu barns og fellur niður er barnið nær átta ára aldri. Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldri þarf að sækja barnið til annarra landa getur foreldraorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur. Foreldraorlofi fylgir ekki sjálfkrafa réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Forgangsréttur

Forgangsréttarákvæði í kjarasamningi kveður á um forgang allra eða tiltekinna félagsmanna þess félags sem kjarasamninginn gerir, að störfum hjá viðsemjanda. Í lögum um opinbera starfsmenn og kjarasamningum þeirra er ekki fjallað um forgangsrétt að störfum.

Friðarskylda

Eitt mikilvægasta hlutverk kjarasamninga er að skapa frið á vinnumarkaði og setja niður kjaradeilur, enda eru þeir stundum kallaðir friðarsamningar. Með hugtakinu friðarskylda er átt við að aðilar sem bundnir eru af kjarasamningi mega ekki, á gildistíma samningsins, knýja fram breytingar á því sem um hefur verið samið með vinnustöðvun. Friðarskylda er úr gildi fallin, þegar samningur rennur út, nema að um annað hafi verið samið.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Frídagar

Á Íslandi eru 16 lögbundnir frídagar, rauðir dagar. Þó er munur á hvort dagarnir séu almennir frídagar eða stórhátíðardagar. Ekki eru allir „rauðir dagar“ svo kallaðir stóhátíðardagar, en þeir dagar sem eru stórhátíðardagar skipta máli, t.d. vegna launagreiðslna þegar unnið er á þessum dögum.Þeir eru:

–        nýársdagur (1. janúar) (stórhátíðardagur);
–        skírdagur (síðasti fimmtudagur fyrir páska) 2020: 9. apríl
–        föstudagurinn langi (stórhátíðardagur) 2020: 10. apríl
–        páskadagur (stórhátíðardagur) 2020: 12. apríl
–        annar í páskum 2020: 13. apríl
–        sumardagurinn fyrsti (fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl) 2020: 23. apríl
–        alþjóðlegur frídagur verkafólks (1. maí)
–        uppstigningardagur 2020: 21. maí
–        hvítasunnudagur (stórhátíðardagur) 2020: 31.maí
–        annar í hvítasunnu 2020: 1. júní
–        þjóðhátíðardagur Íslendinga (17. júní) (stórhátíðardagur)
–        frídagur verslunarmanna (1. mánudagur í ágúst) 2020: 3. ágúst
–        aðfangadagur, frá 12 á hádegi (24. desember) (stórhátíðardagur)
–        jóladagur (25. desember) (stórhátíðardagur)
–        annar í jólum (26. desember)
–        gamlársdagur, frá 12 á hádegi (31. desember) (stórhátíðardagur)

 

Heimild: Áttavitinn

Frítekjumark

Frítekjumark er hámarksupphæð tekna sem bótaþegi almannatrygginga getur haft áður en bætur hans skerðast.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Fullvinnandi

Fullvinnandi er sá sem fær greidd laun fyrir vinnustundir (þ.e. fyrir dagvinnu, vaktavinnu, og yfirvinnu) sem eru a.m.k. 90% af mánaðarlegri dagvinnuskyldu.
Heimild: Í aðdraganda Kjarasamninga 2015

Fylgiskjöl með kjarasamningi

Um fylgiskjöl með kjarasamningi gildir sama og um bókanir með kjarasamningum. Fylgiskjöl taka jafnan til afmarkaðs efnis, en efni þeirra er almennt talið jafngilt og efni kjarasamnings og bókana.

Fyrirbyggjandi sáttastörf

Með fyrirbyggjandi sáttastörfum er átt við aðgerðir til að greiða fyrir því að samningur taki við af samningi og koma í veg fyrir að hnökrar við innleiðingu kjarasamnings verði til þess að ekki takist að semja fyrir lok samningstíma. Alla jafna er sáttastörfum ekki beitt fyrr en langt er liðið á samningstímann og jafnvel eftir að samningur hefur runnið út, en rannsóknir sýna að fyrirbyggjandi aðgerðir til sátta auka verulega líkur á að samningur taki við af samningi. Fyrirbyggjandi sáttastörf er oftast í formi funda með samningsaðilum á gildistíma samnings, undir stjórn sáttasemjara.

Fyrirframgreidd laun

Ákvæði um fyrirframgreidd laun eru mismunandi eftir kjarasamningum. Oftast er kveðið á um að starfsmaður sé ráðinn ótímabundið og hafi starfað samfellt í eitt ár. Ef þessi skilyrði eru uppfyllt ætti hann að geta óskað eftir fyrirframgreiðslu launa til eins mánaðar.
Heimild: Áttavitinn

Fyrirtækjasamningur

Fyrirtækjasamningur er kjarasamningur sem gerður er milli tiltekins fyrirtækis og stéttarfélags eða –félaga um laun og önnur starfskjör þeirra sem starfa hjá hlutaðeigandi fyrirtæki.

Fæðispeningar

Fæðispeningar vísar til þeirrar fjárupphæðar frá vinnuveitanda sem greidd er upp í fæðiskostnað.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Gerðardómur

Gerðardómur er úrskurðaraðili sem yfirleitt hefur það hlutverk að leysa endanlega úr réttarágreiningi, en telst þó ekki til dómstóls. Gerðardómur skiptast í lögbundna gerðardóma og samningsbundna gerðardóma.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Gildistími

Gildistími kjarasamnings er frá undirskriftardegi nema öðruvísi hafi verið um samið. Sé samningur felldur í atkvæðagreiðslu fellur hann úr gildi þar með. Yfirleitt er kveðið á um gildistíma kjarasamninga í samningum og hvort hann fellur úr gildi í lok samningstíma eða með uppsögn.

Gjaldþrot

Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti telst aðili, einstaklingur eða fyrirtæki, gjaldþrota ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Úrskurður um gjaldþrot atvinnurekanda er meginforsenda þess að Ábyrgðasjóður launa geti greitt kröfur vegna vangoldinna launa starfsmanna.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Greiddar stundir

Greiddar stundir eru mánaðarlegar stundir fullvinnandi einstaklinga, í dagvinnu, vaktavinnu, eftirvinnu, uppmælingum eða yfirvinnu. Til að umreikna mánaðarstundir í vikustundir þarf að deila í greiddar stundir með (52/12). Greiddar stundir geta falið í sér bæði vanmat og ofmat á unnum stundum. Til að mynda getur verið vanmat á unnum stundum hjá þeim launamönnum sem eru með fastlaunasamninga en þá eru yfirvinnulaun hluti af föstum launum starfsmanna og yfirvinnutímar ekki skráðir í launakerfi. Ofmat á unnum stundum er fyrst og fremst vegna greiddra stunda í veikindum og orlofi auk þess sem að í einhverjum tilfellum er launauppbót greidd í formi fastra yfirvinnutíma án þess að tímarnir séu unnir.
Heimild: Hagstofa Íslands

Grunnlaun

Grunnlaun eru greidd mánaðarlaun fyrir dagvinnu, grunndagvinnulaun, án allra aukagreiðslna. Í einhverjum tilfellum eru launamenn með fastlaunasamninga og eru þá öll greidd laun færð sem grunnlaun í launakerfi. Í slíkum samningum er ekki haldið utan um yfirvinnugreiðslur eða aðrar launagreiðslur sérstaklega. Fastlaunasamningar finnast í öllum starfsstéttum en eru algengastir hjá stjórnendum og sérfræðingum.
Heimild: Hagstofa Íslands

Hagvöxtur

Hagvöxtur er breyting vergrar landsframleiðslu á föstu verðlagi milli ára. Þegar þjóðhagsreikningatölur eru færðar á fast verðlag er hver liður staðvirtur með eigin verðlagsvísitölu, og þannig fundnar magnstærðir sem eru óháðar verðbreytingum. Þannig eru einkaneysluútgjöld færð á fast verðlag með verðvísitölu einkaneyslu, innflutningur með vísitölu innflutnings og útflutningur með vísitölu útflutnings.
Heimild: Í aðdraganda Kjarasamninga 2015

Heildarlaun

Heildarlaun eru öll laun einstaklingsins, þ.e. regluleg heildarlaun auk ýmissa óreglulegra greiðslna s.s. orlofs- og desemberuppbótar, eingreiðslna, ákvæðisgreiðslna og uppgjörs vegna uppmælinga. Við útreikninga er hvorki tekið tillit til hlunninda né akstursgreiðslna.
Heimild: Hagstofa Íslands:

Hlunnindi

Hlunnindi eru aukin réttindi eða fríðindi sem starfsmaður fær fyrir utan eiginleg laun í vinnu sinni, svo sem á formi afnota af búnaði eða með öðru endurgjaldi en peningum.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Hlutastarf

Starfsmaður telst vera í hlutastarfi ef umsamið starfshlutfall hans, hvort sem það byggist á vinnuskyldu hluta úr degi eða hlutastarfi með öðrum hætti, er minna en umsamið eða lögbundið starfshlutfall starfsmanns í fullu starfi. Hlutastarfsmaður skal njóta sama réttar til greiðslu samningsbundinna og lögbundinna áunninna réttinda, svo sem um frídaga, veikinda- og slysadaga, uppsagnarfrests, starfsaldurshækkana, o.fl., og þeir sem vinna fullan vinnudag og skulu greiðslur miðaðar við starfshlutfall og venjulegan vinnudag viðkomandi starfsmanns.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Hópuppsagnir

Um hópuppsagnir gilda lög nr. 63/2000, um hópuppsagnir. Þar er kveðið á um réttarstöðu starfsmanna og skyldur atvinnurekanda þegar til koma uppsagnir, sem ekki tengjast hverjum einstökum starfsmanni, en hópi þeirra er sagt upp miðað við fjöldaviðmið sem lögin leggja til.

Iðngrein

Orðið iðngrein vísar til atvinnustarfsemi, sem er rekin í formi handiðnaðar eða verksmiðjuiðnaðar, án tillits til þess hvaða efni eða orka, vélar eða önnur tæki eru notuð eða hvaða vörur eða efni sem framleidd eru við þann iðnað. Helstu iðngreinar eru ýmsar greinar rafiðnaðar, trésmíði, málmsmíði, prentiðnaðar, hársnyrtigreinar o.s.frv. Rétt til iðnaðarstarfa í iðngreinum sem löggiltar hafa verið í reglugerð iðnaðarráðherra, hafa meistarar, sveinar og nemendur í hlutaðeigandi iðngrein. Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð iðnaðarráðherra, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Innanhússtillaga ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari getur samkvæmt venju lagt fram óformlega sáttatillögu að lausn kjaradeilu. Skrifleg tillaga sem lögð er fyrir samninganefndir deiluaðila til samþykkis eða synjunar, gengur undir heitinu innanhússtillaga sáttasemjara (til aðgreiningar frá formlegri miðlunartillögu).

Jafnaðarkaup

Jafnaðarlaun eru laun þar sem sami taxti gildir um dag-, eftir- og næturvinnu.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Jafnlaunaregla

Kveðið er á um jafnlaunareglu íslensks réttar í 19. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla („jafnréttislög“) og kveður hún á um að konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Jafnframt er einnig, með lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, gert ráð fyrir að þegar að kemur að ákvörðunum um laun og önnur kjör starfsfólks gildi jafnlaunaregla íslensks réttar.
Heimild: Vinnumarkaðsvefur SA

Jafnlaunasamningur

Jafnlaunasamningur er samningur um jafna greiðslu launa yfir árið, þar sem yfirvinnustundir eru áætlaðar fyrir hvern mánuð og ætlast er til að starfsmaður skili umsömdum yfirvinnustundum.
Heimild: Ríkisendurskoðun

Jafnlaunastaðall

Jafnlaunastaðall er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi. Markmið staðalsins er að auðvelda vinnuveitendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á sínum vinnustað og uppfylla þannig ákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008. Staðallinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og velferðarráðuneytis.
Heimild: Vinnumarkaðsvefur SA

Jafnlaunavottun

Jafnlaunavottun er opinber vottun um jöfn laun karla og kvenna á tilteknum vinnustað. Með lögum um jafnlaunavottun nr. 56/2017 var gerð breyting á ákvæðum jafnréttislaga og eru því ákvæði um skyldu til innleiðingar jafnlaunastaðalsins og öðlast vottun að finna í jafnréttislögum. Þar er ákvæði um að fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli skuli öðlast vottun, að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfu jafnlaunastaðalsins. Jafnlaunavottun þarf að endurnýja á þriggja ára fresti.

Heimild: Vinnumarkaðsvefur SA

Jafnvægisatvinnuleysi

Eitthvert atvinnuleysi er alltaf til staðar óháð hagsveiflum, t.d. vegna þess að fólk flytur eða ákveður að skipta um starf og tekur sér tíma í að leita að nýju starfi. Þetta er stundum nefnt „eðlilegt“ atvinnuleysi, „náttúrulegt“ atvinnuleysi eða jafnvægisatvinnuleysi. Þegar mælt atvinnuleysi er minna en þetta jafnvægisgildi er spenna á vinnumarkaði sem leiðir að öðru óbreyttu til aukins launaþrýstings sem skilar sér í aukinni verðbólgu. Sé atvinnuleysi aftur á móti yfir jafnvægisgildi sínu er slaki á vinnumarkaði sem heldur aftur af launaþrýstingi og dregur úr verðbólgu að öðru óbreyttu.
Heimild: Seðalabanki Íslands

Kaupauki

Kaupauki er viðbótargreiðsla við laun, tengd afköstum eða árangri. Sérstakir samningar um kaupauka hafa verið gerðir hjá tilteknum starfshópum.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Kaupmáttarauki

Kaupmáttarauki er greiðsla til launafólks sem eykur kaupmátt og byggist á tilteknum forsendum um framvindu reksturs fyrirtækja og hagþróunar.

Kaupmáttur launa

Kaupmáttur launa er munur á þróun launa og verðlags, mælt hér á landi með launavísitölu og vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar út. Kaupmáttur launa sýnir hversu mikið af vöru og þjónustu hægt er að kaupa fyrir laun. Óbreyttur kaupmáttur frá fyrra ári þýðir að hægt er að kaupa sambærilega vörukörfu og fyrir ári.
Heimild: Hagstofa Íslands

Kjarasamningalota

Kjarasamningalota er tímabil þegar unnið er að gerð flestra kjarasamningasamninga.

Heimild: Íslensk orðabók

Kjarasamningaumhverfi

Kjarasamningsumhverfi er umgjörð og umhverfi kjarasamninga.

Heimild: Íslensk orðabók

Kjarasamningaviðræður

Kjarasamningaviðræður eru viðræður um gerð kjarasamninga.
Heimild: Íslensk orðabók

Kjarasamningsaðilar

Kjarasamningsaðilar eru aðilar að kjarasamningisamningi, venjulega stéttarfélag eða hópur stéttarfélaga annars vegar og heildarsamtök atvinnurekenda eða tiltekinn atvinnurekandi hins vegar.
Heimild: Íslensk orðabók

Kjarasamningshækkanir

Kjarasamningshækkanir eru launahækkanir sem samið er um í kjarasamningi.
Heimild: Íslensk orðabók

Kjarasamningur á almennum markaði

Kjarasamningar eru samningar um kaup og kjör launafólks, sem gerðir eru milli stéttarfélags og atvinnurekanda eða samtökum þeirra. Kjarasamningum er ætlað að gilda um tiltekinn tíma og þar er gjarnan kveðið almennt á um kaup, lengd vinnutíma, dagvinnu, yfirvinnu, vaktavinnu, matar- og kaffitíma, uppsagnarfrest, orlof og greiðslur í veikindum.

Heimild: island.is

Kjarasamningur opinberra starfsmanna

Um kjarasamninga opinberra starfsmanna gilda lög nr. 94/1986, það er um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum og hafa rétt til að gera kjarasamninga og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra. Lögin taka einnig til starfsmanna sjálfseignarstofnana sem starfa í almannaþágu.

Kjarabætur

Kjarabætur vísa með víðtækum hætti til bóta á lífskjörum (t.d. launahækkun, hlunnindi eða bætt vinnuskilyrði).

Heimildir: Íslensk nútímamálsorðabók

Kjaraviðræður

Kjaraviðræður eru viðræður milli fulltrúa starfsmanna og atvinnurekanda um kjaramál og gerð kjarasamninga.

Heimild: Íslensk orðabók

Krónutöluhækkun

Krónutöluhækkun er launahækkun sem tilgreind er í krónum en ekki sem hlutfall.

Laun

Laun eru endurgjald fyrir unna vinnu. Þau eru samtala grunndagvinnulauna, álagsgreiðslna, kostnaðargreiðslna, bónusgreiðslna, ákvæðisgreiðslna, vaktaálags, yfirvinnulauna, eingreiðslna, nefndarlauna, hlunninda, annarra launa, orlofsgreiðslna og vísindasjóðs.
Heimild: Hagstofa Íslands

Launabil

Bil sem sýnir mun á launakjörum er launabil.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Launaflokkur/launaþrep

Launaflokkur er flokkur launa sem starfsmönnum er raðað í.
Stéttarfélög og atvinnurekendur ákvarða gjarnan fasta launaflokka, þ.e. störfum er raðað niður á launaflokka eftir því hvers er krafist af þeim sem vinna þau. Þá eru störf sem metin eru sambærileg (hvað varðar reynslu, álag, ábyrgð o.fl.) sett í sama launaflokk. Innan hvers launaflokks eru oft svokölluð launaþrep og hækkar starfsmaður um launaþrep eftir ýmist starfs- eða lífaldri.

Heimild: Áttavitinn

Launagreiðandi

Einstaklingur eða fyrirtæki sem greiðir fólki laun fyrir að vinna hjá sér. Launagreiðendur eru flokkaðir eftir atvinnugrein skv. ÍSAT2008.
Heimild: Íslensk orðabók

Launajafnrétti

Launajafnrétti þýðir jafnrétti til launa, óháð kyni (og e.t.v. fleiri þáttum). Réttur til sömu launa á sama vinnustað fyrir sambærileg störf án tillits til þess hvort launþeginn er karl eða kona. Skv. lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skal konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Launamaður

Launamaður er einstaklingur sem selur vinnuafl sitt á vinnumarkaði og vinnur undir stjórn og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi í formi launa og annarra starfskjara samkvæmt kjarasamningi, lögum eða ráðningarsamningi.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Launaseðill

Launaseðill er kvittun atvinnurekanda fyrir launum og öðrum starfskjörum sem starfsmaður hefur unnið fyrir á tilteknu launatímabili samkvæmt kjarasamningi og ráðningarsamningi og er jafnframt til staðfestingar á samnings- og lögbundnum frádrætti, s.s. vegna staðgreiðslu skatta, iðgjalda í lífeyrissjóð, félagsgjalda o.fl. Í kjarasamningum er mælt fyrir um hvaða upplýsingar launaseðlar skulu að lágmarki geyma. Algengt er að mælt sé fyrir um sundurliðun launa, m.a. í dagvinnu, yfirvinnu og stórhátíðarvinnu auk þess sem allur frádráttur launa skuli sundurliðaður. Orlofslaun séu skráð á launaseðil sem og áunninn frítökuréttur.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Launaskrið

Launaskrið er hækkun launa umfram breytingar á kauptöxtum.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Launatekjur

Launatekjur eru brúttó tekjur einstaklinga frá öllum vinnuveitendum, þ.m.t. launagreiðslur, greiðsla vegna yfirvinnu, álagsgreiðslur, bónusgreiðslur, óunnin yfirvinna, samningsbundnar eingreiðslur (s.s. desemberuppbót), greiðslur vegna ferðakostnaðar, aukagreiðslur vegna fjarveru frá heimili (ekki þó dagpeningar) og framlög í lífeyrissjóði, séreignarsparnað og annað því um líkt.
Heimild: Hagstofa Íslands

Launavísitala

Launavísitala er mánaðarleg verðvísitala sem er reiknuð og birt á grundvelli laga nr. 89/1989. Vísitala fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni hefur verið birt frá janúar 1989. Í frumvarpi með lögunum er kveðið á um að mældar skuli breytingar allra launaþátta en tekið er fram að ekki sé ætlast til að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi áhrif á launavísitöluna, nema ef um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga. Við framkvæmd mælinga hefur því verið stuðst við það sjónarmið löggjafans að um sé að ræða verðvísitölu launa, án launakostnaðar, þar sem vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki útreikningum er haldið föstum á milli mælinga til að endurspegla launaþróun í landinu.
Heimild: Hagstofa Íslands

Launaþrep/launaflokkur

Stéttarfélög og vinnustaðir ákvarða gjarnan fasta launaflokka, þ.e. störfum er raðað niður á launaflokka eftir því hvers er krafist af þeim sem vinna þau. Þá eru störf sem metin eru sambærileg (hvað varðar reynslu, álag, ábyrgð o.fl.) sett í sama launaflokk. Innan hvers launaflokks eru oft svokölluð launaþrep og hækkar starfsmaður um launaþrep eftir ýmist starfs- eða lífaldri.
Heimild: Áttavitinn

Lágmarkslaun

Hér á landi eru lágmarkslaun ákveðin í kjarasamningum skv. ákvæðum laga nr. 80/1938 og skv. lögum nr. 55/1980 en um laun umfram ákvæði kjarasamninga er samið í ráðningarsamningum. Öll ákvæði ráðningarsamninga, formlegra eða óformlegra, um lægri laun, uppbætur eða starfstengdar greiðslur en kjarasamningar mæla fyrir um eru ógild. Í kjarasamningum er jafnframt samið um laun fyrir vinnu sem unnin er utan umsamins dagvinnutíma.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Lágtekjumörk

Lágtekjumörk í hverju landi eru skilgreind af Evrópusambandinu sem 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu í landinu. Þannig eru þeir einstaklingar undir lágtekjumörkum sem hafa lægri ráðstöfunartekjur á neyslueiningu en 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu á Íslandi.
Heimild: Hagstofa Íslands:

Lífeyrir

Lífeyrir er mánaðarlegar greiðslur til ellilífeyrisþega eða öryrkja úr almannatryggingum eða lífeyrissjóði.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Lífeyrisaldur

Alltaf þarf að sækja um ellilífeyri en réttur myndast almennt við 67 ára aldur. Miðað er við að réttur hefjist fyrsta dag næsta mánaðar eftir 67 ára afmælið.
Heimild: Tryggingastofnun

Lífeyrisframlag

Lífeyrisframlag er framlag launagreiðenda og launafólks í lífeyrissjóð.

Lífeyriskerfi

Lífeyriskerfi nær yfir tilhögun lífeyrismála, t.d. sameignar söfnunarsjóðir, gegnumstreymiskerfi og séreignasparnaður. Þjóðir hafa farið ólíkar leiðir til þess og er algengast að flokka lífeyriskerfi þjóða í gegnum‐ streymiskerfi eða sjóðsöfnunarkerfi.
Heimild: Lífeyrismal.is

Lífeyrisréttindi

Með greiðslum í lífeyrissjóð ávinna sjóðsfélagar sér svokölluð lífeyrisréttindi – réttindi til ellilífeyris, örorkulífeyris, makalífeyris eða barnalífeyris.
Heimild: Lífeyrismal.is

Lífeyrissjóðsgjald

Lífeyrissjóðsgjald er iðgjald í lífeyrissjóð, iðgjald launafólks og mótframlag launagreiðanda, hvort sem um er að ræða skyldulífeyri eða valkvæðan séreignarlífeyri.

Lífeyrissjóður

Lífeyrissjóður er sjóður sem fólki með atvinnutekjur er skylt að greiða reglulega í ákveðið hlutfall af launum sínum. Sjóðfélagar fá síðan greiddan lífeyri úr lífeyrisjóði þegar þeir hætta að vinna, t.d. vegna aldurs eða örorku. Starfsemi lífeyrissjóða sem flestir eru félög skiptir einnig verulegu máli í íslensku fjármálalífi, ekki aðeins vegna tryggingahlutverks þeirra heldur ekki síður sökum þess að þeir ráða yfir miklu fjármagni sem þeir ávaxta m.a. með kaupum á hlutabréfum og gerast þannig þátttakendur í atvinnulífinu.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Mánaðarlaun

Mánaðarlaun ná yfir laun í tilteknum mánuði. Eingreiðslur og aðrar óreglulegar greiðslur eru þá undanskildar.
Heimild: Hagstofa Íslands

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari getur lagt fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu, hafi sáttaumleitanir ekki borið árangur. Skilyrði þess að miðlunartillaga verði lögð fram, er m.a. að viðræður hafi ekki borið árangur og að þeim tíma sem ætlaður var til viðræðna sé lokið. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann leggur fram miðlunartillögu en samninganefndir taka ekki formlega afstöðu til efnis tillögunnar eins og þegar um innanhússtillögu er að ræða.

Mótframlag í lífeyris- og séreignasjóði

Mótframlag í lífeyris- og séreignasjóði er lögbundið mótframlag atvinnurekanda í samtryggingarsjóð og kjarasamningsbundin mótframlög í séreignasjóð. Stofn til mótframlags í lífeyrissjóð er allar tegundir launa og þóknana að undanskildum hlunnindum og akstursgreiðslum.

Heimild: Hagstofa Íslands

Nafnlaun

Hagfræðingar gera oft greinarmun á launum í krónum talið, kalla það nafnlaun, og kaupmætti launa, kalla það raunlaun. Breytingar á kaupmætti launa eða raunlaunum eru þá breytingar á nafnlaunum að frádregnum áhrifum verðlagsbreytinga. Þegar til lengri tíma er litið er eðlilegt að gera ráð fyrir að raunlaun hækki nokkurn veginn í takt við framleiðni.
Heimild: Vísindavefurinn

Opinber starfsmaður

Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins [opinberra starfsmanna], „taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi hann tilheyri, enda verði starf hans talið aðalstarf.“

Orlof

Um orlof gilda lög nr. 30/1987 með síðari breytingum og ákvæði kjarasamninga. Allir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eiga rétt á orlofi og orlofslaunum skv. ákvæðum laganna og því sem um semst milli atvinnurekanda og stéttarfélags í kjarasamningi.

Orlof og sérstakir frídagar

Orlof og sérstakir frídagar eru frídagar sem eru greiddir en ekki unnir. Greiðslur vegna orlofs eru metnar út frá orlofsréttindum hvers starfsmanns hjá atvinnurekanda á árinu. Sérstakir frídagar geta verið nýársdagur, skírdagur, föstudagurinn langi, annar í páskum, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu, 17. júní, frídagur verslunarmanna, aðfangadagur, jóladagur, annar í jólum og gamlársdagur.

Heimild: Hagstofa Íslands

Orlofsuppbót

Orlofsuppbót er heiti á eingreiðslu sem atvinnurekendum ber samkvæmt kjarasamningi að greiða starfsmönnum sínum ár hvert í tengslum við orlofstöku þeirra.
Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Óþægindaálag / óþægindagreiðslur

Óþægindaálag er álag á laun vegna óþæginda í starfsumhverfi eða starfi.
Heimild: Íðorðabankinn

Persónuafsláttur

Allir sem náð hafa 16 ára aldri á tekjuárinu og eru heimilisfastir á landinu eiga rétt á persónuafslætti. Sama gildir um þá sem hafa rétt til að halda hér á landi skattalegu heimili þrátt fyrir dvöl erlendis vegna náms eða veikinda. Hjá þeim sem ná 16 ára aldri á tekjuárinu reiknast fullur persónuafsláttur fyrir allt árið. Persónuafsláttur er sú skattfjárhæð sem skattaðili fær í „afslátt“ á ársgrundvelli, þ.e. þarf ekki að greiða af launum.

Heimild: Ríkisskattsstjóri

Persónuálag

Persónuálag er einstaklingsbundin greiðsla vegna einhverra eiginleika viðkomandi, t.d. reynslu eða þekkingar.

Rammasamningur

Samningur sem hefur að geyma grundvallandi meginskilmála, gjarnan ætlaður til notkunar fyrir stóran hóp manna sem síðan semja einstaklingsbundið með vísun til rammasamnings. Dæmi: Kjarasamningar stéttarfélaga bornir saman við vinnusamninga einstaklinga úr því.

Heimild: Íðorðabankinn

Raunlaun

Gerður er greinarmunur á launum í krónum talið, eða nafnlaunum, og kaupmætti launa, raunlaunum. Breytingar á kaupmætti launa eða raunlaunum eru þá breytingar á nafnlaunum að frádregnum áhrifum verðlagsbreytinga. Þegar til lengri tíma er litið er eðlilegt að gera ráð fyrir að raunlaun hækki nokkurn veginn í takt við framleiðni.
Heimild: Vísindavefurinn

Ráðningarsamband

Ráðningarsamband er samband atvinnurekanda og starfsmanns sem byggist á ráðningarsamningi og felur í sér gagnkvæm réttindi og skyldur aðila.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Ráðstöfunartekjur

Ráðstöfunartekjur eru heildartekjur heimilisins eftir skatta að meðtöldum greiðslum úr félagslega kerfinu. Samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins telst hagnaður af sölu hlutabréfa og verðbréfa ekki til ráðstöfunartekna. Aðrar fjármagnstekjur, svo sem vaxtatekjur og arður af hlutabréfum, teljast hins vegar til ráðstöfunartekna.

Heimild: Hagstofa Íslands

Regluleg heildarlaun

Regluleg heildarlaun eru regluleg laun að viðbættum launum fyrir mælda yfirvinnu.

Heimild: Hagstofa Íslands

Regluleg laun

Regluleg laun eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslur sem tilheyra launaliðum sem eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Dæmi um slíkar greiðslur geta verið föst yfirvinna, fastar álagsgreiðslur, bónusar í framleiðslu, sölubónusar, vaktaálag og eftirvinna. Regluleg laun hlutastarfsfólks eru umreiknuð í laun fyrir fullt starf. Við samanburð á reglulegum launum milli starfa eða starfsstétta er gott að hafa í huga að í þeim störfum þar sem fastlaunasamningar eru algengir eða föst yfirvinna þá er ekki sérstaklega haldið utan um yfirvinnugreiðslur í launakerfi og eru þær greiðslur því hluti af reglulegum launum.
Heimild: Hagstofa Íslands

Samflot

Það þegar kjarasamningar eru gerðir á vettvangi sambanda stéttarfélaga, ýmist á vettvangi viðkomandi starfsgreinar eða á vettvangi heildarsamtaka, og samþykktir með fyrirvara um samþykki í hverju félagi fyrir sig. Í samfloti eru kjarasamningar m.ö.o. gerðir fyrir tvö eða fleiri stéttarfélög í einu, án þess þó að félögin framselji öðrum samningsréttinn.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Samninganefnd

Samninganefnd er hópur manna sem stendur í samningum, einkum fulltrúar ríkis, félags eða fyrirtækis í formlegum samningaviðræðum
Heimildir: Íslensk nútímamálsorðabók

Samningaviðræður

Samningaviðræður eru viðræður þar sem reynt er að komast að niðurstöðu og gera samning.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Samningsaðili

Samningsaðili er aðili að samningi og á beinan rétt eða ber beinar skyldur samkvæmt honum.

Heimildir: Lögfræðiorðasafnið

Samningstímabil

Samningstímabil er það tímabil sem samningur gildir eða er ætlað að gilda.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Samningur

Samningur er tvíhliða (eða marghliða) löggerningur sem byggist á gagnkvæmum eða nátengdum viljayfirlýsingum milli tveggja eða fleiri aðila sem ætlað er að binda þá báða eða alla að lögum. Flestir samningar kveða á um gagnkvæma efndaskyldu aðilanna en efndaskyldan getur þó einnig verið einhliða.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Samráðsvettvangur

Samráðsvettvangur er vettvangur þar sem samstarf á sér stað.

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Samúðarverkfall

Samúðarverkfall er vinnustöðvun eins félags til stuðnings kröfum annars félags sem á í verkfalli. Samúðarverkfalli er ekki ætlað að hafa áhrif á stöðu þess sem samúðarverkfall boðar enda kjarasamningur fullgildur og þar með friðarskylda í gildi. Í lögum segir að óheimilt sé að hefja samúðarverkfall til styrktar félagi, sem hafið hefur ólögmæta vinnustöðvun.

Samþykki kjarasamnings

Samninganefnd stéttarfélags/atvinnurekanda sem hefur fengið umboð til undirritunar kjarasamnings fyrir hönd félagsmanna, ber að leggja samninginn fyrir meðlimi hlutaðeigandi félags og leita eftir afstöðu þeirra. Það skal gert innan fjögurra vikna frá undirritun samnings. Áskilin er þátttaka 1/5 félagsmanna og stuðningur minnst helmings þeirra. Fari fram póstatkvæðagreiðsla ræður meiri hluti greiddra atkvæða óháð þátttöku.

Sáttamiðlun

Með sáttamiðlun er átt við aðstoð óhlutdrægs þriðja manns við aðila, tvo eða fleiri, við að leysa ágreining sín í milli af fúsum og frjálsum vilja.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Sáttastörf

Sáttastörf fela í sér að miðla sáttum milli deiluaðila. Gjarnan er notuð sáttamiðlun eða samningatækni. Eitt meginhlutverk ríkissáttasemjara skv lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er að annast sáttastörf í vinnudeilum.

Séreignasparnaður

Séreignasparnaður eða viðbótarlífeyrissparnaður er lífeyrissparnaður. Launamenn á aldrinum 16–70 ára geta gert sérstakan samning um lífeyrissparnað við bankastofnun, verðbréfafyrirtæki, líftryggingafélag eða lífeyrissjóð vegna iðgjalda til séreignar eða viðbótartryggingaverndar.

Heimild: Stjórnarráðið

Sér(kjara)samningur

Sérsamningur fyrir tiltekinn hóp félagsmanna sem leiðir af sérstöðu þeirra, s.s. vegna menntunar eða ráðningar að tilteknu fyrirtæki nefnist gjarnan sérkjarasamningur. Sérkjarasamningar byggja á grunni aðalkjarasamnings.

Sjálfstætt starfandi

Sjálfstætt starfandi eru sjálfstæðir atvinnurekendur sem stunda eigin rekstur, ýmist á eigin kennitölu eða í félagi, oftast einkahlutafélagi.

Heimild: lifeyrismal.is

Staðgreiðsla

Öllum launagreiðendum er skylt að draga staðgreiðslu opinberra gjalda frá launum og öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum til launamanna og skila í ríkissjóð. Á sama hátt á að draga staðgreiðslu frá reiknuðu endurgjaldi þeirra sem starfa við eigin atvinnurekstur. Staðgreiðslan samanstendur af tekjuskatti og útsvari og er fyrirframgreiðsla uppí álagningu opinberra gjalda samkvæmt skattframtölum einstaklinga. Tekjuskattur rennur í ríkissjóð og útsvarið til viðeigandi sveitarfélags.

Heimild: Ríkisskattsstjóri

Sjúkrasjóðsgjald

Sjúkrasjóðsgjald er gjald sem greitt er í sjúkrasjóð, en það er sjóður sem félagar stéttarfélags greiða í og geta sótt um framlög úr, t.d. sjúkradagpeninga og gleraugnastyrk.

Skattar

Skattar eru greiðsla, venjulega peningagreiðsla, sem einstaklingar eða lögaðilar verða að gjalda til hins opinbera samkvæmt einhliða ákvörðun ríkisvaldsins eftir almennum efnislegum mælikvarða og án sérgreinds endurgjalds frá hinu opinbera.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Skattþrep

Þegar rætt er um skattþrep er átt við ákveðið prósentustig skatta.

Heimildir: Íslensk nútímamálsorðabók

Staðgengislaun

Staðgengislaun miðast við þau laun sem starfsmaður hefði sannanlega haft ef hann hefði ekki forfallast frá vinnu vegna sjúkdóms eða slyss önnur en mætingabónus og álagsgreiðslur vegna sérstakrar áhættu eða óþrifnaðar sem eru tilfallandi við framkvæmd sértilgreindra starfa.

Heimildir: Vinnumarkaðsvefur SA

Starfandi

Starfandi teljast þeir sem unnu eina klukkustund eða lengur í viðmiðunarvikunni eða voru fjarverandi frá starfi sem þeir gegna að öllu jöfnu. Fólk í fæðingarorlofi telst vera fjarverandi frá vinnu hafi það farið í leyfi úr launuðu starfi jafnvel þótt það hafi ekki hug á að hverfa aftur til sama starfs.

Heimild: Hagstofa Íslands

Starfsaldur

Starfsaldur vísar til þess tíma sem starfsmaður hefur unnið hjá vinnuveitanda eða á vinnumarkaði. Starfsaldur skipt­ir máli þegar litið er til ávinnslu orlofs, réttar starfsmanns til launa í sjúkdóms- og slysatilvikum o.s.frv.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Starfsaldursgreiðsla

Starfsaldursgreiðsla er greiðsla vegna áfanga í starfsaldri.

Starfsgrein

Starfsgrein er ákveðin tegund starfs, s.s. sjómennska, hjúkrun, kennsla.

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Starfsheiti

Starfsheiti er heiti sem segir til um starf manns, stundum lögverndað.

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Starfshlutfall

Segir til um hvort starfsmaður teljist vera í fullu starfi (100%) eða hlutastarfi.

Starfskjaralög

Lög nr. 55/1980 um starfskjör og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Þar er mælt fyrir um að umsamin laun og önnur starfskjör sem mælt er fyrir um í kjarasamningi skuli vera lágmarkslaun fyrir alla starfsmenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningurinn tekur til. Samningar um lakari kjör en almennir kjarasamningar kveða á um eru ógildir.

Starfskjör

Starfskjör eru laun og önnur hlunnindi sem starfsmaður semur um fyrir vinnu sína, aðbúnaður í starfi o.s.frv.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Starfslýsing

Starfslýsing er skrifleg lýsing á einstökum þáttum tiltekins starfs.

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Starfsmaður

Starfsmaður er sá sem ræður sig til starfa, er aðili að ráðningarsamningi. Maður sem vinnur á tilteknum vinnustað og fær greidd laun frá vinnuveitanda. Sjá einnig launamaður.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Starfsmat

Starfsmat er kerfisbundið mat á innihaldi og kröfum til starfs.

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Starfsmenntun

Starfsmenntun er menntun sem fólk þarf að hafa til að starfa í ákveðnum greinum, t.d. þarf maður að hafa starfsmenntun til að vinna sem rafvirki eða sjúkraliði.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Starfsskyldur

Þegar rætt er um starfsskyldur er átt við þær skyldur sem fylgja tilteknu starfi, hvort heldur opinberu starfi eða starfi á almennum vinnumarkaði.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Starfsstétt

Starfsstétt er stétt manna eftir starfsgrein þeirra.

Heimild: malid.is

Stéttarfélag

Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna og skulu þau vera opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á tilgreindu félagssvæði. Fjallað er um hlutverk stéttarfélaga í lögum nr. 80/1938. Samninganefnd stéttarfélags er heimilt að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga, eða landshluta, umboð til þess að fara með kjarasamninga.

Stjórnunarálag

Stjórnunarálag er álag á laun sem greitt er vegna stjórnunarstarfa.

Stofnanasamningur

Stofnanasamningur er sérstakur samningur milli stofnunar ríkisins og viðkomandi stéttarfélags um aðlögun tiltekinna þátta aðalkjarasamnings að þörfum stofnunar með hliðsjón af sérstöðu starfa og verkefna stofnunar. Forstöðumenn stofnana geta ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum, vegna sérstakrar hæfni eða álags í starfi. Stofnanasamningur er hluti af þeim kjarasamningi sem gerður er við viðkomandi stéttarfélag og er því óuppsegjanlegur og ekki verða þvingaðar fram breytingar á honum með verkfallsaðgerðum.

Stöðugildi

Stöðugildi er starfsframlag (til lengri tíma) sem jafngildir vinnu eins starfsmanns í fullu starfi.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Svæðissamningar

Svæðissamningur er samningur sem nær til tiltekinna starfa á tilteknu landssvæði.

Tekjuskipting

Tekjuskipting segir til um dreifingu tekna milli einstakra þjóðfélagshópa, tekjudreifing.

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Tekjutrygging

Tekjutrygging er trygging fyrir tiltekinni lágmarksupphæð í tekjur (t.d. í tengslum við greiðslur á elli- og örorkulífeyri).

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Tímabundinn ráðningarsamningur

Tímabundinn ráðningarsamningur er ráðningarsamningur þar sem lok ráðningarsambands er bundið tiltekinni fyrir fram ákveðinni dagsetningu, ákveðnum verklokum eða öðru skýrt afmörkuðu skilyrði.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Tímakaup

Tímakaup byggir á mánaðarlaunum og greiddum stundum í mánuði.

Heimild: Hagstofa Íslands

Trúnaðarmaður

Í 9.-12. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eru ákvæði um trúnaðarmenn á vinnustöðum. Starfsmönnum er heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem starfa 5-50 starfsmenn og tvo séu starfsmenn fleiri en 50. Um trúnaðarmenn opinberra starfsmanna gilda ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og sérstakt samkomulag. Trúnaðarmenn gæta þess að kjarasamningar séu haldnir af atvinnurekanda og að ekki sé gengið á réttindi starfsmanna. Trúnaðarmenn njóta uppsagnarverndar samkvæmt 11. gr. laga nr. 80/1938.

Tryggingagjald

Tryggingagjald er sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna. Stofn til tryggingagjalds eru allar tegundir launa, þóknana auk mótframlag í lífeyris- og séreignasjóði.

Heimild: Hagstofa Íslands

Túlkun kjarasamnings

Oft koma upp atriði í kjarasamningi sem krefjast skýringar eða túlkunar eftir að samningur er gerður. Með hugtakinu túlkun er átt við það að gera grein fyrir því, hvaða skilning ber að leggja í samning og hvaða réttaráhrif samningurinn skuli hafa. Aðilar kjarasamnings geta borið ágreining um túlkun kjarasamnings undir Félagsdóm til úrlausnar.

Undanfarasamningur

Undanfarasamningur er fyrsti samningur í samningalotu og er ætlað að vera fyrirmynd þeirra sem á eftir koma.

Uppmæling

Það þegar laun miðast við ákveðin uppmælingarkerfi (afkastakerfi). Tíðkast í vissum starfsgreinum, s.s. hjá trésmiðum, rafvirkjum, málurum, múrurum og pípulagningamönnum en einnig t.d. í ræstingavinnu.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Uppsagnarfrestur

Sá tími sem líður frá því að uppsögn samkvæmt yfirlýsingu atvinnurekanda eða starfsmanns tekur gildi, við viku- eða mánaðarmót, þar til ráðningarsamningur aðila telst á enda runninn. Um lengd uppsagnarfrests er fjallað í kjarasamningum, lögum eða eftir atvikum ráðningarsamningi sé uppsagnarfrestur ákveðinn lengri en kjarasamningar eða lög ákveða.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Útkall

Með útkalli er átt við óvænta röskun á frítíma starfsmanns þegar hann er kallaður til vinnu eftir að venjubundnum vinnudegi er lokið.

Heimildir: SA

Vaktaálagsgreiðslur

Ákveðin hlutfallstala á dagvinnukaup vegna vaktavinnu er kölluð vaktaálagsgreiðsla. Vaktaálag fylgir vinnuskilum dagvinnu og er greitt þegar vinnuskyldu er sinnt utan dagvinnumarka eins og þau eru skilgreind í kjarasamningi. Vaktaálag greiðist til viðbótar mánaðarlaunum eða tímakaupi í dagvinnu.

Heimildir: Stjórnarráð Íslands

Vaktavinna

Vaktavinna er vinnufyrirkomulag þar sem starfsfólk leysir hvert annað af hólmi á tiltekinni starfsstöð samkvæmt fyrirfram gefnu skipulagi sem leiðir til þess að fólk vinnur á ólíkum tímum dags á mismunandi vikudögum eða tímabilum. Vaktavinna getur falið í sér kvöld-, nætur- og helgarvinnu.

Heimild: Hagstofa Íslands

Veikindalaun

Veikindalaun eru laun sem greidd eru til veiks launafólks. Starfsmenn eiga almennt rétt á launum í veikindum eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samið er um í kjarasamningi.

Heimild: Stjórnarráðið

Verðbólga

Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags og er oftast mæld sem tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs en sú vísitala mælir meðalverð vöru og þjónustu á markaði. Verðbólga felur í sér að verðgildi peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu. Hagstofa Íslands mælir vísitölu neysluverðs og byggir það á reglubundnum könnunum á útgjöldum heimilanna í landinu.

Heimildir: Seðalbanki Íslands

Verkbann

Verkbann er aðgerð sem atvinnurekanda er heimilt að grípa til í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum, og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum, sem sett eru í lögum

Heimildir: Vinnuréttarvefur ASÍ

Verkfall / verkfallsaðgerðir

Verkfall er aðgerð sem stéttarfélag beitir í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum. Verkfall getur verið hvers konar rof á þeirri vinnu sem launafólki er skylt samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi að inna af hendi, enda sé aðgerðin framkvæmd með aðild stéttarfélags og uppfylli önnur skilyrði um form samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Kjósa verður um það meðal félagsmanna hvort að félagsmenn vilja þrýsta á kröfur sínar með því að fara í verkfall. Sé það vilji meirihluta félagsmanna að fara í verkfall er boðað til verkfalls á ákveðnum degi og eiga allir félagsmenn sem starfa eftir viðkomandi kjarasamningi að leggja niður vinnu. Ekki er heimilt að ráða aðra starfsmenn til að ganga í störf viðkomandi á meðan né heldur að reka starfsmenn fyrir að fara í verkfall.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Verkfallsboðun

Ef boða skal vinnustöðvun á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, er það skilyrði lögmætrar boðunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Árangurslaus sáttameðferð hjá ríkissáttasemjara er hins vegar ekki lögbundið skilyrði fyrir boðun vinnustöðvunar á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Verkfallsréttur

Verkfallsréttur er lagalegur réttur starfsstéttar til að fara í verkfall.
Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Verktaki

Verktaki er sá sem tekur að sér að leysa tiltekið verkefni í krafti stöðu sinnar sem sjálfstæður atvinnurekandi en ekki sem launamaður. Réttarstaða verktaka er hin sama og annarra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur og er allt önnur en réttarstaða launafólks.

Viðræðuáætlun

Viðræðuætlun er áætlun um framkvæmd og tímasetningar samningaviðræðna. Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu gera áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamnings. Samningsaðilum er heimilt að veita landssamböndum eða heildarsamtökum sérstakt umboð til að gera viðræðuáætlun fyrir sína hönd ef slíkt umboð leiðir ekki af lögmætum samþykktum sambanda eða samtaka samningsaðila. Viðræðuáætlunina, undirritaða af báðum aðilum, skal senda sáttasemjara í síðasta lagi 10 vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Sé viðræðuáætlun ekki gerð skal sáttasemjari gera hana minnst 8 vikum áður en gildandi samningur rennur út.

Vinnumarkaður

Á vinnumarkaði selja starfsmenn atvinnurekendum vinnuafl sitt með þeim kjörum sem ákveðin eru í kjarasamningum, lögum og ráðningarsamningi. Vinnumarkaður er sagður almennur ef atvinnurekandinn er einstaklingur eða fyrirtæki í eigu einkaaðila eða opinbers aðila, en opinber ef atvinnurekandinn er stofnun á vegum ríkis eða sveitarfélags.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Vinnuréttur

Vinnuréttur er samheiti yfir löggjöf og reglur er varða vinnumarkað.
Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Vinnustöðvun

Vinnustöðvun er þvingunaraðgerð sem heimiluð er við tilteknar aðstæður og að tilteknum skilyrðum uppfylltum þegar ágreiningur verður milli samtaka launafólks og atvinnurekenda. Vinnustöðvun getur ýmist verið í formi verkfalls eða verkbanns.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Vinnustöðvun aflýst

Samninganefnd launafólks eða atvinnurekanda er heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun einu sinni eða oftar, um allt að 28 sólarhringa samtals, án samþykkis gagnaðila, enda sé frestunin kynnt honum með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Aðilum kjarasamnings er þó ávallt heimilt að fresta vinnustöðvun með samkomulagi. Frestun vinnustöðvunar er ekki heimil ef boðað er til hennar á grundvelli laga nr. 94/1986. Samninganefnd má aflýsa boðaðri vinnustöðvun hvenær sem er.

Vinnutími

Lög nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku, gilda um lengd vinnuviku en hún skal ekki vera fleiri en 40 stundir fyrir dagvinnu á virkum dögum vikunnar. Aðilum er heimilt að semja um tilhögun vaktavinnu, matar- og kaffitíma.

Virkur vinnutími

Virkur vinnutími er sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur. Hugtakið virkur vinnutími á rætur að rekja til vinnutímasamnings ASÍ og SA en hann byggir á markmiðum um vinnuvernd starfsmanna.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Vísun kjaradeilu

Slitni upp úr samningaviðræðum aðila eða telji þeir vonlítið um árangur getur hvor þeirra um sig eða þeir sameiginlega, vísað deilunni til ríkissáttasemjara. Þá er honum skylt að leiða aðila saman og halda áfram samningaumleitunum.

Yfirborgun

Yfirborgun felur í sér hærri kaupgreiðslu en almennir kjarasamningar kveða á um.

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Yfirvinna

Yfirvinna er vinna sem einstaklingur vinnur til viðbótar venjulegum vinnutíma skv. ráðningarsamningi, t.d. á kvöldin eða um helgar.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Yfirvinnulaun/yfirvinnukaup

Yfirvinnulaun eru greidd fyrir vinnu sem er umfram vinnuskyldu samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi. Einnig önnur laun sem greidd eru með yfirvinnukaupi, með þeirri undantekningu að greiðslur vegna röskunar neysluhléa vaktavinnumanna falla undir önnur laun.

Heimild: Stjórnarráð Íslands

Ökutækjastyrkur

Ökutækjastyrkur er greiðsla sem launamaður fær frá launagreiðanda fyrir að nota eigin bifreið í hans þágu. Hér getur bæði verið um að ræða að greidd sé föst mánaðarleg eða árleg fjárhæð eða að greitt sé samkvæmt kílómetragjaldi fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt akstursdagbók eða akstursskýrslu.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Önnur laun

Til annarra launa teljast áður ótalin laun á launatímabili, meðal annars álagsgreiðslur fyrir bakvaktir, skráðar greiðslur vegna röskunar kaffitíma vaktavinnumanna og orlofs- og persónuuppbætur.

Heimild: Stjórnarráð Íslands

Þegar rætt er um launadreifingu er vísað til dreifingar launa frá lægstu til hæstu, oft flokkað í tíundir eða fjórðunga.