Tómas Örn Kristinsson, töl- og tölvunarfræðingur, hóf störf hjá embætti ríkissáttasemjara í byrjun apríl. Hann starfar fyrir Kjaratölfræðinefnd, sem stofnuð var í lok síðasta árs til að stuðla að sameiginlegum skilningi aðila vinnumarkaðarins á eðli og þróun þeirra hagtalna sem skipta mestu máli við gerð kjarasamninga. Starf Tómas Arnar felst m.a. í greiningum og skýrsluskrifum, en fyrsta útgáfa nefndarinnar verður í september 2020 – skömmu fyrir endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Tómas Örn lauk B.S. gráðu í tölvunarfræðum frá Háskóla Íslands 1986, MBA prófi frá Rockford University 1988 og meistaragráðu í tölfræði og upplýsingastjórnun frá Nova Universidade í Lissabon 2017.

Tómas Örn starfaði hjá Seðlabanka Íslands frá árinu 1999 til 2020. Þar á undan var hann ritstjóri Vísbendingar í tvö og hálft ár, hjá Verðbréfaþingi Íslands í 5 ár og hjá Fjárfestingarfélagi Íslands í 3 ár.

Kjaratölfræðinefnd er skipuð fulltrúum heildarsamtaka á vinnumarkaði auk fulltrúum frá forsætisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og Hagstofu Íslands.

Stofnun Kjaratölfræðinefndar er mikið framfaraskref og við bindum miklar vonir við að hún muni gefa góðan grunn fyrir undirbúning og umræðu við gerð kjarasamninga.

-Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari.

 

Það er mikill fengur fyrir nefndina að fá Tómas Örn til starfa. Menntun hans og víðtæk reynsla nýtist vel í þeirri þróunarvinnu sem framundan er til að efla greiningar á kjaraþróun og bæta framsetningu þeirra.

-Edda Rós Karlsdóttir, formaður Kjaratölfræðinefndar.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs skrifuðu undir kjarasamning kl. 17.00 í dag. Samningurinn gildir til 31. mars 2023.

Er þetta í fyrsta skipti sem kjarasamningur er undirritaður  hjá ríkissáttasemjara á föstudaginn langa.

FFR, félag flugmálastarfsmanna ríkisins og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs undirrituðu kjarasamning í dag. Samningurinn gildir til 31. mars 2023. Samningurinn verður borinn undir atkvæði félagsmanna á næstu dögum.

Samninganefndir Sameykis og Samtaka atvinnulífsins vegna Isavia hafa undirritað kjarasamning. Samningurinn gildir til 31. október 2022. Atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn lýkur 15. apríl.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og samninganefnd ríkisins hafa undirritað kjarasamning. Kjarasamningurinn gildir til 31. mars 2023. Atkvæðagreiðslu um samninginn lýkur þann 16. apríl.

Aðalsteinn Leifsson hefur tekið við embætti ríkissáttasemjara frá og með deginum í dag, 1. apríl 2020. Skipun Aðalsteins í embættið er til fimm ára. Hann tekur við starfinu af Helgu Jónsdóttur sem var sett í embætti ríkissáttasemjara þann 1. janúar síðastliðinn.

Aðalsteinn lauk MBA námi frá Edinburgh Business School / Herriot Watt University í október 2004. Auk þess hefur hann lokið MSc námi frá London School of Economics (LSE). Þá stundaði hann doktorsnám í samningatækni hjá Grenoble École de Management samhliða vinnu á árunum 2016-2018.

Frá því í janúar 2014 hefur Aðalsteinn starfað sem framkvæmdastjóri hjá EFTA, sem hefur starfstöðvar í Genf, Brussel og Luxemburg. Samhliða störfum sínum hjá EFTA hefur Aðalsteinn verið lektor í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann hefur meðal annars kennt samningatækni og lausn deilumála í MBA-námi.

Aðalsteinn hefur verið aðstoðarsáttasemjari hjá embætti ríkissáttasemjara frá því í byrjun árs 2019 en þá tók hann þátt í sáttamiðlun vegna kjarasamningagerðar á almennum vinnumarkaði. Hann hefur veitt embættinu liðsinni og verið til ráðgjafar auk þess að sitja fundi með samningsaðilum.

Aðalsteinn hefur því víðtæka þekkingu á samningamálum og er höfundur bókar um samningatækni. Auk fræðilegrar þekkingar hefur hann reynslu af þátttöku í samningaviðræðum, kennslu í samningatækni, ráðgjöf við samningsaðila og aðstoð við deiluaðila við að bæta samskipti.

Aðalsteinn vinnur fyrstu tvo dagana að heiman, þar sem hann er í sóttkví fram á föstudag.

Samninganefndir Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa undirritað kjarasamning. Samningurinn gildir til 30. september 2023.

Verkfallsaðgerðum Eflingar – stéttarfélags gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem hafa staðið frá 9. mars hefur verið aflýst frá kl 00:01 miðvikudaginn 25. mars. Félagsmönnum Eflingar sem starfa hjá  Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfus er heimilað að ganga til reglubundinna samkvæmt ráðningarsamningum frá þeim tíma.

Samninganefndir Félags starfsmanna stjórnarráðsins og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hafa undirritað kjarasamning. Samningurinn gildir til 31. mars 2023.

Samninganefndir Vm – félags vélstjóra og málmtæknimanna, Félags íslenskra rafvirkja, Félags rafeindavirkja, FIT – félags iðn- og tæknigreina, Verkalýðsfélagsins Hlífar og VR hafa undirritað kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna Rio Tinto á Íslandi.

Samningarnir gilda til 31. mars 2021. Samhliða undirritun samninganna hefur áður boðuðum vinnustöðvunum félaganna verið frestað. Verkföll félagsmanna VR og verkalýðsfélagsins Hlífar frestast til 7. apríl og verkföll félagsmanna VM, FIT, FÍR og Félags rafeindavirkja frestast til 8. apríl.