Skip to main content

Færslur

Nýleg sáttamál

By Frétt frá ríkissáttasemjara

FFR. Félag flugmálastarfsmanna hefur vísað kjaradeilu sinni og SA, vegna ISAVIA, til ríkissáttasemjara. Áður höfðu Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Efling – stéttarfélag og Verkalýðsfélag Grindavíkur fetað sömu leið.

Gagnagrunnur um kjarasamninga

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari hefur opnað gagnagrunn á vef sínum www.rikissattasemjari.is þar sem hægt er að nálgast texta allra gildandi kjarasamninga á Íslandi og margskonar tölfræði um samningana og kjarasamningsgerðina.

Tilgangurinn er að auðvelda  launafólki og launagreiðendum og öðrum sem  áhuga hafa á að fræðast um kjarasamninga aðgang að ítarlegum upplýsingum um gildandi kjarasamninga, að veita yfirlit yfir hvenær mismunandi samningar renna út og gefa innsýn í margskonar tölfræði varðandi kjarasamningagerðina.

Gagnagrunnurinn er mikilvægur m.a. vegna þess að stundum kann að vera snúið að nálgast  gildandi kjarasamninga og í mörgum tilvikum breytir nýjasti kjarasamningur aðeins hluta af kjörum þeirra sem hann nær yfir – og í gagnagrunninum er hægt að lesa gildandi kjarasamninga í samhengi við fyrri samninga. 

Upplýsingar í grunninum byggja á kjarasamningum sem til eru hjá ríkissáttasemjara, en skv. lögum er aðilum vinnumarkaðarins skylt að senda ríkissáttasemjara alla gerða kjarasamninga. 

Fjórir nemar í Háskóla Íslands unnu að gagnagrunninum með starfs fólki ríkissáttasemjara. 

Tveir nemendur í tölvunarfræði, Alexander Guðmundsson og Einar Páll Pálsson, og tveir nemendur í mannauðsstjórnun, Hanna Lind Garðarsdóttir og Karitas Marý Bjarnadóttir. Verkefnið fékk styrk frá RANNÍS.

„Ég er sannfærður um að gagnagrunnurinn muni nýtast launafólki, einstaka launagreiðendum, verkalýðshreyfingunni og samtöku atvinnurekenda frábærlega vel þar sem það hefur til dæmis verið erfitt að nálgast fullnægjandi upplýsingar um alla gildandi kjarasamninga, hvenær þeir renna út og hvernig þeir tengjast fyrri samningum. Það hefur verið ævintýri að vinna að þessu skemmtilega verkefni með fjórum algerlega frábærum háskólanemum“, segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

Á tölfræðisíðu gagnagrunnsins kemur fram að á Íslandi eru 353 kjarasamningar í gildi og í 99,4% tilvika voru samningar útrunnir áður en nýjir samningar voru undirritaðir. 

Ríkissáttasemjari áformar að bæta smám saman eldri samningum inn í gagnagrunninn uns hann inniheldur alla samninga sem embættið hefur í vörslu sinni, allt frá árinu 1905.

 

Mynd: Fjórir nemendur í Háskóla Íslands unnu að gagnagrunninum um kjarasamninga með starfsfólki ríkissáttasemjara; Alexander Guðmundsson, Hanna Lind Garðarsdóttir, Einar Páll Pálsson og Karitas Marý Bjarnadóttir.

Námsstefna í samningagerð á Húsavík

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Námsstefna í samningagerð var haldin á vegum ríkissáttasemjara á Húsavík á dögunum. Þar voru samankomnir samningamenn víðs vegar að af landinu sem spreyttu sig á ýmsum verkefnum tengdum  samningagerð og hlýddu á fróðlega fyrirlestra.

Alls verða haldnar fimm námsstefnur á árinu og næsta verður í Borgarnesi  14. – 16. mars.

Námstefnurnar eru fyrir samningafólk sem vill bæta þekkingu sína og færni við samningaborðið. Fullbókað er á námsstefnuna í Borgarnesi en nokkur sæti laus á hinar þrjár, sem verða á Ísafirði, Egilsstöðum og Stykkishólmi.

Allar upplýsingar má finna á heimasíðu ríkissáttasemjara.

 

 

 

 

 

 

 

Grunnskólakennarar og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifa undir kjarasamning

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Grunnskólakennarar og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifa undir kjarasamning

Félag grunnskólakennara og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifuðu síðdegis í gær undir nýjan kjarasamning.

Nýr kjarasamningur Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga var undirritaður með rafrænum hætti hjá embætti ríkissáttasemjara síðdegis í gær. Gildistími hins nýja kjarasamnings er 1. janúar 2022 til 31. mars 2023.

Núgildandi kjarasamningur Félags grunnskólakennara  og Sambands íslenskra sveitarfélaga rennur út í dag, gamlársdag, og tekur nýi samningurinn við á nýársdag. Þetta er í fyrsta sinn sem Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrita nýjan kjarasamning áður en gildandi samningur rennur út.

Nýr kjarasamningur fer nú í kynningu meðal félagsmanna Félags grunnskólakennara og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en niðurstaða atkvæðagreiðslu um samninginn mun liggja fyrir þann 14. janúar 2022.

 

Félag grunnskólakennara

Samband íslenskra sveitarfélaga

 

Námsstefnu ríkissáttasemjara á Húsavík frestað

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Námsstefnu ríkissáttasemjara sem fyrirhuguð var á Húsavík 15. – 17. nóvember  nk. hefur verið frestað um óákeðinn tíma.

Þessi ákvörðun er tekin vegna metfjölda covid smita undanfarna daga og  einnig er búist við tillögum um hertar sóttvarnaraðgerðir á næstu dögum.

Námsstefnan verður  sett á dagskrá um leið og aðstæður í samfélaginu leyfa.

 

 

 

Ný skýrsla Kjaratölfræðinefndar

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Haustskýrsla Kjaratölfræðinefndar er nú aðgengileg á vef nefndarinnar www.ktn.is Einnig er hægt að horfa á kynningu Eddu Rósar Karlsdóttur á efni skýrslunnar á vefnum.

Meðal nýjunga í skýrslunni er:

  • Launaþróun ASÍ félaga á almennum markaði er birt sundurliðuð eftir Starfsgreinasambandinu, félögum verslunarmanna, og iðnfélögum.
  • Breytingar á grunntímakaupi allra hópa er birt skipt eftir áhrifum vinnutímatímabreytinga og annarra launabreytinga.
  • Allir launaþættir eru nú sundurliðaðir eftir konum og körlum.
  • Launastig og launaþróun á Íslandi er sett í alþjóðlegt samhengi.

Það er von nefndarinnar að sá grunnur upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni nýtist haghöfum vel við mat á kjaraþróun og við undirbúning komandi kjarasamninga.

 

 

Ný skýrsla frá Kjaratölfræðinefnd kynnt á fimmtudag

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Fimmtudaginn 28. október 2021, kl. 10.00 -10:40, verður kynnt haustskýrsla Kjaratölfræðinefndar, samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag. Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningalotuna sem hófst á vormánuðum 2019 og er senn að ljúka, þróun efnahagsmála og launa.

Kynningin verður í formi fjarfundar sem streymt verður í gegnum heimasíðu Kjaratölfræðinefndar, www.ktn.is . Edda Rós Karlsdóttir, formaður nefndarinnar, kynnir skýrsluna og gerir grein fyrir helstu atriðum hennar og niðurstöðum.

Meðal nýjunga í skýrslunni eru:

  • Launaþróun ASÍ félaga á almennum markaði er birt sundurliðuð eftir Starfsgreinasambandinu, félögum verslunarmanna, og iðnfélögum.
  • Breytingar á grunntímakaupi allra hópa er birt skipt eftir áhrifum vinnutímatímabreytinga og annarra launabreytinga.
  • Samsetning starfa er birt á eftir starfshlutfalli og vinnufyrirkomulagi (þ.e. vaktavinnu).
  • Fjallað er um laun fólks í hlutastörfum sem hlutfall af launum fólks í fullu starfi.
  • Allir launaþættir eru nú sundurliðaðir eftir konum og körlum.
  • Launastig og launaþróun á Íslandi er sett í alþjóðlegt samhengi.

 

Tekið verður við fyrirspurnum á ktn@ktn.is meðan á fundinum stendur. Fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.

Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Haustskýrslan er þriðja skýrsla nefndarinnar, og stefnt er að því að skýrslunar verði tvær ár hvert – vor og haust.

Skýrslan og tölfræðigögn verða aðgengileg á vef Kjaratölfræðinefndar www.ktn.is frá 28. október nk. Það er von nefndarinnar að sá grunnur upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni nýtist haghöfum vel við mat á kjaraþróun og við undirbúning komandi kjarasamninga.

 

Close Menu