Skip to main content

Framkvæmdir hjá ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Nú standa yfir framkvæmdir á húsakynnum ríkissáttasemjara. Unnið er að endurbótum á norðurálmu húsnæðisins með það að markmiði að nýta rýmið betur, fjölga fundasölum og bæta fundaaðstöðuna. Á meðan á þessu stendur færist öll starfsemi embættisins í suðurálmu. Í ljósi þess er óhjákvæmilegt að erfiðara verði að verða við óskum um fundaaðstöðu í óvísuðum málum. Við vonum að framkvæmdirnar valdi sem minnstum óþægindum en áætlaður framkvæmdatími er 2-3 mánuðir. Við hlökkum til að kynna endurbætt húsakynni á nýju ári

Máli FÍN og SNR vísað til ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Máli Félags íslenskra náttúrufræðinga og Samninganefndar ríkisins var vísað til ríkissáttasemjara í dag.

Málið er það fimmta sem ríkissáttasemjari hefur til meðferðar nú um stundir en önnur mál á borði ríkissáttasemjara eru mál Félags íslenskra atvinnuflugmanna og SA v. Icelandair, mál Flugvirkjafélags Íslands og SA v. Icelandair, mál Flugfreyjufélags Íslands og Primera Air Nordic SIA og mál FS, félags skipstjórnarmanna og VM félags vélstjóra og máltæknimanna og Hvalaskoðunar Reykjavíkur og Special Tours.

Opnað fyrir skráningar

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Opnað hefur verið fyrir skráningar á sameiginlega námstefnu í samningagerð fyrir allt samninganefndafólk á Íslandi sem ríkissáttasemjari mun bjóða upp á í maí og september 2018.

Námstefnan verður haldin á Bifröst í Borgarfirði og á henni verður farið yfir ýmsa þætti sem skipta máli fyrir undirbúning kjarasamningagerðar.

Drög að dagskrá og skráningareyðublað má nálgast hér.

Námstefna í samningagerð

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Í maí og september 2018 mun ríkissáttasemjari standa fyrir sameiginlegri fræðslu fyrir allt samninganefndafólk á Íslandi, en mælt er með slíkri fræðslu af Alþjóðavinnumálastofnuninni. Gróflega má áætla að á bilinu 300-400 manns eigi sæti í samninganefndum í hverri kjarasamningalotu.

Námstefnan verður haldin á Bifröst en á henni verður tekið á fjölmörgum atriðum sem skipta máli fyrir undirbúning kjarasamningagerðar og ætti hún að henta vel bæði reyndu samningafólki og nýliðum. Þá er tímasetningin valin með hliðsjón af því að hún henti aðilum vel til undirbúnings kjarasamninga en á þriðja hundruð kjarasamninga losna um áramótin 2018/2019 og í mars 2019.

Það er von ríkissáttasemjara að með sameiginlegri fræðslu alls samninganefndafólks verði hægt að stilla vel saman strengi og stuðla að skilvirku kjarasamningaferli þar sem samningur tekur sem oftast við af samningi.

Meðfylgjandi eru drög að dagskrá námskeiðanna.

Opnað verður fyrir skráningar um miðjan ágúst 2017.

Sameiginleg fræðsla samninganefnda

Lausir kjarasamningar framundan

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Nokkur fjöldi kjarasamninga losnar á seinni hluta árs 2017, eða 37, og þar af losna 29 samningar þann 31. ágúst. Þar á meðal er gerðardómur 18 aðildarfélaga BHM og íslenska ríkisins og samningur Skurðlæknafélags Íslands við íslenska ríkið. Síðar í haust renna út 4 kjarasamningar Flugvirkjafélags Íslands, 5 samningar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, kjarasamningur Félags framhaldsskólakennara við íslenska ríkið og kjarasamningur Félags grunnskólakennara og Sambands sveitarfélaga.

Næsta stóra samningalota verður svo við lok árs 2018 þegar 78 kjarasamningar losna. Fljótlega þar á eftir, eða þann 31. mars 2019, renna út 146 kjarasamningar.