Í dag hefur gerðardómur í ágreiningi Ljósmæðrafélags Íslands og efnahags- og fjármálaráðherra skilað úrskurði sínum til ríkissáttasemjara
Viðfangsefni dómsins er eins og segir í miðlunartillögu ríksáttassemjara frá 21. júli 2018 „… að leggja mat á hvort launasetning stéttarinnar sé í samræmi við ábyrgð, álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra og hvort og þá að hvaða leyti þessir þættir eiga að hafa frekari áhrif á launasetningu hópsins en orðið er.”
Dómurinn setur í megindráttum fram eftirfarandi ábendingar og úrskurði sem rökstuddir eru í 6. kafla greinargerðar hans.
1 Menntun ljósmæðra
Í ljósi menntunarkröfu til ljósmæðra og með vísan í álit og ætlan gerðardómsins frá 2015 telur dómurinn og formfestir með úrskurði sínum að meta eigi kandídatsgráðu ljósmæðra til jafns við nám hjúkrunarfræðings með 2 ára sérnám sem lýkur með 120 ECTS einingum. Ljósmóðir í klínísku starfi skal grunnraðast 2 launaflokkum ofar en hjúkrunarfræðingur sem ekki er með sérmenntun.
Úrskurður dómsins er að menntunarákvæði skuli formfesta í stofnanasamningi hjá öllum stofnunum sem ljósmæður starfa á fyrir 1. október næstkomandi.
2 Laun á námstíma
Það er mat dómsins að nemar í ljósmóðurfræði hafi ekki frá árinu 2014 setið við sama borð og ýmsir aðrir nemar í klínískri starfsþjálfun hvað laun varðar. Úrskurður dómsins er að taka skuli upp laun til ljósmóðurnema frá og með 1. september 2018. Greiða skal ljósmóðurnemum á síðasta námsári 25 vikur skv. launaflokki 053 í launatöflu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Greiðslum skal skipt samkvæmt gildandi námskrá um klíníska starfsþjálfun.
3-4 Starfsþróun og starfsreynsla
Gerðardómurinn úrskurðar að stofnanir sem ekki hafa starfsþróunarkerfi fyrir ljósmæður komi því á. Það skal byggja á gagnsæju skilgreindu matsformi. Sérstaklega þarf við upphaf ráðningar að horfa til hæfni, færni og reynslu í starfi nýútskrifaðrar ljósmóður, sem hjúkrunarfræðings í klínísku starfi. Meta skal 5 ára klíníska reynslu í starfi hjúkrunarfræðings að lágmarki til tveggja álagsþrepa í starfsþróun. Ábending dómsins er að starfsþróunarkefið taki tillit til færni og reynslu einstakra ljósmæðra hvort heldur er í starfi hjúkrunarfræðings eða ljósmóður.
Stofna skal stýrihóp til að efla starfsþróun. Hann skal skipa fyrir 1. nóvember næstkomandi og í honum sitji fulltrúi ríkis sem skipar hópinn, fulltrúi Ljósmæðrafélags Íslands og fulltrúi frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana. Til þessa verkefnis verður ráðstafað 15 milljónum króna árið 2019. Stýrihópurinn ákveður skiptingu fjárhæðarinnar milli stofnana. Starfsþróunarkerfi taki gildi á öllum stofnunum þar sem ljósmæður starfa í síðasta lagi 1. mars 2019.
5 Vinnutími
Að mati dómsins þarf að huga að breytingum á fjölda virkra vinnustunda ljósmæðra og annarra heilbrigðisstétta í vaktavinnu einkum þar sem vaktabyrði er mikil og krafist er nákvæmra vinnubragða og viðbragðsflýtis. Gerðardómi er ljóst að breytingar á vinnutíma snerta margar starfsstéttir. Dómurinn hvetur samningsaðila til að nýta vel tímann fram til næstu kjarasamninga í ljósi bókunar 4 hjá BHM félögum og Fíh og bókunar 5 hjá BSRB, til að gaumgæfa efnið og leggja fram tillögur þess efnis að vinnustundum starfsstétta í vaktavinnu verði fækkað. Enn fremur er mikilvægt að skoðaðar verði útfærslur á breyttu vægi vaktaálags og umbunar í formi frítíma.
6 Tilraunaverkefni um vinnutíma á Landspítala
Dómurinn tekur eftir mismunandi tímasetningum á þátttöku hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í tilraunaverkefnum á Landspítala. Annars vegar svokölluðu Hekluverkefni og hins vegar notkun vaktaálagsauka. Dómurinn telur mikilvægt að starfsstéttum sem sinna sömu störfum sé ekki mismunað í formi álagsgreiðslna og að tilraunaverkefni um breyttan vinnutíma taki mið af starfsemi og starfseiningum í stað stéttarfélaga. Gerðardómur bendir á mikilvægi þátttöku annarra starfsstétta en hjúkrunarfræðinga í tilraunaverkefni Landspítala um vinnutíma og að horft verði til reynslunnar af verkefninu, auk tilraunaverkefna Reykjavíkurborgar og BSRB um styttingu vinnuviku.
7 Störf og ábyrgð
Gerðardómurinn hefur ekkert staðfast sem gefur honum tilefni til að úrskurða um að kjörum ljósmæðra skuli breytt vegna aukinnar ábyrgðar og breytts inntaks starfs. Hins vegar bendir dómurinn á að við innleiðingu á jafnlaunastaðli er stofnunum skylt að gera starfsmat sem tekur á framangreindum þáttum og meta störf og starfaflokka, m.a. hæfni, færni, ábyrgð og álag óháð starfsstétt. Gerðardómur bendir á að líklegt er að jafnlaunavottun komi til með að formfesta kröfur sem gerðar eru til ljósmæðra um ábyrgð þeirra í starfi. Jafnframt leggur dómurinn fram þá ábendingu til landlæknis að þarft sé að embættið endurmeti þau ákvæði sem gilda um ábyrgð ljósmæðra.
Greinargerð gerðardóms má nálgast hér að neðan:
Úrskurður gerðardóms