Færslur
Uppúr miðnætti í kvöld var gengið frá yfirlýsingu milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og félaga verslunarmanna og félaga Starfsgreinasambandsins hins vegar um meginlínur kjarasamninga sem ætlað er að standa til 1. nóvember 2022.
Samkomulagið er gert með fyrirvara um aðkomu stjórnvalda og samþykki samninganefnda aðila en það verður nánar útfært af samningsaðilum á morgun og kynnt í kjölfarið.
Síðastliðnar fjórar vikur hafa verið annasamar hjá embætti ríkissáttasemjara.
Haldnir hafa verið 35 sáttafundir undir stjórn ríkissáttasemjara á tímabilinu og hafa fundirnir staðið yfir í samtals 339 klukkustundir.
Fundað hefur verið virka daga og um helgar alla daga að undanskildum tveimur dögum. Fundir hafa staðið allan daginn, og eftir atvikum fram á kvöld þessa daga.
Þrír aðstoðarsáttasemjarar hafa komið að sáttamiðlun á þessu tímabili á einstaka fundum.
Um þessar mundir eru til meðferðar hjá embættinu kjaradeila Eflingar, VLFA, VLFG, VR, Framsýnar, LÍV og SA, deila Starfsgreinasambandsins og SA, deila Samflots iðnaðarmanna og SA og deila Mjólkurfræðingafélags Íslands og SA. Fyrirhuguð eru áframhaldandi fundahöld í þessum málum á næstu dögum.
Ríkissáttasemjara barst í gær tilkynning um vinnustöðvanir tiltekins hóps félagsmanna Eflingar – stéttarfélags. Um er að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar vinnustöðvanir félagsmanna Eflingar sem starfa á hótelum, hjá rútufyrirtækjum og hjá Almenningsvögnum kynnisferða.
Vinnustöðvanir munu hefjast þann 18. mars náist ekki samningar fyrir þann tíma.
Atkvæðagreiðslu um tímabundna vinnustöðvun félagsmanna Eflingar lauk þann 28. febrúar. Á kjörskrá voru 7950 félagsmenn. Atkvæði greiddu 862. Samþykkir verkfallsboðun voru 769 og var tillaga um verkfallsboðun því samþykkt með 89% greiddra atkvæða. Vinnustöðvunin tekur til þrifa, hreingerninga og frágangs herbergja og annarrar gistiaðstöðu á hótelum og gistihúsum.
Vinnustöðvunin mun hefjast klukkan 10:00 að morgni 8. mars 2019 og henni mun ljúka þann sama dag klukkan 23:59 nema kjarasamningar takist fyrir þann tíma.
Tvö ný mál eru nú til meðferðar hjá ríkissáttasemjara. Þetta eru mál 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og SA sem vísað var til meðferðar 21. febrúar, og mál Landsambands íslenskra verslunarmanna (að undanskildu VR) og SA sem vísað var 22. febrúar. Í báðum tilfellum runnu kjarasamningar aðila út þann 31. desember sl.