Skip to main content

Af vettvangi Félagsdóms

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Félagsdómur er sérdómstóll sem starfar á grundvelli laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og hefur það hlutverk að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins.

Á árinu 2016 féllu alls 14 dómar og úrskurðir í Félagsdómi, 3 úrskurðir og 11 dómar. Það eru nokkru færri dómar og úrskurðir en árið 2015 sem var metár hjá Félagsdómi en þá féllu 24 dómar og úrskurðir.

Á árunum 2000-2016 féllu alls 182 dómar og úrskurðir í Félagsdómi.

Séu dómar og úrskurðir ársins skoðaðir með hliðsjón af málsaðilum kemur í ljós að í flestum, og jafnmörgum tilfellum voru félög sem aðild eiga að ASÍ eða standa utan heildarsamtaka málsaðilar fyrir Félagsdómi, eða í 31% tilfella. Félög BHM voru aðilar að 23% mála, aðildarfélög BSRB að 12% og félög KÍ að 3%.

Sé litið til launagreiðendanna sést að flestum tilfellum, eða 44%, var SA málsaðili. Íslenska ríkið var aðili að næstflestum málum, eða 37%, sveitarfélög að 14% mála og aðrir launagreiðendur að 6%.

Viðræðuáætlanir

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Samkvæmt lögum 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur ber stéttarfélögum og launagreiðendum að skila viðræðuáætlun til ríkissáttasemjara að lágmarki 10 vikum áður en kjarsamningur aðila rennur út. Hafi viðræðuáætlun ekki borist 8 vikum áður en samningurinn rennur út skal ríkissáttasemjari útbúa viðræðuáætlun fyrir aðila.

Ríkissáttasemjari hvetur aðila til að senda viðræðuáætlanir innan tilskilins frests.

Nánari upplýsingar um skil viðræðuáætlana má nálgast hér.

Sumarlokun

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Skrifstofa ríkissáttasemjara lokar vegna sumarleyfa frá mánudegi 3. júlí til þriðjudagsins 8. ágúst. Ef erindið er brýnt má hafa samband við ríkissáttasemjara á þessu tímabili með tölvupósti – bryndis@rikissattasemjari.is, eða í síma 699-3414. Gleðilegt sumar!

Tvær deilur á borði ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Tvö sáttamál eru nú á borði ríkissáttasemjara. Fyrra málið er mál Félags skipstjórnarmanna og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna annars vegar og SA vegna Hvalaskoðunar Reykjavíkur og Special Tours ehf, hins vegar. Málinu var vísað til ríkissáttasemjara þann 4. maí 2016. Næsti fundur hefur verið boðaður þann 20. júní næstkomandi. Þá hefur Alþýðusamband Íslands vegna Flugfreyjufélags Íslands vísað deilu félagsins við Primera Air Nordic SIA til meðferðar hjá embættinu og hefur fyrsti fundur í því máli verið boðaður þann 15. ágúst næstkomandi.

Nýr og endurbættur vefur ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Yfirlit yfir gildistíma og lausa kjarasamninga á landinu og dagbók með upplýsingum um boðaða fundi hjá ríkissáttasemjara eru meðal gagnlegra nýjunga á endurgerðum vef embættisins, auk greinargóðra upplýsinga um hlutverk ríkissáttasemjaraembættisins, vinnudeilur og samsetningu vinnumarkaðarins og kjarasamninga.

Á forsíðu vefs ríkissáttasemjara má nú sjá tímalínu lausra kjarasamninga til ársloka 2019 en fjölmargir samningar renna út fram að þeim tíma. Má t.d. nefna að í ágúst á þessu ári renna 29 samningar út, 77 í desember 2018 og í mars 2019 losna 128 samningar, samkvæmt þessu yfirliti sem unnið er samkvæmt bestu yfirsýn embættis ríkissáttasemjara. Alls losna 50 kjarasamningar á þessu ári, á næsta ári losna 80 samningar og 138 kjarasamningar renna út árið 2019.

Önnur áhugaverð nýjung á forsíðu vefsins er dagatal embættisins þar verður hægt að sjá hvaða samningafundir eru bókaðir hjá embættinu á hverum tíma. Þessi nýjung ætti að gagngast mörgum, ekki síst blaða- og fréttamönnum, þegar fundum vegna kjaradeilna fjölgar hjá ríkissáttasemjara.

Á vefnum eru einnig greinargóðar upplýsingar um embætti ríkissáttsemjara, vinnudeilur og kjarasamninga. Má þar m.a. nefna yfirlit yfir samsetningu íslenska vinnumarkaðarins og greiningu á vinnustöðunum hérlendis á sl. árum. Hún sýnir að á árunum 2008-2016 voru boðaðar vinnustöðvanir í 101 þeirra sáttamála sem voru til meðferðar á tímabilinu og kom vinnustöðvun til framkvæmda í 48 málum.

Ársskýrslan 2016 birt á nýjum vef

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Ársskýrsla ríkissáttasemjara fyrir árið 2016 er komin út og verður að þessu sinni eingöngu birt á nýrri heimasíðu embættisins,  en ekki gefin út á prenti.

Þrátt fyrir að gerðir hafi verið færri kjarasamningar á árinu 2016 en  árin á undan,  voru verkefnin ærin  og er ársskýrslan með veglegasta móti. Þar má finna upplýsingar um  kjarasamninga sem gerðir voru hjá ríkissáttasemjara á árinu, vinnustöðvanir og fundafjölda hjá embættinu ásamt upplýsingum um rekstur og fjármál embættisins.

Þá er greint frá ráðstefnu norrænna ríkissáttasemjara sem var haldin á Íslandi á síðasta ári. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár  og skiptast embættin á að bjóða til fundarins.

Á árinu hóf ríkissáttasemjari vinnu við umbótaverkefni hjá embættinu og er greint frá þeirri vinnu í skýrslunni og þeim verkefnum sem af henni leiða.

Þá er í ársskýrslunni yfirlit yfir dóma og úrskurði Félagsdóms frá árinu 2000 – 2016 og frekari greining á þeim.

Ársskýrsluna má nálgast hér