Tilkynna ber um breytingar á stöðu kjarasamninga

Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur ber aðilum á vinnumarkaði að tilkynna ríkissáttasemjara um ákveðna þætti í tengslum við kjarasamninga og kjaradeilur. Einnig gera lögin kröfu um að máli sé vísað með formlegum hætti til embættisins.

Uppsögn kjarasamninga og kröfugerð

Samningsaðilar skulu skv. lögum senda ríkissáttasemjara samrit af uppsögn kjarasamninga svo og kröfugerð, jafnskjótt og hún er send gagnaðila. Það er hægt að gera með rafrænum hætti með því að senda á netfangið elisabet@rikissattasemjari.is.

Viðræðuáætlanir

Viðræðuáætlanir skal senda til skrifstofustjóra á netfangið elisabet@rikissattasemjari.is eigi síðar en 10 vikum áður en samningur rennur út. Í viðræðuáætlun skal koma fram greinargóð verkáætlun um það hvernig aðilar deilunnar hyggjast skipuleggja viðræðuferlið. Skrifstofustjóri staðfestir móttöku bréfsins/skjalsins og telst það gilt frá staðfestri móttöku þess.

Vísun kjaradeilna

Aðilar að kjaradeilu, annar eða  báðir saman, geta vísað deilunni til ríkissáttasemjara með undirrituðu bréfi sem sent skal á netfangið elisabet@rikissattasemjari.is.  Þegar móttaka vísunarinnar hefur verið staðfest af embættinu er deilan formlega komin til meðferðar hjá ríkissáttasemjara, sem boðar til fundar svo fljótt sem verða má. Ef bréf um vísun er sent með rafrænum hætti skal frumrit þess jafnframt sent í bréfapósti til ríkissáttasemjara.

Kjarasamningar

Samkvæmt lögum skal senda samrit allra kjarasamninga til ríkissáttasemjara jafnskjótt og þeir hafa verið undirritaðir á netfangið elisabet@rikissattasemjari.is Breytingar á áður gildandi kjarasamningum skulu sendar með sama hætti sem og samrit allra kauptaxta og kjaraákvæða sem út eru gefin á grundvelli gildandi kjarasamninga. Þetta er hægt að gera með rafrænum hætti í PDF-formi. Skrifstofustjóri staðfestir móttöku þessara skjala.

Boðun vinnustöðvunar

Boðun vinnustöðvunar verður aðeins tilkynnt til ríkissáttasemjara með afhendingu bréfs þar um sem staðfestir móttöku þess.

Niðurstöður atkvæðagreiðslna

Niðurstöður atkvæðagreiðslna um kjarasamninga má tilkynna með rafrænum hætti á netfangið elisabet@rikissattasemjari.is , hvort heldur er í tölvupósti eða í PDF-formi. Í tilkynningunni skal eftirfarandi koma fram:

  • Fjöldi á kjörskrá
  • Hlutfall þeirra sem tóku þátt
  • Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar (þeir sem sögðu já, þeir sem sögðu nei og auðir og ógildir)

Við staðfestingu á móttöku upplýsinganna telst formlegum skilyrðum fullnægt. Skrifstofustjóri eða ríkissáttasemjari staðfestir móttöku.