Skip to main content

Námsstefnur í samningagerð

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari áformar að halda fimm þriggja daga námsstefnur í samningagerð um land allt. Fyrsta námsstefnan verður á Húsavík í nóvember og sú síðasta á Stykkishólmi ári síðar.  Á námsstefnunum verður stefnt saman öllum sem sæti eiga í samninganefndum og vinna að kjarasamningagerð í landinu. Þar gefst því einstakt tækifæri til að fara yfir vinnubrögð við kjarasamningagerðina og hvernig má bæta þau, ræða aðferðir við undirbúning fyrir samningaviðræður, deila reynslu og efla marksækni og fagmennskuvið samningaborðið.

Ríkisssáttasemjari naut liðsinnis nýstofnaðs Fræðsluráðs ríkissáttasemjara við undirbúning námstefnanna. Í fræðsluráðinu sitja fulltrúar allra heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins auk Reykjavíkurborgar. Skipulag og efnistök voru ákveðin í samráði við fræðsluráðið sem mun einnig meta árangurinn af námsstefnunum.

 

Tímasetningar námsstefnanna er sem hér segir:

 

Húsavík, 15. til 17. nóvember 2021

Borgarnes, 14. til 16. mars 2022

Ísafjörður, 16. til 18. maí 2022

Egilsstaðir, 19. til 21 september 2022

Stykkishólmur, 7. til 9. nóvember 2022

 

Hægt er að skrá sig á námsstefnunar hér á vefsíðunni, undir liðnum „Á döfinni“ eða „Skoða alla viðburði“.

 

Plakat námsstefnur

 

Spennandi sumarstörf hjá embætti Ríkissáttasemjara sumarið 2021

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Embætti Ríkissáttasemjara leitar eftir tveimur háskólanemum til að vinna að verkefnum sem unnin verða hjá embættinu í sumar. Um er að ræða 100% störf. Leitað er eftir nemendum frá eftirfarandi námsbrautum:
– Tölvunarfræði
– Upplýsingafræði
– Félagsfræði
– Hagfræði
– Stjórnmálafræði
Ráðningartímabil er til þriggja mánaða og hefst í síðastalagi 1. júní.

Lýsing á verkefninu í heild, markmiðum þess og umfangi
Verkefnið snýr að fjölþættri greiningu á kjarasamningum síðustu samningalotu sem telja rúmlega 300 samninga og bera saman umhverfið á Íslandi við hin Norðurlöndin. Skoðaðir verða einstaka þættir í kjarasamningaferlinu með það fyrir augum að bæta ferlið á Íslandi með því að nota svokölluðu „bestu leið”.
Það sem væri skoðað sérstaklega er samanburður samningaferlinu og hvort samningur taki við af samningi. Kjarasamningar verða settir á samanburðarhæft form sem auðveldar framtíðar samanburð og samanburðarskýrsla unnin til upplýsinga fyrir embættið, stjórnvöld og aðila vinnumarkaðsins þar sem leiðir til að bæta ferlið yrðu kannaðar. Niðurstöðurnar nýtast bæði embætti Ríkissáttasemjara, stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðsins fyrir nauðsynlegar úrbætur á kjarasamningsgerð.

Hæfniskröfur

Hlutverk námsmanna
Tekið er þátt í mótun greiningarkerfis, skjalavörslu, afla gagna, setja á form til greiningar, coda, greina gögn og vinna að tillögum út frá niðurstöðum.
Þáttur umsjónarmanna
Umsjónarmenn, sem eru ríkissáttasemjari og aðstoðarsáttasemjari, vinna með nemendum við að skilgreina verkefnið nánar og vera þeim innan handar og til leiðbeiningar í gegnum allt ferlið.

Með umsókn þarf að fylgja:
– Ferilskrá
– Kynningarbréf

Umsóknarfrestur er 15. maí 2021 og sendist á aldis.sigurdardottir@rikissattasemjari.is

Ný skýrsla frá Kjaratölfræðinefnd

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Ný skýrsla frá Kjaratölfræðinefnd

Föstudaginn 30. apríl 2021, kl. 10.00 -10:40, verður kynnt vorskýrsla Kjaratölfræðinefndar, samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag. Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningalotuna sem hófst árið 2019 og stendur enn, þróun efnahagsmála og launa.

Kynningin verður í formi fjarfundar sem streymt verður í gegnum heimasíðu Kjaratölfræðinefndar, www.ktn.is. Edda Rós Karlsdóttir, formaður nefndarinnar, kynnir skýrsluna og gerir grein fyrir helstu atriðum hennar og niðurstöðum. Þá mun Margrét K. Indriðadóttir frá Hagstofu Íslands fjalla um áhrif vinnutímastyttingar á laun. Meðal nýjunga í skýrslunni er samanburður á launaþróun karla og kvenna, og á launaþróun innflytjenda og annarra. Tekið verður við fyrirspurnum á ktn@ktn.is meðan á fundinum stendur. Fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.

Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Vorskýrslan er önnur skýrsla nefndarinnar, en gert er ráð fyrir framvegis komi út tvær á ári – vor og haust.

Skýrslan og tölfræðigögn verða aðgengileg á vef Kjaratölfræðinefndar www.ktn.is frá 30. apríl nk. Það er von nefndarinnar að sá grunnur upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni nýtist haghöfum vel.

Ný sáttamál á borði ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Fjórum kjaradeilum hefur verið vísað til ríkissáttasemjara á síðustu dögum.

Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannafélag Íslands hafa vísað kjaradeilum sínum við SA v/SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

og Félag íslenksra flugumferðarstjóra hefur einnig vísað kjaradeilu við SA v/Isavia ohf. til ríkissáttasemjara.