Skip to main content

Fyrsti fundur nýs Þjóðhagsráðs haldinn í dag

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Fyrsti fundur nýs Þjóðhagsráðs var haldinn í Ráðherrabústaðnum í dag en samkomulag um hlutverk og umgjörð Þjóðhagsráðs var undirritað þann 18. júní síðastliðinn.

Markmið Þjóðhagsráðs er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Í Þjóðhagsráði sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, seðlabankastjóri, forseti ASÍ, formenn BSRB, BHM og KÍ og framkvæmdastjóri SA.

Á fundinum í dag var rætt um hagstjórn, velsældarmælikvarða, greiðsluþátttöku sjúklinga og græna skatta.

 

Vinnustöðvun

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Blaðamannfélag Íslands hefur boðað vinnustöðvun vegna félagsmanna sem starfa hjá Árvakri, Ríkisútvarpinu, Sýn og Torgi.

Vinnustöðvunin er tímabundin og framkvæmist svo:

Ljósmyndarar og tökumenn hjá ofangreindum atvinnurekendum og blaða- og fréttamenn á netmiðlum þeirra (mbl.is, visir.is, frettabldid.is og ruv.is) munu leggja niður störf á neðangreindum tímum:

föstudaginn 8. nóvember 2019 klukkan 10:00-14:00

föstudaginn 15. nóvember 2019 klukkan 10:00-18:00

föstudaginn 22. nóvember 2019 klukkan 10:00-22:00

Blaðamenn sem starfa við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins auk ljósmyndara og tökumanna munu leggja niður störf fimmtudaginn 28. nóvember 2019 klukkan 10:00-22:00.

Á kjörskrá voru 211 félagsmenn. Atkvæði greiddi 131. Verkfallsboðun var samþykkt með 109 atkvæðum, eða 83,2% greiddra atkvæða.

 

Boðun vinnustöðvunar

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) boðaði vinnustöðvun þann 22. október vegna flugmanna sem starfa hjá Air Iceland Connect.

Vinnustöðvunin felur í sér yfirvinnubann meðal allra flugmanna Air Iceland Connect, en þeir eru allir félagsmenn í FÍA. Yfirvinnubannið nær til allra verkefna flugmanna fyrir félagið sem teljast til yfirvinnu. Þannig fellur niður vinna samkvæmt tveimur ákvæðum kjarasamnings aðila; annars vegar um heimild félagsins til að kaupa vinnu af flugmanni á frídegi og hins vegar til að kaupa viðbótar vakttíma af flugmanni á vinnudegi.

Vinnustöðvunin er ótímabundin og mun hún hefjast klukkan 00:01 föstudaginn 1. nóvember 2019.

Á kjörskrá voru 40 félagsmenn FÍA. 34 þeirra greiddu atkvæði. Já sögðu 32 eða 94,12%. Einn greiddi atkvæði gegn vinnustöðvun og einn seðill var auður eða ógildur.

 

Undirritun kjarasamnings

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Á fjórða tímanum í nótt var undirritaður kjarasamningur á milli fimm aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Félögin sem um ræðir eru Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Fræðagarður, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélag lögfræðinga.

Samningurinn gildir til 31. mars 2023.

19 ný sáttamál

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Á síðustu dögum hafa embætti ríkissáttasemjara borist 19 vísanir nýrra sáttamála aðildarfélaga BSRB gagnvart þremur viðsemjendum; Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Kjarasamningar aðila losnuðu 31. mars síðastliðinn.

Endurnýjaðar viðræðuáætlanir

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Starfsgreinasamband Íslands, Efling – stéttarfélag og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa náð samkomulagi um endurnýjaðar viðræðuáætlanir. Í því ljósi hafa Starfsgreinasambandið og Efling dregið vísanir kjaradeilnanna til baka.

Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun Lífskjarasamningsins þann 3. apríl sl.

Nýr ríkissáttasemjari í Svíþjóð

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Í dag tók nýr ríkissáttasemjari til starfa í Svíþjóð, en Irene Wennemo hóf störf í dag. Hún tók við af Carinu Gunnarsson sem hefur starfað sem ríkissáttasemjari í Svíþjóð síðan 2015.

Í Finnlandi er Vuokko Piekkala ríkissáttasemjari, en hún tók við embætti í ágúst 2018. Jan Reckendorff tók við sem ríkissáttasemjari í Danmörku í október 2018 og Mats Wilhelm Ruland var skipaður ríkissáttasemjari í Noregi í nóvember 2018.

Þar með hefur Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari á Íslandi lengstan starfsaldur ríkissáttasemjara á norðurlöndum, en hún var skipuð í júní 2015.