Skip to main content

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara samþykkt

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í máli Ljósmæðarafélags Íslands og Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er lokið. Miðlunartillagan var samþykkt í atkvæðagreiðslu ljósmæðrafélagsins með 95,1% atkvæða. 247 voru á kjörskrá og greiddu 224 atkvæði, eða 91%. Þá samþykkti Fjármála- og efnahagsráðherra miðlunartillöguna. Nýr kjarasamningur aðila hefur því komist á og mun hann gilda til 31. mars 2019.

Miðlunartillaga lögð fram í ljósmæðradeilu og verkfalli aflýst

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í deilu Ljósmæðrafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs. Tillagan felur í grundvallaratriðum í sér sambærilegar hækkanir og samningur aðila frá 29. maí sl. og gildistími er 31. mars 2019.
Djúpstæður ágreiningur hefur verið í milli samningsaðila um það hvort launasetning stéttarinnar sé í samræmi við álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra. Sá ágreiningur hefur m.a. staðið í vegi fyrir því að aðilar undirriti kjarasamning og því felur tillagan í sér að sérstökum gerðardómi verði falið að kveða upp úr um það hvort og þá að hvaða leyti þessir þættir eigi að hafa frekari áhrif á launasetningu stéttarinnar. Ríkissáttasemjari skipar þrjá menn í gerðardóminn sem er annars sjálfstæður í störfum sínum. Skal gerðardómurinn ljúka störfum sínum eigi síðar en 1. september 2018.
Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara þann 5. febrúar 2018. Kjarasamningurinn hafði verið laus síðan 1. september 2017, þegar gerðardómur sá er síðast ákvarðaði laun ljósmæðra rann út. Þegar málinu var vísað til ríkissáttasemjara höfðu samningsaðilar fundað fimm sinnum en án árangurs og vísaði félagið því deilunni til sáttasemjara. Fundurinn í dag er sá fimmtándi hjá ríkissáttasemjara.
Tillagan verður kynnt félagsmönnum og fjármála- og efnahagsráðherra á næstu dögum og greiða samningsaðilar um hana atkvæði fyrir kl. 12.00, miðvikudaginn 25. júlí 2018. Miðlunartillagan verður ekki birt öðrum en þeim sem hlut eiga að máli fyrr en atkvæði hafa verið greidd um hana.
Samhliða framlagningu tillögunnar samþykkir Ljósmæðrafélag Íslands að aflýsa yfirstandandi yfirvinnubanni.

Undirritun kjarasamnings

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Samninganefndir VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Félags skipstjórnarmanna annars vegar og Samtaka atvinnulífsins vegna skipstjórnarmanna og vélstjóra á skipum og bátum fyrirtækja í ferðaþjónustu hins vegar undirrituðu kjarasamning síðdegis í dag.

Málinu var vísað til ríkissáttasemjara þann 4. maí 2016. Fundurinn í dag var sá 27. í málinu.

Nils Dalseide er látinn

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Nils Dalseide ríkissáttasemjari í Noregi er látinn, 65 ára að aldri eftir stutta sjúkdómslegu.

Hann hóf störf hjá sáttasemjaraembættinu árið 2004 og var skipaður ríkissáttasemjari 1. september 2013. Áður hafði hann starfað sem dómari um langt skeið.

Nils naut mikillar virðingar hjá aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum í Noregi og hafði mikil áhrif á þróun mála á vinnumarkaði þar í landi. Hann var mikils virtur sem fagmaður í sáttamiðlun og átti einnig stóran þátt í að þróa það fag í störfum sínum sem dómari, áður en hann tók við starfi ríkissáttasemjara.

Nils er sárt saknað úr hópi ríkissáttasemjara á Norðurlöndum og skarð hans verður vandfyllt.

Nýtt sáttamál

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari hefur fengið nýtt sáttamál til meðferðar en það er mál Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Norðurflugs ehf. Málið er hið sjöunda sem vísað er til meðferðar hjá ríkissáttasemjara á árinu. Fyrsti fundur verður boðaður fljótlega.