Skip to main content

Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar

 

Miðvikudaginn 16. september 2020, kl. 11.00, verður kynnt skýrsla kjaratölfræðinefndar, nýs samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag. Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningslotuna sem hófst árið 2019, umfang kjarasamningagerðar, og þróun efnahagsmála og launa.

 

Kynningin verður í formi fjarfundar og hlekkur á hann birtur hér þegar nær dregur. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra mun ávarpa fundinn og Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar, kynna skýrsluna og gera grein fyrir helstu atriðum hennar. Fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.

 

Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Tekist hefur góð samstaða um þann grunn upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni og er það von nefndarinnar að þessi grunnur nýtist hagaðilum vel. Skýrslan er sú fyrsta í röð skýrslna, en gert er ráð fyrir að nefndin gefi framvegis út tvær á ári og verða þær gerðar aðgengilegar á nýjum vef kjaratölfræðinefndar.

 

 

Kjaradeila Sjómannafélags Íslands og SA v/Herjólfs aftur komin á borð ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

SA hefur vísað kjaradeilu við Sjómannafélag Íslands  v/félagsmanna SÍ á Herjólfi til ríkissáttasemjara.

Samningsaðilar gerðu samkomulag um nýja viðræðuáætlun í júlí þar sem stefnt var að því að viðræðunum yrði lokið fyrir 17. ágúst.

Það tókst ekki og er kjaradeilan því komin á borð ríkissáttasemjara aftur.

Sáttamálum fjölgar hjá ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Þrjú sáttamál bættust á borð  ríkissáttasemjara júlí.

Verkfræðingafélag Íslands vísaði kjaradeilu við Landsnet vegna tæknfólks,

VM, RSÍ v/FÍR og FRV, FIT, VR og Hlíf vísuðu deilu sinni við Rio Tinto í Straumsvík

og VM, Félag Vélstjóra og málmtæknimanna v/félagsmanna er starfa hjá Hafrannsónarstofnun deilu við fjármála- og efnahagsráðherra.

Fjórtán kjaradeilur eru því til meðferðar hjá embættinu.

Afgerandi stuðningur við miðlunartillögu ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilu  Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra  var samþykkt í atkvæðagreiðslu Fíh. Tillagan var  einnig  samþykkt af fjármálaráðherra.

64,3 % hjúkrunarfræðinga samþykktu tillöguna en 34,9% sögðu nei.  0,8% tóku ekki afstöðu.

Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var  tæp 80%.

Þar með er kominn á kjarasamningur  milli aðila.

Í samræmi við miðlunartillögu ríkissáttasemjara mun hann á næstu dögum skipa þrjá einstaklinga í gerðardóm til að fjalla um afmörkuð atriði launaliðar sem ágreiningur var um. Samningsaðilar náðu samkomulagi um meginatriði kjarasamnings þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu.

Gerðardómur mun skila niðurstöðu í síðasta lagi 1. september  nk.

 

Flugfreyjufélag Íslands og SA vegna Icelandair undirrita kjarasamning

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Kjarasamningur var undirritaður á milli samninganefnda Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair klukkan 4:00 í nótt.

Fundurinn var sá 49. sem haldinn var í málinu, en því var vísað til ríkissáttasemjara 5. apríl 2019.

Síðasti fundur í málinu stóð í alls 32 klukkustundur að meðtöldu stuttu fundarhléi í fyrri nótt.

Kjarasamningurinn gildir til 30. september 2025.

Ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Fréttatilkynning frá ríkissáttasemjara

Reykjavík 21. júní 2020 kl. 23.30

 

Ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra

Ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og fjármála- og efnhagsráðherra f.h. ríkissjóðs. Verkfalli sem hefjast átti 22. júní er því afstýrt og miðlunartillagan fer til kynningar og atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra.

Samkomulag hefur náðst á milli samningsaðila um öll meginatriði kjarasamnings, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu. Út af standa afmörkuð atriði er varða laun hjúkrunarfræðinga. Að mati ríkissáttasemjara er ágreiningur á milli samnningsaðila djúpstæður og hann verður ekki leystur við samningaborðið.  Því hefur ríkissáttasemjari lagt fram miðlunartillögu til lausnar deilunni. Miðlunartillagan inniheldur öll þau atriði sem náðst hefur samkomulag um á milli aðila og ágreiningsefni um launalið verður að hluta vísað í sérstakan gerðardóm.

Félagsmenn í Fíh annars vegar og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs hins vegar greiða atkvæði um miðlunartillöguna.

Miðlunartillagan verður send til félagsmanna Fíh á rafrænu formi og atkvæði verða greidd rafrænt.

Atkvæðagreiðslan hefst kl. 12.00, miðvikudaginn 24. júní 2020 og lýkur kl. 10:00 laugardaginn 27. júní 2020.

Miðlunartillagan verður ekki birt öðrum en þeim sem hlut eiga að máli fyrr en atkvæði hafa verið greidd um hana, sbr. 1. mgr. 29. gr. l. 80/1938 og er innihald hennar háð trúnaði þar til niðurstaða liggur fyrir.

Kjarasamningur aðila rann út þann 31. mars  2019  og var málinu vísað til ríkissáttasemjara þann 21. febrúar 2020. Eftir að málinu var vísað til ríkissáttasemjara voru 30 fundir haldnir í sáttamálinu.

Aðalsteinn Leifsson

Ríkissáttasemjari

Sent til fjölmiðla 21. júní 2020, kl. 23:30