Skip to main content
Frétt frá ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins

By 21. júní, 2020júní 23rd, 2020No Comments

Fréttatilkynning frá ríkissáttasemjara

Reykjavík 21. júní 2020 kl. 23.30

 

Ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra

Ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og fjármála- og efnhagsráðherra f.h. ríkissjóðs. Verkfalli sem hefjast átti 22. júní er því afstýrt og miðlunartillagan fer til kynningar og atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra.

Samkomulag hefur náðst á milli samningsaðila um öll meginatriði kjarasamnings, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu. Út af standa afmörkuð atriði er varða laun hjúkrunarfræðinga. Að mati ríkissáttasemjara er ágreiningur á milli samnningsaðila djúpstæður og hann verður ekki leystur við samningaborðið.  Því hefur ríkissáttasemjari lagt fram miðlunartillögu til lausnar deilunni. Miðlunartillagan inniheldur öll þau atriði sem náðst hefur samkomulag um á milli aðila og ágreiningsefni um launalið verður að hluta vísað í sérstakan gerðardóm.

Félagsmenn í Fíh annars vegar og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs hins vegar greiða atkvæði um miðlunartillöguna.

Miðlunartillagan verður send til félagsmanna Fíh á rafrænu formi og atkvæði verða greidd rafrænt.

Atkvæðagreiðslan hefst kl. 12.00, miðvikudaginn 24. júní 2020 og lýkur kl. 10:00 laugardaginn 27. júní 2020.

Miðlunartillagan verður ekki birt öðrum en þeim sem hlut eiga að máli fyrr en atkvæði hafa verið greidd um hana, sbr. 1. mgr. 29. gr. l. 80/1938 og er innihald hennar háð trúnaði þar til niðurstaða liggur fyrir.

Kjarasamningur aðila rann út þann 31. mars  2019  og var málinu vísað til ríkissáttasemjara þann 21. febrúar 2020. Eftir að málinu var vísað til ríkissáttasemjara voru 30 fundir haldnir í sáttamálinu.

Aðalsteinn Leifsson

Ríkissáttasemjari

Sent til fjölmiðla 21. júní 2020, kl. 23:30