Tveimur nýjum sáttamálum hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Þetta eru mál Sameykis og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia og mál Sameykis og Strætó bs. Báðir kjarasamningar runnu út þann 31. mars 2019

Efling – stéttarfélag hefur boðað vinnustöðvun allra félagsmanna sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Á kjörskrá voru 1894 félagsmenn Eflingar. 1121 greiddi atkvæði og var vinnustöðvun samþykkt með 96% greiddra atkvæða.

Vinnustöðvunin framkvæmist með þeim hætti að félagsmenn leggja niður störf sem hér segir:

Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 til 23:59

Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 til 23:59

Þriðjudagur 11. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 til 23:59

Miðvikudagur 12. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 til 23:59

Fimmtudagur 13. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 til 23:59

Mánudagur 17. febrúar 2020: Vinna lögð niður ótímabundið frá klukkan 00:01

Máli Starfsgreinasambands Íslands og Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Kjarasamningur aðila rann út þann 31. mars 2019. Boðað verður til fyrsta fundar í málinu á næstu dögum.

Kennarasamband Íslands fyrir hönd Félags framhaldsskólakennara hefur vísað deilu sinni við Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Kjarasamningur aðila rann út þann 31. mars 2019

Máli Félags fréttamanna og Samtaka atvinnulífsins vegna Ríkisútvarpsins hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Kjarasamningur aðila rann út 1. janúar 2019. Boðað verður til fyrsta fundar í málinu á næstu dögum.

Samninganefndir Félags íslenskra flugumferðarstjóra og SA vegna Isavia undirrituðu kjarasamning í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Máli FÍF og SA v. Isavia var vísað til ríkissáttasemjara þann 13. apríl 2019. Samningurinn gildir til 31. desember 2020. Atkvæðagreiðsla um samninginn mun fara fram á næstu dögum.

Á fjórða tímanum í dag var undirritaður kjarasamningur á milli 17 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023. Um 4.000 félagar í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins munu greiða atkvæði um samninginn og lýkur atkvæðagreiðslunni þann 10. febrúar.

Af þeim 42 málum sem vísað var til ríkissáttasemjara á árinu 2019 eru 34 enn í vinnslu á árinu 2020. Aðallega er um að ræða mál aðildarfélaga BSRB við ríki og sveitarfélög en einnig nokkur mál flugstétta og viðsemjenda á almennum vinnumarkaði, mál Blaðamannfélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins og mál Hlífar, VR, Rafiðnaðarsambandsins, VM – félags vélstjóra og málmtæknimanna og FIT og Samtaka atvinnulífsins vegna Ísal.

Félags- og barnamálaráðherra hefur sett Helgu Jónsdóttur, aðstoðarsáttasemjara, í embætti ríkissáttasemjara á meðan unnið er úr umsóknum um embættið. Helga hefur þegar tekið til starfa.