FVFÍ, Flugvirkjafélag Íslands hefur boðað vinnustöðvun félagsmanna sem starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands og mun það hefjast 28. október nk. kl. 23.59.

18 flugvirkjar voru á kjörskrá og 16 tóku þátt í atkvæðagreiðslu.

14 sögðu já eða 87,5%

2 tóku ekki afstöðu eða 12,5%

Verkfallið nær til allra verka sem flugvirkjar Landhelgisgæslu Íslands sinna á vegum Landhelgisgæslunnar, að undanskildum lögboðnum löggæslu- og björgunarflugverkefnum sem unnin eru á grundvelli laga nr 52/2006 um Landhelgisgæslu Íslands.

 

Sameyki og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa gengið frá kjarasamningi til 31. mars 2023.

Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019

Samkomulag hefur náðst í kjaradeilu Landssambands lögreglumanna og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs.

Skrifað var undir nýjan kjarasamning nú á sjötta tímanum.

Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023.

Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar kemur út

 

Í dag klukkan 11.00 kynnti kjaratölfræðinefnd sína fyrstu skýrslu, Samningalotan 2019-2020, fyrir aðilum vinnumarkaðarins og strax í kjölfarið birtist hún opinberlega. Hægt er að sjá  fundinn og skýrsluna  á www.ktn.is

Skýrslan skiptist í fjóra meginkafla sem fjalla um efnahagsmál, umgjörð kjarasamninga, gerða kjarasamninga í yfirstandandi kjaralotu og mælingar Hagstofu Íslands á launaþróun sem flokkaðar eru eftir heildarsamtökum launafólks og launagreiðenda.

Í efnahagskafla er farið yfir áhrif kórónukreppunnar á efnahag og vinnumarkað og samanburður gerður á efnahagsspám fyrir og eftir heimsfaraldurinn. Viðbrögðum stjórnvalda er lýst og ljósi varpað á tvær nýlegar kreppur.

Meginefni skýrslunnar er um breytingar og dreifingu launa í yfirstandandi samningalotu samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Fjallað er um helsta inntak kjarasamninga, þ.á.m. launabreytingar og styttingu vinnutíma.

Í kafla um umgjörð kjarasamninga er lýst skipulagi samtaka á vinnumarkaði, lagaumhverfi og hlutverki ríkissáttasemjara. Þá fylgir skýrslunni yfirlit yfir gerða kjarasaminga.

Kjaratölfræðinefndin var skipuð af félags- og barnamálaráðherra 21. nóvember 2019 og samkvæmt skipunarbréfi skal hún draga saman og vinna úr talnaefni um launa- og efnahagsmál til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Markmiðið er að stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli, eiginleikum og þróun hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Áformað er að skýrslur nefndarinnar komi út tvisvar á ári.

Aðild að kjaratölfræðinefnd eiga forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands.

„Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar er unnin við þær óvenjulegu aðstæður að hraðar og miklar breytingar eru að verða á högum launafólks vegna kórónuveirufaraldursins. Það er von okkar að skýrslan nýtist samtökunum vel við mat á stöðu félagsmanna sinna,“ segir Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar.

Sjúkraliðafélag Íslands og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu undirrituðu nýjan kjarasamning í dag. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023.

Á morgun, miðvikudaginn 16. september  kl. 11.00 mun Kjaratölfræðinefnd kynna fyrstu skýrslu nefndarinnar.

Hægt verður að fylgjast með fundinum á  slóðinni https://www.ktn.is

 

Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar

 

Miðvikudaginn 16. september 2020, kl. 11.00, verður kynnt skýrsla kjaratölfræðinefndar, nýs samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag. Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningslotuna sem hófst árið 2019, umfang kjarasamningagerðar, og þróun efnahagsmála og launa.

 

Kynningin verður í formi fjarfundar og hlekkur á hann birtur hér þegar nær dregur. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra mun ávarpa fundinn og Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar, kynna skýrsluna og gera grein fyrir helstu atriðum hennar. Fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.

 

Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Tekist hefur góð samstaða um þann grunn upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni og er það von nefndarinnar að þessi grunnur nýtist hagaðilum vel. Skýrslan er sú fyrsta í röð skýrslna, en gert er ráð fyrir að nefndin gefi framvegis út tvær á ári og verða þær gerðar aðgengilegar á nýjum vef kjaratölfræðinefndar.

 

 

Gerðardómur sem ríkissáttasemjari skipaði 8. júlí til að fjalla um afmörkuð atriði launaliðs sem ágreiningur var um í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hefur lokið störfum. Greinargerð og úrskurður gerðardóms er hér.
Ríkissáttasemjari skipaði gerðardóminn eftir að miðlunartillaga hans í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnhagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs var samþykkt að lokinni atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga. Samningsaðilar höfðu náð samkomulagi um öll meginatriði kjarasamnings utan afmarkaðra atriða launaliðs, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu.  Ágreiningurinn á milli samningsaðila snerist um það hvort laun hjúkrunarfræðinga hjá stofnunum ríkisins væru í samræmi við ábyrgð, álag, menntun og inntak starfa þeirra samanborið við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá ríkinu. Miðlunartillaga ríkissáttasemjara fól því í sér að hann skipaði gerðardóm til að fjalla um afmörkuð atriði launaliðs sem ágreiningur var um.