Í dag fór fram ráðstefna í Stokkhólmi í tengslum við útgáfu á ársskýrslu ríkissáttasemjara í Svíþjóð fyrir árið 2017. Til ráðstefnunnar mættu um 300 fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins, ráðuneyti vinnumála, hagstofunni og seðlabankanum.

Starfsmenn ríkissáttasemjara opnuðu ráðstefnuna með því að gera grein fyrir árinu 2017 á sænskum vinnumarkaði, meðal annars gerðum kjarasamningum, deilum á vinnumarkaði, stöðu og horfum í efnahagslífinu og launaþróun á árinu. Þá var sjónum beint sérstaklega að kynbundnum launamuni og þróun hans á síðustu árum.

Allan Larsson, fyrrverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar og ráðgjafi Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um félagsleg réttindi flutti erindi þar sem hann ræddi sænska vinnumarkaðslíkanið í evrópsku samhengi.

Ráðstefnunni lauk með pallborðsumræðum þar sem fulltrúar stéttarfélaga og launagreiðenda ræddu samspil aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, ekki síst á opinberum vinnumarkaði. Þá fengu fulltrúar stjórnvalda tækifæri til að bregðast við umræðum aðila vinnumarkaðarins.

Upptökur frá ráðstefnunni má nálgast hér

Samninganefndir Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Air Atlanta Icelandic undirrituðu kjarasamning í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.

Samninganefndir Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair undirrituðu kjarasamning þann 10. febrúar. Málinu var vísað til ríkissáttasemjara þann 26. september síðastliðinn.

Máli Ljósmæðrafélags Íslands og Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Málið er annað málið sem vísað er til embættisins á árinu. Ríkissáttasemjari hefur nú átta sáttamál til meðferðar.

Fyrsta sáttamáli ársins var vísað til ríkissáttasemjara í dag. Þetta er mál nr. 1/2018 – Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands og ríkið. Fyrsti fundur í málinu verður haldinn innan tíðar.