Skip to main content
Frétt frá ríkissáttasemjara

Ráðstefna sænska ríkissáttasemjarans í Stokkhólmi

By 20. febrúar, 2018janúar 26th, 2023No Comments

Í dag fór fram ráðstefna í Stokkhólmi í tengslum við útgáfu á ársskýrslu ríkissáttasemjara í Svíþjóð fyrir árið 2017. Til ráðstefnunnar mættu um 300 fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins, ráðuneyti vinnumála, hagstofunni og seðlabankanum.

Starfsmenn ríkissáttasemjara opnuðu ráðstefnuna með því að gera grein fyrir árinu 2017 á sænskum vinnumarkaði, meðal annars gerðum kjarasamningum, deilum á vinnumarkaði, stöðu og horfum í efnahagslífinu og launaþróun á árinu. Þá var sjónum beint sérstaklega að kynbundnum launamuni og þróun hans á síðustu árum.

Allan Larsson, fyrrverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar og ráðgjafi Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um félagsleg réttindi flutti erindi þar sem hann ræddi sænska vinnumarkaðslíkanið í evrópsku samhengi.

Ráðstefnunni lauk með pallborðsumræðum þar sem fulltrúar stéttarfélaga og launagreiðenda ræddu samspil aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, ekki síst á opinberum vinnumarkaði. Þá fengu fulltrúar stjórnvalda tækifæri til að bregðast við umræðum aðila vinnumarkaðarins.

Upptökur frá ráðstefnunni má nálgast hér