Atkvæðagreiðslum um kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins við VR, LÍV og 19 aðildarfélög Starfsgreinasambandsins, sem undirritaðir voru þann 3. april síðastliðinn, lauk í vikunni og voru niðurstöður kunngerðar þann 24. apríl.
Samtals voru 36.835 manns á kjörskrá hjá öllum aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins og var kjörsókn í heildina 12,78%. Samningarnir voru samþykktir með 80,06% atkvæða en 17,33% greiddu atkvæði gegn þeim og 2,61% skiluðu auðum kjörseðlum.
Landssamband íslenskra verslunarmanna kynnti niðurstöður atkvæðagreiðslna um kjarasamninga sem gerðir voru á milli LÍV og SA annars vegar og VR og SA hins vegar. Á kjörskrá voru 37.375 manns og af þeim greiddu 7.757 manns atkvæði, eða 20,75%. Samningarnir voru samþykktir með 88,40% atkvæða, nei sögðu 9,85% og 1,79% skilaði auðum kjörseðli.
Auk þessa greiddu félagar VR og LÍV atkvæði um kjarasamning félaganna við Félag atvinnurekenda sem var undirritaður þann 5. apríl. Á kjörskrá voru 1.732 og kjörsókn var 26,67%. Samningurinn var samþykktur með 88,74% atkvæða. 10,17% sögðu nei og 1,08% skilaði auðu.
Alls taka þessir samningar til tæplega 76.000 manns.