GUÐLAUGUR Þorvaldsson ríkissáttasemjari lét af störfum í gær eftir rúmlega hálfan annan áratug í embætti og við tók Þórir Einarsson, sem verið hefur prófessor við Háskóla Íslands.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Guðlaugur að sér væri margt í huga við þessi tímamót, enda væri starfsvettvangur ríkissáttasemjara eðli málsins samkvæmt oft erfiður. Hann væri afar þakklátur fyrir að hafa getað gegnt þessu starfi í hartnær sextán ár áfallalítið, en að auki starfaði hann með Torfa Hjartarsyni þáverandi sáttasemjara í átta ár.“Minnisstæðast er jú fólk og mér eru afar kærar minningarnar frá mörgu hér. Þó ég hafi kynnst mörgum áður, bæði niðri í Arnarhvoli, uppi í Háskóla og víðar í þjóðlífinu, þá kynntist ég annars konar fólki hér, fólki alls staðar af landinu og úr öllum atvinnugreinum, vinnuveitendum og verkafólki og starfsmönnum af ýmsu tagi. Þetta fólk var mér ákaflega hjartfólgið, auk þess náttúrlega sem þetta hefur eiginlega verið mitt annað heimili,“ sagði Guðlaugur.

Lesa frétt í heild sinni