Skip to main content

Vinnustöðvun

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Blaðamannfélag Íslands hefur boðað vinnustöðvun vegna félagsmanna sem starfa hjá Árvakri, Ríkisútvarpinu, Sýn og Torgi.

Vinnustöðvunin er tímabundin og framkvæmist svo:

Ljósmyndarar og tökumenn hjá ofangreindum atvinnurekendum og blaða- og fréttamenn á netmiðlum þeirra (mbl.is, visir.is, frettabldid.is og ruv.is) munu leggja niður störf á neðangreindum tímum:

föstudaginn 8. nóvember 2019 klukkan 10:00-14:00

föstudaginn 15. nóvember 2019 klukkan 10:00-18:00

föstudaginn 22. nóvember 2019 klukkan 10:00-22:00

Blaðamenn sem starfa við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins auk ljósmyndara og tökumanna munu leggja niður störf fimmtudaginn 28. nóvember 2019 klukkan 10:00-22:00.

Á kjörskrá voru 211 félagsmenn. Atkvæði greiddi 131. Verkfallsboðun var samþykkt með 109 atkvæðum, eða 83,2% greiddra atkvæða.

 

Boðun vinnustöðvunar

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) boðaði vinnustöðvun þann 22. október vegna flugmanna sem starfa hjá Air Iceland Connect.

Vinnustöðvunin felur í sér yfirvinnubann meðal allra flugmanna Air Iceland Connect, en þeir eru allir félagsmenn í FÍA. Yfirvinnubannið nær til allra verkefna flugmanna fyrir félagið sem teljast til yfirvinnu. Þannig fellur niður vinna samkvæmt tveimur ákvæðum kjarasamnings aðila; annars vegar um heimild félagsins til að kaupa vinnu af flugmanni á frídegi og hins vegar til að kaupa viðbótar vakttíma af flugmanni á vinnudegi.

Vinnustöðvunin er ótímabundin og mun hún hefjast klukkan 00:01 föstudaginn 1. nóvember 2019.

Á kjörskrá voru 40 félagsmenn FÍA. 34 þeirra greiddu atkvæði. Já sögðu 32 eða 94,12%. Einn greiddi atkvæði gegn vinnustöðvun og einn seðill var auður eða ógildur.

 

Undirritun kjarasamnings

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Á fjórða tímanum í nótt var undirritaður kjarasamningur á milli fimm aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Félögin sem um ræðir eru Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Fræðagarður, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélag lögfræðinga.

Samningurinn gildir til 31. mars 2023.

19 ný sáttamál

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Á síðustu dögum hafa embætti ríkissáttasemjara borist 19 vísanir nýrra sáttamála aðildarfélaga BSRB gagnvart þremur viðsemjendum; Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Kjarasamningar aðila losnuðu 31. mars síðastliðinn.