Skip to main content

Ríkissáttasemjari skipar gerðardóm í ljósmæðradeilu

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari hefur skipað gerðardóm í deilu Ljósmæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Dóminn skipa þau Magnús Pétursson, fyrrum ríkissáttasemjari sem jafnframt er formaður, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Bára Hildur Jóhannsdóttir, deildarstjóri mönnunar og starfsumhverfisdeildar Landspítala og ljósmóðir.

Gerðardómurinn er skipaður á grundvelli miðlunartillögu sáttasemjara sem samþykkt var af samningsaðilum. Djúpstæður ágreiningur hefur verið uppi á milli samningsaðila um skeið um það hvort og þá að hvaða leyti launasetning stéttarinnar sé í samræmi við menntun, álag og inntak starfsins og er gerðardómnum ætlað að kveða upp úr með það. Gerðardómurinn skal hafa lokið störfum fyrir 1. sept. 2018.

Gerðardómurinn er sjálfstæður í störfum sínum og ákvörðunum. Hann setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra af þeim sem hann telur nauðsynlegt. Aðilar skulu eiga rétt á því að gera gerðardómi grein fyrir sjónarmiðum sínum. Ríkissáttasemjari útvegar gerðardómi starfsaðstöðu í húsakynnum ríkissáttasemjara, Borgartúni 21, 105 Reykjavík.

Gerðardómur skal við ákvarðanir sínar hafa hliðsjón af kjörum og launaþróun þeirra sem sambærilegir geta talist í menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, almennri þróun kjaramála hér á landi. Við mat sitt skal hann taka tillit til þeirra launahækkana sem hópurinn myndi fá eftir samþykkt miðlunartillögunnar og eftir atvikum aðgerða sem heilbrigðisstofnanir kunna að grípa til í kjölfar hans. Skal gerðardómur ljúka störfum eigi síðar en 1. september 2018.

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara samþykkt

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í máli Ljósmæðarafélags Íslands og Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er lokið. Miðlunartillagan var samþykkt í atkvæðagreiðslu ljósmæðrafélagsins með 95,1% atkvæða. 247 voru á kjörskrá og greiddu 224 atkvæði, eða 91%. Þá samþykkti Fjármála- og efnahagsráðherra miðlunartillöguna. Nýr kjarasamningur aðila hefur því komist á og mun hann gilda til 31. mars 2019.

Miðlunartillaga lögð fram í ljósmæðradeilu og verkfalli aflýst

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í deilu Ljósmæðrafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs. Tillagan felur í grundvallaratriðum í sér sambærilegar hækkanir og samningur aðila frá 29. maí sl. og gildistími er 31. mars 2019.
Djúpstæður ágreiningur hefur verið í milli samningsaðila um það hvort launasetning stéttarinnar sé í samræmi við álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra. Sá ágreiningur hefur m.a. staðið í vegi fyrir því að aðilar undirriti kjarasamning og því felur tillagan í sér að sérstökum gerðardómi verði falið að kveða upp úr um það hvort og þá að hvaða leyti þessir þættir eigi að hafa frekari áhrif á launasetningu stéttarinnar. Ríkissáttasemjari skipar þrjá menn í gerðardóminn sem er annars sjálfstæður í störfum sínum. Skal gerðardómurinn ljúka störfum sínum eigi síðar en 1. september 2018.
Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara þann 5. febrúar 2018. Kjarasamningurinn hafði verið laus síðan 1. september 2017, þegar gerðardómur sá er síðast ákvarðaði laun ljósmæðra rann út. Þegar málinu var vísað til ríkissáttasemjara höfðu samningsaðilar fundað fimm sinnum en án árangurs og vísaði félagið því deilunni til sáttasemjara. Fundurinn í dag er sá fimmtándi hjá ríkissáttasemjara.
Tillagan verður kynnt félagsmönnum og fjármála- og efnahagsráðherra á næstu dögum og greiða samningsaðilar um hana atkvæði fyrir kl. 12.00, miðvikudaginn 25. júlí 2018. Miðlunartillagan verður ekki birt öðrum en þeim sem hlut eiga að máli fyrr en atkvæði hafa verið greidd um hana.
Samhliða framlagningu tillögunnar samþykkir Ljósmæðrafélag Íslands að aflýsa yfirstandandi yfirvinnubanni.