Ríkissáttasemjari

Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari

Bryndís Hlöðversdóttir er lögfræðingur að mennt. Hún starfaði fyrst að lokinni útskrift hjá Dómsmálaráðuneyti, hjá Alþýðusambandi Íslands 1992-1995, var þingmaður Alþýðubandalags og síðar Samfylkingarinnar 1995-2005, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst 2005-2011, aðstoðarrektor skólans frá 2006 og rektor 2011-2013. Bryndís var starfsmannastjóri Landspítalans frá 2013 til 2015.

Auk framantalinna starfa hefur Bryndís setið í stjórnum fyrirtækja og stofnana, m.a. verið stjórnarformaður Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Þá hefur Bryndís átt stýrt/átt sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda og annarra aðila. Á árunum 2010-2013 var hún varamaður í Félagsdómi, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands. Bryndís var skipuð ríkissáttasemjari árið 2015.

Aðstoðarsáttasemjarar

Aðalsteinn Leifsson, framkvæmdastjóri hjá EFTA

Aðalsteinn Leifsson er framkvæmdastjóri hjá EFTA í Genf og lektor í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Aðalsteinn hefur kennt samningatækni í MBA-námi og meistaranámi í lagadeild í Háskólanum í Reykjavík og veitt ráðgjöf og þjálfun fyrir fyrirtæki og stofnanir í samningaviðræðum á Íslandi og í útlöndum. Hann hefur starfað fyrir framkvæmdastjórn ESB og utanríkisráðuneytið og verið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana, t.a.m. stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins 2011–2013.

Ástráður Haraldsson, héraðsdómari

Ástráður Haraldsson var sjálfstætt starfandi lögmaður í Reykjavík frá 1992 til 2018 en hefur frá í janúar 2018 verið héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann starfaði meðfram lögmennsku í hlutastarfi sem lögmaður og forstöðumaður vinnuréttarsviðs Alþýðusambands Íslands árin 1995-2000. Þá starfaði hann meðfram lögmennsku í hlutastarfi sem dósent við Háskólann á Bifröst frá 2002 til 2017. Hann hefur átt sæti í fjölmörgum nefndum og stjórnum á vegum stjórnvalda og einkafyrirtækja og sinnt fræðimennsku á sviði lögfræði með ritun greina og fyrirlestrahaldi.

Bergþóra Ingólfsdóttir, héraðsdómari

Bergþóra Ingólfsdóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2003. Bergþóra stundaði lögmannsstörf í 14 ár. Hún öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2004 og fyrir Hæstarétti 2011. Meðfram lögmannsstörfum sat hún í ýmsum stjórnsýslunefndum auk þess að sinna kennslustörfum, sérstaklega á sviði vinnuréttar og vinnumarkaðsréttar. Þá hefur hún setið í Félagsdómi. Bergþóra var skipuð héraðsdómari og dómstjóri við Héraðsdóm Vestfjarða í janúar 2018.

Elín Blöndal, lögfræðingur og markþjálfi

Elín er með lagapróf (cand. jur.) og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í þjóðarrétti frá Háskólanum í Leiden og hefur lokið námi í markþjálfun hjá Profectus. Elín starfaði m.a. um árabil sem deildarstjóri vinnumála og vinnuverndar hjá félagsmálaráðuneytinu. Þá gegndi hún stöðu prófessors við lagadeild Háskólans á Bifröst og var þá forstöðumaður Rannsóknaseturs vinnuréttar og jafnréttismála. Elín hefur skrifað fjölda greina og bókakafla á sviði vinnuréttar sem birst hafa hérlendis og erlendis og hefur stýrt/átt sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum á vegum hins opinbera um sama efni.

Elísabet Sigurveig Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara

Elísabet S. Ólafsdóttir er skrifstofustjóri hjá ríkissáttasemjara og sér um daglegan rekstur og fjármál embættisins auk þess sem Elísabet hefur sinnt sáttastörfum í einstaka málum. Elísabet lauk námi frá EHI í opinberri stjórnsýslu og stjórnun og í mannauðsstjórnun. Elísabet vann um nokkurra mánaða skeið hjá Forligsinstitutionen í Kaupmannahöfn að kynna sér starfsemi danska ríkissáttasemjara embættisins. Áður vann Elísabet hjá Kjararannsóknarnefnd við söfnun gagna og úrvinnslu launatölfræðiupplýsinga.

Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur og MA í sáttamiðlun

Guðbjörg Jóhannesdóttir er sóknarprestur Langholtssóknar. Guðbjörg er guðfræðingur frá Háskóla Íslands og MA í sáttamiðlun og átakastjórnun frá Kaupmannahafnarháskóla. Guðbjörg hefur þjónað sem prestur síðan 1998, fyrstu níu árin þjónaði hún í Sauðárkróksprestakalli þar sem hún var sóknarprestur. Árin þar á eftir þjónaði hún í nokkrum söfnuðum á höfuðborgarsvæðinu og á Selfossi ýmist sem sóknarprestur eða prestur, uns hún var valin til að gegna embætti sóknarprests í Langholtssókn árið 2012. Í störfum sínum hefur Guðbjörg annast sáttamiðlun í mörgum málum af ólíkum toga.

Helga Jónsdóttir, lögfræðingur

Helga er lögfræðingur og hefur gegnt mörgum mismunandi störfum, m.a. sem aðstoðarmaður forsætisráðherra og utanríkisráðherra, skrifstofustjóri forsætisráðuneytis, borgarritari í Reykjavík, bæjarstjóri í Fjarðabyggð og ráðuneytisstjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneyti.  Hún átti sæti í framkvæmdastjórn Alþjóðabankans um þriggja ára skeið og í stjórn ESA í fjögur ár.  Hún hefur setið í mörgum stjórnum og nefndum, m.a. verið formaður Tryggingaráðs, Landsvirkjunar og Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari

Ingibjörg Þorsteinsdóttir er lögfræðingur frá HÍ, hún lauk diplóma í viðskipta- og rekstrarfræði 1995 og meistaraprófi í mannauðsstjórnun 2001. Þá hefur Ingibjörg setið námskeið í sáttamiðlun fyrir dómi í Kaupmannahöfn. Ingibjörg starfaði í fjármálaráðuneytinu um árabil, lengst af sem deildarstjóri og skrifstofustjóri um tíma auk þess sem hún var fulltrúi ráðuneytisins í sendinefnd Íslands hjá Evrópusambandinu í Brussel. Ingibjörg var deildarstjóri og kennari við lagadeild Háskólans á Bifröst í 11 ár áður en hún varð héraðsdómari árið 2012. Hún hefur verið virk í ýmis konar félagsstörfum fyrir dómara og er nú formaður Dómarafélags Íslands.

Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur og ráðgjafi

Jóhann Ingi Gunnarsson hefur starfað sem sálfræðingur í áratugi ásamt því að vinna náið með mörgum fyrirtækjum og stofnunum landsins við ráðgjöf. Samhliða því hefur hann haldið vinsæl námskeið við endurmenntun Háskóla Íslands og sérhæft sig í samskipta-, stjórnenda- og liðsheildarþjálfun. Jóhann Ingi lauk embættisprófi frá Kiel í Þýskalandi og hefur m.a nýtt sér sálfræðilega þætti í þjálfun afreksíþróttamanna og handknattleiksliða í fremstu röð.

Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands

Kristín Ingólfsdóttir prófessor í lyfjafræði var rektor Háskóla Íslands 2005-2015. Hún var gestaprófessor við MIT háskólann í Boston frá 2015-2017 og hefur unnið að verkefnum sem lúta að nýsköpun í vísindum og kennslu.  Kristín er varaforseti háskólaráðs Háskólans í Lúxemborg og formaður Ráðgjafarnefndar Landspítala. Hún situr í stjórnum Leifur Eiriksson Foundation, sprotafyrirtækisins Atmonia, Samtökum evrópskra kvenrektora og Vísinda- og nýsköpunarráði Háskólans í Grenoble í Frakklandi.

Magnús Jónsson, fyrrverandi Veðurstofustjóri

Magnús varð stúdent frá MA 1968. Stundaði nám í stærðfræði og sagnfræði við HÍ 1969-1971 en lauk síðan Fil. Kand. prófi í veðurfræði frá Uppsalaháskóla 1979. Hann var kennari í stærðfræði við Hagaskóla, MS og MA í alls 8 ár og annaðist kennslu í veðurfræði fyrir flugmenn við  Flugskóla Íslands og síðar Flugakademíu Keilis um árabil. Þá starfaði hann á Veðurstofu Íslands í 28 ár þar af 15 ár sem veðurstofustjóri. Einnig sá hann um veðurfregnir í Ríkissjónvarpinu á árunum 1985 til 2001. Frá 2010 til 2016 gegndi hann hlutastarfi aðstoðarsáttasemjara hjá Ríkissáttasemjara.

Þórður S. Gunnarsson, lögmaður

Þórður S. Gunnarsson lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1975. Hann starfaði sem héraðsdóms- og síðar hæstaréttarlögmaður í rúma þrjá áratugi. Hann hóf kennslu við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík í ársbyrjun 1999, fyrst sem stundakennari en síðar sem lektor og dósent. Hann var ráðinn forseti nýstofnaðrar lagadeildar skólans árið 2002. Þeirri stöðu gegndi hann til ársloka 2010. Hann hefur verið aðjúnkt við deildina frá ársbyrjun 2011. Þórður starfaði sem dómari við Héraðsdóm Reykavíkur frá 2011 til 2018. Hann starfar nú sem lögmaður.