Sáttavöfflur eru þær vöfflur kallaðar sem bakaðar eru eftir að samningar nást í húsi ríkissáttasemjara. Elísabet S. Ólafsdóttir skrifstofustjóri embættisins hóf leikinn fyrir á þriðja áratug við góðar undirtektir og úr varð hefð. Sáttavöfflur hafa því verið bakaðar í gegnum tíðina að nóttu sem degi – og það ofan í þúsundir. Léttir fylgir því þegar vöffluilm leggur um húsið, en þá eru oft langar og erfiðar samningaviðræður að baki. Fólk gæðir sér á vöfflunum, ræðir málin og gleðst saman yfir því að samningar séu í höfn.