Nils Dalseide ríkissáttasemjari í Noregi er látinn, 65 ára að aldri eftir stutta sjúkdómslegu.
Hann hóf störf hjá sáttasemjaraembættinu árið 2004 og var skipaður ríkissáttasemjari 1. september 2013. Áður hafði hann starfað sem dómari um langt skeið.
Nils naut mikillar virðingar hjá aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum í Noregi og hafði mikil áhrif á þróun mála á vinnumarkaði þar í landi. Hann var mikils virtur sem fagmaður í sáttamiðlun og átti einnig stóran þátt í að þróa það fag í störfum sínum sem dómari, áður en hann tók við starfi ríkissáttasemjara.
Nils er sárt saknað úr hópi ríkissáttasemjara á Norðurlöndum og skarð hans verður vandfyllt.