Umhverfis- og loftslagsstefna
Til fyrirmyndar
Stefna embættis ríkissáttasemjara er að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum. Embættið fylgir lögum og reglum er lúta að fyrrgreindum málum og tekur umhverfis- og loftslagsstefna embættisins mið af stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í þeim efnum.
Ríkissáttasemjari tekur þátt í Grænum skrefum í ríkisrekstri. Verkefnið er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Það fellur því vel að umhverfis-og loftslagsstefnu embættisins.
Loftslagsstefna embættisins er hluti af umhverfisstefnu þess og sett skv. lögum um loftslagsmál 70/2012, 5.gr.. Stefnan tekur mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu og nær til allrar starfsemi ríkissáttasemjara; orkunotkunar, úrgangslosunar og umhverfisfræðslu. Embættið tekur þannig þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar og leggur sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð.
Framtíðarsýn
Árið 2030 er embætti ríkissáttasemjara til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum, hefur dregið saman losun sína á CO2 um 40%, kolefnisjafnar þá losun sem enn á sér stað og hefur verið kolefnishlutlaust frá árinu 2020.
Tilgangur og markmið
Tilgangurinn með umhverfis- og loftslagsstefnu embættis ríkissáttasemjara er að stuðla að því að neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni verði í lágmarki. Það er gert með því að:
– að draga markvisst úr áhrifum vegna losunar CO2 af starfseminni,
– hafa jákvæð áhrif á umhverfið með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi.
Aðgerðir
Úrbætur í starfsemi ríkissáttasemjara skulu taka mið af því að minnka umhverfisáhrif. Auðlinda- og efnanotkun skal haldið í lágmarki, dregið skal úr mengun og úrgangi eins og kostur er og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu og vistvænar samgöngur efldar í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
Ríkissáttasemjari byggir innkaup sín á stefnu ríkisins um vistvæn innkaup.
Umhverfismerktar vörur og þjónusta eru valdar umfram aðrar. Ef vörur og þjónusta eru sambærilegar skal velja þann kost sem er umhverfisvænni. Ræstivörur eru merktar með viðurkenndu umhverfismerki og farið er sparlega með efnin.
Við rekstur og viðhald húsnæðis og tækja er leitast við að velja vistvæna kosti. Farið er sparlega með vatn og orku; vatn ekki látið renna að óþörfu og slökkt er á rafmagnstækjum og ljósum í lok vinnudags.
Úrgangur er flokkaður og endurnýttur ef kostur er. Spilliefni eru aðgreind og þeim fargað á viðeigandi hátt. Dregið er úr eins og mögulegt er notkun einnota aðfanga, svo sem einnota umbúða og borðbúnaðar.
Dregið er úr pappírsnotkun eins og kostur er, bæði með því að sleppa prentun eða ljósritun ef kostur er og með því að nota báðar hliðar pappírs.
Forðast er að nota einnota borðbúnað og hvatt er til úrgangsflokkunar. Fjarfundarbúnaður er aðgengilegur starfsmönnum og fá þeir fræðslu og þjálfun í notkun hans. Ýtt er undir fjarfundi.
Lögð er áhersla á að velja umhverfisvænar leiðir í samgöngum, bæði innanlands og utan. Einnig að draga úr ferðum og ferðalögum og nýta fjarfundamöguleika eins og kostur er. Hjólagrindur, hjólaskýli og hreinlætisaðstaða verða gerðar aðgengilegar starfsfólki, einnig hleðslutöðvar fyrir rafbíla.
Losun frá starfsemi embættisins verður kolefnisjöfnuð. Nýtt verður sérstakt landgræðslusvæði þar sem starfsmenn planta sjálfir.
Starfsfólk er frætt um umhverfismál og hvatt til að tileinka sér vistvænan lífsstíl. Þeim er tryggt heilsusamlegt og gott starfsumhverfi. Haldið er grænt bókhald.
Endurskoðun
Stefnan skal endurskoðuð árlega á stefnumótunarfundi embættisins og markmið uppfærð með tilliti til árangurs og þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Sett eru ný undirmarkmið í samræmi við niðurstöðu endurskoðunar. Embættið skilar árlega s.k. grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar.
Ábyrgð á framkvæmd stefnunnar
Starfsmenn embættisins og aðrir sem starfa í umboði þess framfylgja stefnunni og hafa hana að leiðarljósi í störfum sínum. Ábyrgð á framkvæmd stefnunnar er í höndum skrifstofustjóra.
Við stefnumótun hefur ríkissáttasemjari haft til hliðsjónar gögn og viðmið frá Stefnuráði Stjórnarráðsins samhæfingar- og samráðsvettvangi innan stjórnsýslunnar.