Jafnréttisstefna
Embætti ríkissáttasemjara hefur markað sér eftirfarandi stefnu í jafnréttismálum með það að markmiði að tryggja jafnan rétt fólks í starfsemi og rekstri stofnunarinnar:
Fullt jafnrétti skal ríkja hjá embættinu, bæði hvað varðar starfsfólk embættisins og gagnvart þeim sem sækja þjónustu hjá því. Kynferðisleg eða kynbundin áreitni, einelti og önnur ósæmileg háttsemi er ekki liðin hjá embættinu.
Tekið er mið af lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og rétt kvenna og karla og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og þar með bann við allri mismunum á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.
Ríkissáttasemjari og aðrir starfsmenn stofnunarinnar bera ábyrgð á að jafnréttisstefnunni sé framfylgt.
Mannauðsstefna
Embætti ríkissáttasemjara hefur markað sér eftirfarandi stefnu í mannauðsmálum:
Ríkissáttasemjari leggur áherslu á að embættið hafi á að skipa hæfu starfsfólki sem sýnir framúrskarandi samskiptahæfni og sinnir verkefnum sínum af fagmennsku, skilvirkni og trausti. Mikilvægt er að starfsfólk embættisins búi yfir hæfni og þekkingu til að hafa frumkvæði að breytingum. Einnig getu og vilja til að laga sig að sífellt flóknara starfsumhverfi.
Ráðningar
Embætti ríkissáttasemjara vinnur eftir faglegu ráðningaferli þar sem hæfniskröfur eru skilgreindar. Ráðið er í störf samkvæmt lögum, reglum og leiðbeiningum þar um með samræmdum hætti. Tekið er vel á móti nýju starfsfólki.
Starfskjör
Áhersla er lögð á að starfsfólk embættisins búi við samkeppnishæft starfskjaraumhverfi og fyllsta jafnréttis sé gætt.
Heilsa og líðan
Leitast er við að skapa öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Eðli starfsemi embættisins kallar á óreglulegan vinnutíma og oft mjög langan, því er mætt með sveigjanleika í viðveru á öðrum tímum.
Jafnrétti og fjölbreytileiki
Fullt jafnrétti ríkir hjá embættinu. Unnið er samkvæmt jafnréttisstefnu embættisins.
Samskipti og endurgjöf
Jákvæð og uppbyggileg samskipti eru lykilþættir á góðum vinnustað og hefur embættið sett sér sérstakar samskiptareglur. Kynferðisleg eða kynbundin áreitni, einelti og önnur ósæmileg háttsemi er ekki liðin. Lögð er áhersla á markvissa endurgjöf og formleg starfsmannasamtöl eiga sér stað a.m.k. einu sinni á ári.
Starfsþróun
Leitast er við að veita starfsfólki tækifæri til að sækja sér fræðslu og þróast í starfi. Skapað er starfsumhverfi þar sem starfsfólk er ávallt í stakk búið til að takast á við viðfangsefni sem starfinu fylgja og geti mætt breytilegum kröfum og áskorunum.
Starfslok
Lögð er áhersla á vandaðan viðskilnað við starfslok hvort sem þau eru tilkomin vegna aldurs, uppsagnar eða annarra ástæðna. Starfsfólki 60 ára og eldri er boðið að sækja fræðslu vegna starfsloka. Við starfslok skal fara fram starfslokasamtal.
Mannauðsstefna embættis ríkissáttasemjara tekur m.a. mið af mannauðsstefnu stjórnarráðs Íslands
Við stefnumótun hefur ríkissáttasemjari haft til hliðsjónar gögn og viðmið frá Stefnuráði Stjórnarráðsins samhæfingar- og samráðsvettvangi innan stjórnsýslunnar.