Skip to main content

Hús- og samskiptareglur

Góð samskipti, góð umgengni

Mikilvægi góðra samskipta verður seint ofmetið, ekki síst við samningaborðið. Öryggi og vellíðan sem fylgir slíkum samskiptum skiptir miklu þegar kemur að því að finna lausnir og ná árangri.

Eftirfarandi er haft að leiðarljósi í samskiptum og umgengni hér í húsnæði embættis ríkissáttasemjara.

  • Sýnd er kurteisi og tillitssemi.
  • Veitt er uppbyggileg gagnrýni og ábendingum fólks vel tekið.
  • Rætt er saman og ágreiningur leystur á faglegan og uppbyggilegan hátt.
  • Nýjum hugmyndum er tekið með opnum huga og sýndur er sveigjanleiki.
  • Fólk vinnur saman sem heild, er lausnamiðað og miðlar af reynslu og þekkingu sín á milli.
  • Sýnt er traust og trúnaður virtur.
  • Hlustað er á alla og þeirra sjónarmið virt óháð kyni, aldri, menntun, starfi og bakgrunni.
  • Ekki er tekið þátt í baktali.
  • Hrósað er fyrir það sem vel er gert.
  • Í samskiptum utan samningaborðsins, þ.á m. við notkun samfélagsmiðla, er þess gætt að virða trúnað manna á milli og við embættið.
  • Hver og einn axlar ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum.
  • Einelti, áreitni eða ofbeldi líðst ekki.
  • Stundvísi er nauðsynleg.
  • Húsnæðið

    Gengið er vel um húsakynni embættisins, tæki og búnað. Ekki er skilið eftir rusl, hvorki innan dyra né utan. Rýmum er haldið snyrtilegum með því að ganga frá bollum, matarílátum og það rusl flokkað sem fellur til. Neysla matar er óheimil í fundarherbergjum.

  • Verðmæti

    Ekki er tekin ábyrgð á fatnaði eða verðmætum sem geymd eru í fatahengjum eða annars staðar í rýminu. Velkomið er að taka með sér yfirhafnir og önnur verðmæti inn í fundarherbergi.

  • Símnotkun

    Ekki er leyfilegt að nota snjallsíma í fundarherbergi meðan á fundi stendur, nema til að lesa eða skrifa skilaboð. Allir farsímar eru stilltir þannig að þeir séu hljóðlausir.

  • Reykingar

    Reykingar eru óheimilar, einnig notkun rafretta.

  • Fjölmiðlar

    Fjölmiðlafólk ber auðkenniskort með nafni fjölmiðils sem það  starfar fyrir. Sótt er um leyfi fyrir ljós- og kvikmyndatökum og sýnd tillitssemi við slíkar tökur.

  • Annað

    Viðburðir, kynningar, auglýsingar eða sala er óheimil í húsakynnum embættisins. Mögulegt er að sækja um undanþágu með því að senda tölvupóst á skrifstofustjóra, rikissattasemjari(hjá)rikissáttasemjari.is.

Brot á þessum reglum, eignaspjöll eða annað tjón getur leitt til bótaskyldu. Starfsfólki er heimilt að vísa frá einstaklingum sem virða ekki þessar reglur, trufla starfsemi eða valda öðrum ónæði.