Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) boðaði vinnustöðvun þann 22. október vegna flugmanna sem starfa hjá Air Iceland Connect.
Vinnustöðvunin felur í sér yfirvinnubann meðal allra flugmanna Air Iceland Connect, en þeir eru allir félagsmenn í FÍA. Yfirvinnubannið nær til allra verkefna flugmanna fyrir félagið sem teljast til yfirvinnu. Þannig fellur niður vinna samkvæmt tveimur ákvæðum kjarasamnings aðila; annars vegar um heimild félagsins til að kaupa vinnu af flugmanni á frídegi og hins vegar til að kaupa viðbótar vakttíma af flugmanni á vinnudegi.
Vinnustöðvunin er ótímabundin og mun hún hefjast klukkan 00:01 föstudaginn 1. nóvember 2019.
Á kjörskrá voru 40 félagsmenn FÍA. 34 þeirra greiddu atkvæði. Já sögðu 32 eða 94,12%. Einn greiddi atkvæði gegn vinnustöðvun og einn seðill var auður eða ógildur.