Aðalsteinn Leifsson hefur tekið við embætti ríkissáttasemjara frá og með deginum í dag, 1. apríl 2020. Skipun Aðalsteins í embættið er til fimm ára. Hann tekur við starfinu af Helgu Jónsdóttur sem var sett í embætti ríkissáttasemjara þann 1. janúar síðastliðinn.
Aðalsteinn lauk MBA námi frá Edinburgh Business School / Herriot Watt University í október 2004. Auk þess hefur hann lokið MSc námi frá London School of Economics (LSE). Þá stundaði hann doktorsnám í samningatækni hjá Grenoble École de Management samhliða vinnu á árunum 2016-2018.
Frá því í janúar 2014 hefur Aðalsteinn starfað sem framkvæmdastjóri hjá EFTA, sem hefur starfstöðvar í Genf, Brussel og Luxemburg. Samhliða störfum sínum hjá EFTA hefur Aðalsteinn verið lektor í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann hefur meðal annars kennt samningatækni og lausn deilumála í MBA-námi.
Aðalsteinn hefur verið aðstoðarsáttasemjari hjá embætti ríkissáttasemjara frá því í byrjun árs 2019 en þá tók hann þátt í sáttamiðlun vegna kjarasamningagerðar á almennum vinnumarkaði. Hann hefur veitt embættinu liðsinni og verið til ráðgjafar auk þess að sitja fundi með samningsaðilum.
Aðalsteinn hefur því víðtæka þekkingu á samningamálum og er höfundur bókar um samningatækni. Auk fræðilegrar þekkingar hefur hann reynslu af þátttöku í samningaviðræðum, kennslu í samningatækni, ráðgjöf við samningsaðila og aðstoð við deiluaðila við að bæta samskipti.
Aðalsteinn vinnur fyrstu tvo dagana að heiman, þar sem hann er í sóttkví fram á föstudag.