Um 40% þeirra sem eru í samninganefnd eru þar í fyrsta sinn og hartnær einn af hverjum fimm geta ekki hugsað sér að vera í samninganefnd aftur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun ríkissáttasemjara á upplifun samningamanna í kjarasamningalotunni sem hófst í byrjun árs 2019 og stendur að nokkru enn yfir. Þegar hefur rúmlega 320 samningum verið lokið í samningalotunni og meira en helmingur þeirra, eða 171, voru undirritaðir hjá ríkissáttasemjara eftir að kjaradeilunni var vísað þangað. Enn er 10 sáttamál hjá embættinu.
Þegar spurt var um traust milli samninganefnda voru nánast jafnmargir sem töldu það vera mikið (37%) og lítið (35%).
Í könnuninni kom fram að um 80% töldu sig sjálf vera vel eða fremur vel undirbúin fyrir samningaviðræðurnar en aðeins um 40% að viðsemjandinn væri vel eða fremur vel undirbúinn. Hartnær 60% samninganefndarmanna vörðu 10 klukkustundum eða minni tíma í undirbúning fyrir fyrsta fund með viðsemjenda en um 25% samninganefndarfólks nýtti mikinn tíma í undirbúning fyrir viðræðurnar.
Ríkissáttasemjari hefur sett á fót fræðsluráð með þátttöku allra heildarsamtaka og Reykjavíkurborgar og gerð hefur verið tveggja ára fræðsluáætlun til að styðja við fólk í samninganefndum og bæta samningaferlið. Meðal annars hefur embættið skipulagt fimm þriggja daga vinnustofur um allt land fyrir samninganefndarfólk.
Könnunin sýnir almenna ánægju með störf ríkissáttasemjara og yfir 90% þeirra sem sitja í samninganefndum eru sátt eða í meðallagi sátt með embætti ríkissáttasemjara og um 98% töldu samskipti við ríkissáttasemjara góð eða í meðallagi góð. Á sama tíma komu fram ýmsar ábendingar um vinnubrögð, skipulag og aðstöðu hjá embættinu. Mörgum ábendinganna hefur þegar verið fylgt eftir með breyttu verklagi og breytingum á húsnæði.
Stór hluti samningalotunnar fór fram í heimsfaraldrinum. Margir í samninganefndum telja að fjarfundaformið hafi hentað ágætlega á fyrstu stigum samningaviðræðna (40%) en flestir eru sammála um að fjarfundir henti alls ekki á lokaspretti samningaviðræðna (80%).
Niðurstöður könnunarinnar í heild má nálgast hér.