Skip to main content

Spurningar og svör

Smelltu og fáðu svarið

Ef þú finnur ekki svörin við spurningum þínum hér fyrir neðan, er þér velkomið að hafa samband við okkur í síma 511 4411 eða senda okkur póst →

Hvar er ríkissáttasemjari til húsa?

Borgartúni 21

Höfðaborg, 4. hæð

105 Reykjavík

Skoða staðsetningu á korti >

Hvert er hlutverk ríkissáttasemjara?

Hlutverk ríkissáttasemjara er að annast sáttastörf í vinnudeilum, fylgjast með ástandi og horfum í atvinnulífi og á vinnumarkaði og halda skrá yfir gildandi kjarasamninga. Meginhlutverki ríkissáttasemjara er lýst í III. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Hvað er aðalkjarasamningur?

Við gerð kjarasamninga eru fyrri samningar iðulega lagðir til grundvallar. Með aðalkjarasamningi er átt við safn af efnisatriðum sem áður hefur verið samið um og nýir samningar leiða til breytinga á. Í upphafi nýs kjarasamnings er jafnan vísað til þess að allir gildandi kjarasamningar og sérkjarasamningar aðila framlengist með þeim breytingum og fyrirvörum sem samið er um.

Hvað er aðfarasamningur?

Aðfararsamningur er stuttur samningur til að brúa tímabil þar til nýr kjarasamningur verður gerður.

Hverjir eru aðilar vinnumarkaðarins?

Aðilar vinnumarkaðarins

Aðilar vinnumarkaðarins er safnheiti sem notað er yfir heildarsamtök launafólks annars vegar og atvinnurekenda hins vegar.

Almennur vinnumarkaður

Á almennum vinnumarkaði eru Alþýðusamband Íslands (ASÍ) heildarsamtök launafólks og Samtök atvinnulífsins (SA) heildarsamtök atvinnurekenda.

Opinber vinnumarkaður

Á opinberum vinnumarkaði eru Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, (BSRB), Bandalag háskólamanna (BHM) og Kennarasamband Íslands (KÍ) heildarsamtök launafólks. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) er í forsvari við gerð kjarasamninga vegna ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna sveitarfélaganna

Hvað er „betri vinnutími“?

Betri vinnutími

Í flestum kjarasamningum sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 er kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Þetta á þó ekki við um öll stéttarfélög, því ýmsir hópar eru með annars konar útfærslu á vinnuskyldu en hefðbundna 40 stunda vinnuviku.

Meginmarkmið

Meginmarkmið breytinganna er að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu.Þessar breytingar hafa verið kallaðar „Betri vinnutími“.

 

Heimild: Betrivinnutimi.is

Hvað felur boðun vinnustöðvunar í sér?

Mismunandi reglur gilda um boðun vinnustöðvana á almennum og opinberum vinnumarkaði.

 

Almennur vinnumarkaður

Árangurslaus tilraun til að ná sáttum í viðræðum undir stjórn ríkissáttasemjara er forsenda þess að heimilt sé að boða til vinnustöðvunar á almennum vinnumarkaði. Hana ber að tilkynna til ríkissáttasemjara og þeim sem hún beinist að með sjö sólarhringa fyrirvara. Þá er samninganefnd aðila á almennum markaði heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun en þetta er ekki heimilt á opinberum markaði.

Opinber vinnumarkaður

Þegar um er að ræða samningsaðila sem vinna á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna er ekki gert að skilyrði að mál hafi verið tekið til árangurslausrar sáttameðferðar hjá ríkissáttasemjara áður en vinnustöðvun er boðuð og boðunarfrestur er 15 sólarhringar.

Þá gilda einnig aðrar reglur um þátttökuhlutfall í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga opinberra starfsmanna en á almennum markaði.

Hvað er bókun með kjarasamningi?

Bókanir með kjarasamningi taka til ágreiningsefna, sem ekki eru leyst í eiginlegum kjarasamningi. Bókanir hafa sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur samkvæmt úrskurði Félagsdóms.

Hver eru verkefni félagsdóms?

Verkefni Félagsdóms er að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur s.s. vegna ólögmætra vinnustöðvana, broti á kjarasamningi eða öðrum málum, sem aðilar hafa komið sér saman um að leggja fyrir dóminn. Fjallað er um hlutverk og réttarfar Félagsdóms í lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Hvað er forgangsréttur?

Forgangsréttarákvæði í kjarasamningi kveður á um forgang allra eða tiltekinna félagsmanna þess félags sem kjarasamninginn gerir, að störfum hjá viðsemjanda. Í lögum um opinbera starfsmenn og kjarasamningum þeirra er ekki fjallað um forgangsrétt að störfum.

Hvað þýðir friðarskylda?

Eitt mikilvægasta hlutverk kjarasamninga er að skapa frið á vinnumarkaði og setja niður kjaradeilur, enda eru þeir stundum kallaðir friðarsamningar. Með hugtakinu friðarskylda er átt við að aðilar sem bundnir eru af kjarasamningi mega ekki, á gildistíma samningsins, knýja fram breytingar á því sem um hefur verið samið með vinnustöðvun. Friðarskylda er úr gildi fallin, þegar samningur rennur út, nema að um annað hafi verið samið.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Hafa fylgiskjöl með kjarasamningi eitthvert gildi?

Um fylgiskjöl með kjarasamningi gildir sama og um bókanir með kjarasamningum. Fylgiskjöl taka jafnan til afmarkaðs efnis, en efni þeirra er almennt talið jafngilt og efni kjarasamnings og bókana.

Hvað felst í fyrirbyggjandi sáttastörfum?

Með fyrirbyggjandi sáttastörfum er átt við aðgerðir til að greiða fyrir því að samningur taki við af samningi og koma í veg fyrir að hnökrar við innleiðingu kjarasamnings verði til þess að ekki takist að semja fyrir lok samningstíma. Alla jafna er sáttastörfum ekki beitt fyrr en langt er liðið á samningstímann og jafnvel eftir að samningur hefur runnið út, en rannsóknir sýna að fyrirbyggjandi aðgerðir til sátta auka verulega líkur á að samningur taki við af samningi. Fyrirbyggjandi sáttaaðgerðir er oftast í formi funda með samningsaðilum á gildistíma samnings, undir stjórn sáttasemjara.

Hvað er fyrirtækjasamningur?

Fyrirtækjasamningur er kjarasamningur sem gerður er milli tiltekins fyrirtækis og stéttarfélags eða –félaga um laun og önnur starfskjör þeirra sem starfa hjá hlutaðeigandi fyrirtæki.

Til hvers er gerðardómur?

Gerðardómur er úrskurðaraðili sem yfirleitt hefur það hlutverk að leysa endanlega úr réttarágreiningi, en telst þó ekki til dómstóls. Gerðardómur skiptast í lögbundna gerðardóma og samningsbundna gerðardóma.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Getur gildistími kjarasamnings verið annar en undirskriftardagur?

Gildistími kjarasamnings er frá undirskriftardegi nema öðruvísi hafi verið um samið. Sé samningur felldur í atkvæðagreiðslu fellur hann úr gildi þar með. Yfirleitt er kveðið á um gildistíma kjarasamninga í samningum og hvort hann fellur úr gildi í lok samningstíma eða með uppsögn.

Hvað er innanhússtillaga ríkissáttasemjara?

Sáttasemjari getur samkvæmt venju lagt fram óformlega sáttatillögu að lausn kjaradeilu. Skrifleg tillaga sem lögð er fyrir samninganefndir deiluaðila til samþykkis eða synjunar, gengur undir heitinu innanhússtillaga sáttasemjara (til aðgreiningar frá formlegri miðlunartillögu).

Hvað er kjarasamningalota?

Kjarasamningalota er tímabil þegar unnið er að gerð flestra kjarasamninga.

Heimild: Íslensk orðabók

Hvernig er kjarasamningaumhverfi?

Kjarasamningsumhverfi er umgjörð og umhverfi kjarasamninga.

Heimild: Íslensk orðabók

Hvað eru kjarasamningaviðræður eða kjaraviðræður?

Kjarasamningaviðræður eru viðræður um gerð kjarasamninga.

Heimild: Íslensk orðabók

Hverjir eru kjarasamningsaðilar/samningsaðilar?

Kjarasamningsaðilar eru aðilar að kjarasamningisamningi, venjulega stéttarfélag eða hópur stéttarfélaga annars vegar og heildarsamtök atvinnurekenda eða tiltekinn atvinnurekandi hins vegar.

Heimild: Íslensk orðabók

Hvað eru kjarasamningshækkanir?

Kjarasamningshækkanir eru launahækkanir sem samið er um í kjarasamningi.

Heimild: Íslensk orðabók

Hvað felur kjarasamningur á almennum markaðinum í sér?

Kjarasamningar eru samningar um kaup og kjör launafólks, sem gerðir eru milli stéttarfélags og atvinnurekanda eða samtökum þeirra. Kjarasamningum er ætlað að gilda um tiltekinn tíma og þar er gjarnan kveðið almennt á um kaup, lengd vinnutíma, dagvinnu, yfirvinnu, vaktavinnu, matar- og kaffitíma, uppsagnarfrest, orlof og greiðslur í veikindum.

Heimild: island.is

Hvaða lög gilda um kjarasamninga opinberra starfsmanna?

Um kjarasamninga opinberra starfsmanna gilda lög nr. 94/1986, það er um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum og hafa rétt til að gera kjarasamninga og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra. Lögin taka einnig til starfsmanna sjálfseignarstofnana sem starfa í almannaþágu.

Hvað þýðir krónutöluhækkun?

Krónutöluhækkun er launahækkun sem tilgreind er í krónum en ekki sem hlutfall.

Hver er launagreiðandi?

Einstaklingur eða fyrirtæki sem greiðir fólki laun fyrir að vinna hjá sér. Launagreiðendur eru flokkaðir eftir atvinnugrein skv. ÍSAT2008.

Heimild: Íslensk orðabók

Hver er launamaður?

Launamaður er einstaklingur sem selur vinnuafl sitt á vinnumarkaði og vinnur undir stjórn og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi í formi launa og annarra starfskjara samkvæmt kjarasamningi, lögum eða ráðningarsamningi.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Hvað er launaþrep/launaflokkur?

Launaflokkur er flokkur launa sem starfsmönnum er raðað í. Stéttarfélög og atvinnurekendur ákvarða gjarnan fasta launaflokka, þ.e. störfum er raðað niður á launaflokka eftir því hvers er krafist af þeim sem vinna þau. Þá eru störf sem metin eru sambærileg (hvað varðar reynslu, álag, ábyrgð o.fl.) sett í sama launaflokk. Innan hvers launaflokks eru oft svokölluð launaþrep og hækkar starfsmaður um launaþrep eftir ýmist starfs- eða lífaldri.

Heimild: Áttavitinn

Til hvers er vísað þegar rætt er um lágmarkslaun?

Hér á landi eru lágmarkslaun ákveðin í kjarasamningum skv. ákvæðum laga nr. 80/1938 og skv. lögum nr. 55/1980 en um laun umfram ákvæði kjarasamninga er samið í ráðningarsamningum. Öll ákvæði ráðningarsamninga, formlegra eða óformlegra, um lægri laun, uppbætur eða starfstengdar greiðslur en kjarasamningar mæla fyrir um eru ógild. Í kjarasamningum er jafnframt samið um laun fyrir vinnu sem unnin er utan umsamins dagvinnutíma.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Hver eru skilyrði fyrir miðlunartillögu ríkissáttasemjara?

Skilyrði

Ríkissáttasemjari getur lagt fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu, hafi sáttaumleitanir ekki borið árangur. Skilyrði þess að miðlunartillaga verði lögð fram, er m.a. að viðræður hafi ekki borið árangur og að þeim tíma sem ætlaður var til viðræðna sé lokið.

Tillaga lögð fram

Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar.

Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann leggur fram miðlunartillögu en samninganefndir taka ekki formlega afstöðu til efnis tillögunnar eins og þegar um innanhússtillögu er að ræða.

Hver er opinber starfsmaður?

Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins [opinberra starfsmanna], „taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi hann tilheyri, enda verði starf hans talið aðalstarf.“

Hvað er rammasamningur?

Samningur sem hefur að geyma grundvallandi meginskilmála, gjarnan ætlaður til notkunar fyrir stóran hóp manna sem síðan semja einstaklingsbundið með vísun til rammasamnings. Dæmi: Kjarasamningar stéttarfélaga bornir saman við vinnusamninga einstaklinga úr því.

Heimild: Íðorðabankinn

Hvað þýðir samflot?

Það þegar kjarasamningar eru gerðir á vettvangi sambanda stéttarfélaga, ýmist á vettvangi viðkomandi starfsgreinar eða á vettvangi heildarsamtaka, og samþykktir með fyrirvara um samþykki í hverju félagi fyrir sig. Í samfloti eru kjarasamningar m.ö.o. gerðir fyrir tvö eða fleiri stéttarfélög í einu, án þess þó að félögin framselji öðrum samningsréttinn.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Hvað er samninganefnd?

Samninganefnd er hópur manna sem stendur í samningum, einkum fulltrúar ríkis, félags eða fyrirtækis í formlegum samningaviðræðum

Heimildir: Íslensk nútímamálsorðabók

Hvað er samúðarverkfall?

Samúðarverkfall er vinnustöðvun eins félags til stuðnings kröfum annars félags sem á í verkfalli. Samúðarverkfalli er ekki ætlað að hafa áhrif á stöðu þess sem samúðarverkfall boðar enda kjarasamningur fullgildur og þar með friðarskylda í gildi. Í lögum segir að óheimilt sé að hefja samúðarverkfall til styrktar félagi, sem hafið hefur ólögmæta vinnustöðvun.

Hvenær telst kjarasamningur samþykktur?

Samninganefnd stéttarfélags/atvinnurekanda sem hefur fengið umboð til undirritunar kjarasamnings fyrir hönd félagsmanna, ber að leggja samninginn fyrir meðlimi hlutaðeigandi félags og leita eftir afstöðu þeirra. Það skal gert innan fjögurra vikna frá undirritun samnings. Áskilin er þátttaka 1/5 félagsmanna og stuðningur minnst helmings þeirra. Fari fram póstatkvæðagreiðsla ræður meiri hluti greiddra atkvæða óháð þátttöku.

Hvað felur orðið samningur í sér?

Samningur er tvíhliða (eða marghliða) löggerningur sem byggist á gagnkvæmum eða nátengdum viljayfirlýsingum milli tveggja eða fleiri aðila sem ætlað er að binda þá báða eða alla að lögum. Flestir samningar kveða á um gagnkvæma efndaskyldu aðilanna en efndaskyldan getur þó einnig verið einhliða.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Hvað er sáttamiðlun

Með sáttamiðlun er átt við aðstoð óhlutdrægs þriðja manns við aðila, tvo eða fleiri, við að leysa ágreining sín í milli af fúsum og frjálsum vilja.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Hvað felur hugtakið sáttastörf í sér?

Sáttastörf fela í sér að miðla sáttum milli deiluaðila. Gjarnan er notuð sáttamiðlun eða samningatækni. Eitt meginhlutverk ríkissáttasemjara skv lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er að annast sáttastörf í vinnudeilum.

Hvað eru sér(kjara)samningar

Sérsamningur fyrir tiltekinn hóp félagsmanna sem leiðir af sérstöðu þeirra, s.s. vegna menntunar eða ráðningar að tilteknu fyrirtæki nefnist gjarnan sérkjarasamningur. Sérkjarasamningar byggja á grunni aðalkjarasamnings.

Hvað er stofnanasamningur?

Stofnanasamningur er sérstakur samningur milli stofnunar ríkisins og viðkomandi stéttarfélags um aðlögun tiltekinna þátta aðalkjarasamnings að þörfum stofnunar með hliðsjón af sérstöðu starfa og verkefna stofnunar.

Forstöðumenn stofnana geta ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum, vegna sérstakrar hæfni eða álags í starfi. Stofnanasamningur er hluti af þeim kjarasamningi sem gerður er við viðkomandi stéttarfélag og er því óuppsegjanlegur og ekki verða þvingaðar fram breytingar á honum með verkfallsaðgerðum.

Hvað er svæðissamningur?

Svæðissamningur er samningur sem nær til tiltekinna starfa á tilteknu landssvæði.

Hvað þýðir „túlkun kjarasamnings“?

Oft koma upp atriði í kjarasamningi sem krefjast skýringar eða túlkunar eftir að samningur er gerður. Með hugtakinu túlkun er átt við það að gera grein fyrir því, hvaða skilning ber að leggja í samning og hvaða réttaráhrif samningurinn skuli hafa. Aðilar kjarasamnings geta borið ágreining um túlkun kjarasamnings undir Félagsdóm til úrlausnar.

Hvað er undanfarasamningur

Undanfarasamningur er fyrsti samningur í samningalotu og er ætlað að vera fyrirmynd þeirra sem á eftir koma.

Hvað felur verkbann í sér?

Verkbann er aðgerð sem atvinnurekanda er heimilt að grípa til í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum, og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum, sem sett eru í lögum

Heimildir: Vinnuréttarvefur ASÍ

Hvað er verkfall / verkfallsaðgerðir?

Verkfall

Verkfall er aðgerð sem stéttarfélag beitir í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum. Verkfall getur verið hvers konar rof á þeirri vinnu sem launafólki er skylt samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi að inna af hendi, enda sé aðgerðin framkvæmd með aðild stéttarfélags og uppfylli önnur skilyrði um form samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Kosning

Kjósa verður um það meðal félagsmanna hvort að félagsmenn vilja þrýsta á kröfur sínar með því að fara í verkfall. Sé það vilji meirihluta félagsmanna að fara í verkfall er boðað til verkfalls á ákveðnum degi og eiga allir félagsmenn sem starfa eftir viðkomandi kjarasamningi að leggja niður vinnu.

Brot

Ekki er heimilt að ráða aðra starfsmenn til að ganga í störf viðkomandi á meðan né heldur að reka starfsmenn fyrir að fara í verkfall.

 

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Hvað er verkfallsboðun?

Ef boða skal vinnustöðvun á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, er það skilyrði lögmætrar boðunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Árangurslaus sáttameðferð hjá ríkissáttasemjara er hins vegar ekki lögbundið skilyrði fyrir boðun vinnustöðvunar á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Hvað er verkfallsréttur?

Verkfallsréttur er lagalegur réttur starfsstéttar til að fara í verkfall.

Heimild: Íslensk nútímamálsorðabók

Hvað er viðræðuáætlun?

Viðræðuáætlun

Viðræðuætlun er áætlun um framkvæmd og tímasetningar samningaviðræðna.

Gerð viðræðuáætlunar

Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu gera áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamnings. Samningsaðilum er heimilt að veita landssamböndum eða heildarsamtökum sérstakt umboð til að gera viðræðuáætlun fyrir sína hönd ef slíkt umboð leiðir ekki af lögmætum samþykktum sambanda eða samtaka samningsaðila.

Skil viðræðuáætlunar

Viðræðuáætlunina, undirritaða af báðum aðilum, skal senda sáttasemjara í síðasta lagi 10 vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Sé viðræðuáætlun ekki gerð skal sáttasemjari gera hana minnst 8 vikum áður en gildandi samningur rennur út.

Hvað felur hugtakið vinnumarkaður í sér?

Á vinnumarkaði selja starfsmenn atvinnurekendum vinnuafl sitt með þeim kjörum sem ákveðin eru í kjarasamningum, lögum og ráðningarsamningi. Vinnumarkaður er sagður almennur ef atvinnurekandinn er einstaklingur eða fyrirtæki í eigu einkaaðila eða opinbers aðila, en opinber ef atvinnurekandinn er stofnun á vegum ríkis eða sveitarfélags.

Heimild: Vinnuréttarvefur ASÍ

Hvað þýðir vinnuréttur?

Vinnuréttur er samheiti yfir löggjöf og reglur er varða vinnumarkað.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Hvað er vinnustaðasamningur?

Vinnustaðasamningur er samningur sem stéttarfélög og launagreiðendur gera á grundvelli 5. kafla í kjarasamningum á almennum markaði.

Hvað er vinnustöðvun?

Vinnustöðvun er þvingunaraðgerð sem heimiluð er við tilteknar aðstæður og að tilteknum skilyrðum uppfylltum þegar ágreiningur verður milli samtaka launafólks og atvinnurekenda. Vinnustöðvun getur ýmist verið í formi verkfalls eða verkbanns.

Heimild: Lögfræðiorðasafnið

Hvernig má aflýsa vinnustöðvun?

Samninganefnd launafólks eða atvinnurekanda er heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun einu sinni eða oftar, um allt að 28 sólarhringa samtals, án samþykkis gagnaðila, enda sé frestunin kynnt honum með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Aðilum kjarasamnings er þó ávallt heimilt að fresta vinnustöðvun með samkomulagi. Frestun vinnustöðvunar er ekki heimil ef boðað er til hennar á grundvelli laga nr. 94/1986. Samninganefnd má aflýsa boðaðri vinnustöðvun hvenær sem er.

Hvað felur vísun kjaradeilu í sér?

Slitni upp úr samningaviðræðum aðila eða telji þeir vonlítið um árangur getur hvor þeirra um sig eða þeir sameiginlega, vísað deilunni til ríkissáttasemjara. Þá er honum skylt að leiða aðila saman og halda áfram samningaumleitunum.