Skip to main content

Vísun máls

Viðræður í strand

Ef slitnar upp úr samningaviðræðum aðila eða annar hvor þeirra telur vonlítið um árangur af frekari samningaumleitunum getur, samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, hvor þeirra um sig eða báðir sameiginlega vísað deilunni til sáttasemjara. Þegar sáttasemjari hefur fengið tilkynningu þess efnis er honum skylt að kveðja aðila eða umboðsmenn þeirra til fundar svo skjótt sem kostur er og halda síðan áfram sáttaumleitunum meðan von er til þess að þær beri árangur.

Sáttasemjari tekur enn fremur við stjórn viðræðna eftir því sem ákveðið hefur verið í viðræðuáætlun. Honum er þó jafnan heimilt að fresta formlegri sáttameðferð og beina því til samningsaðila að þeir láti reyna á samkomulagsmöguleika í beinum viðræðum sín á milli telji hann það líklegra til árangurs. Ríkissáttasemjara er ávallt heimilt að taka í sínar hendur stjórn samningaviðræðna ef hann telur það heppilegt. Ef tilkynning berst um vinnustöðvun skv. 16. gr. laga nr. 80/1938 er sáttasemjara skylt að annast sáttastörf með deiluaðilum og stýra viðræðum þeirra.

Vísa kjaradeilu >

 

Sáttafundir

Samningsaðilum er skylt að sækja eða láta sækja samningafund sem sáttasemjari kveður þá til. Sáttafundi skal halda fyrir luktum dyrum. Á sáttafundi skal leggja fram eftirrit þeirra skjala sem farið hafa milli aðila í deilunni, enda hafi þau ekki verið send ríkissáttasemjara áður. Bannað er að skýra frá eða leiða vitni um umræður á sáttafundum og tillögur sem fram kunna að hafa verið bornar nema með samþykki beggja samningsaðila. Sáttasemjarar skulu halda gerðabækur og skrá þar hvar og hvenær sáttafundir eru haldnir, nafn sáttasemjara og viðstaddra aðila eða fulltrúa þeirra. Geta skal framlagðra skjala og hins helsta sem fram fer.

 

Upplýsingagjöf

Sáttasemjari getur krafið aðila vinnudeilu um hverjar þær skýrslur og skýringar sem hann telur nauðsynlegar til að leysa vinnudeilur. Hann getur krafið allar opinberar stofnanir um þær upplýsingar og skýrslur sem hann telur þörf á. Með öll slík gögn skal fara sem trúnaðarmál ef þess er óskað.

 

Miðlunartillaga

Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu. Ef ágreiningur snertir aðeins ákveðna félagsdeild eða starfsgrein innan félags eða félagasambands eða tiltekið fyrirtæki getur sáttasemjari ákveðið að atkvæðagreiðsla taki eingöngu til deildarinnar eða starfsgreinarinnar eða fyrirtækisins.

Ef tvö eða fleiri félög eða félagasambönd eiga saman í deilu getur sáttasemjari í samráði við samninganefndir borið fram eina miðlunartillögu er taki til fleiri en eins deiluaðila eða þeirra allra. Atkvæðagreiðsla og talning atkvæða fer þá fram í sameiningu hjá öllum þeim félögum eða samböndum sem miðlunartillagan nær til þannig að sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun. Sáttasemjara er einnig heimilt að efna til sameiginlegrar atkvæðagreiðslu þótt hann beri fram fleiri en eina miðlunartillögu, enda sé það gert samtímis.

Sáttasemjarar geta borið fram miðlunartillögu eins oft og þeim þykir þurfa. Ef annar hvor aðili vill samþykkja miðlunartillögu sáttasemjara eftir að sáttaumleitun hefur verið hætt án árangurs sendir hann sáttasemjara yfirlýsingu um það. Sáttasemjara ber þegar að láta gagnaðila vita um yfirlýsinguna. Vilji hann einnig fallast á miðlunartillöguna sér sáttasemjari um að aðilar gangi frá samningum sín á milli.

Skilyrði þess að sáttasemjara sé heimilt að leggja fram miðlunartillögu, eina eða fleiri, samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:

a. að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, eða að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun,
b. að tíma, sem ætlaður er til viðræðna milli aðila án milligöngu sáttasemjara samkvæmt viðræðuáætlun, sé lokið án þess að samningar hafi tekist,
c. að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli,
d. að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar,
e. að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu.

Atkvæðagreiðsla samningsaðila, á almennum vinnumarkaði og þeirra sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til, um sameiginlega miðlunartillögu skal fara fram með aðgreindum hætti. Niðurstaða hjá hvorum hópnum fyrir sig, óháð niðurstöðu hins, ræður úrslitum um samþykkt eða synjun.

 

Sáttaumleitanir án árangurs

Nú hefur sáttaumleitunum sáttasemjara lokið án árangurs og ber honum þá að hefja þær á ný ef annar hvor aðili óskar þess eða hann telur það heppilegt. Þó ber honum ætíð að gera tilraun til sátta með aðilum innan 14 sólarhringa frá því hann hætti síðustu samningatilraunum sínum. Ef sáttatilraunum í mikilvægri deilu er hætt án árangurs getur ríkissáttasemjari birt skýrslu um málið á þann hátt sem hann álítur heppilegastan til þess að almenningur fái rétta hugmynd um deiluna.

 

Úr lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur – sjá nánar >