Gerð viðræðuáætlunar
Gerð og skil viðræðuáætlunar
Samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur skulu atvinnurekendur eða samtök þeirra og stéttarfélög gera áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamnings. Samningsaðilum er heimilt að veita landssamböndum eða heildarsamtökum sérstakt umboð til að gera viðræðuáætlun fyrir sína hönd ef slíkt umboð leiðir ekki af lögmætum samþykktum sambanda eða samtaka samningsaðila. Viðræðuáætlun, undirrituð af báðum samningsaðilum, skal þegar í stað send ríkissáttasemjara.
Tímamörk
Viðræðuáætlun skal gerð í síðasta lagi tíu vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Ef samningsaðilar hafa þá ekki gert viðræðuáætlun skal sáttasemjari gefa út viðræðuáætlun fyrir þá samningsaðila í síðasta lagi átta vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus og skal sáttasemjari þá taka mið af öðrum viðræðuáætlunum sem hafa þegar verið gerðar.
Samningsaðilar geta hvenær sem er eftir útgáfu viðræðuáætlunar óskað milligöngu sáttasemjara eða aðstoðar hans og skal hann þá þegar beita sér fyrir því að samningaumleitanir fari fram í samræmi við viðræðuáætlun. Samningsaðilar skulu gefa sáttasemjara kost á að fylgjast með vinnudeilu og samningaumleitunum hvenær sem hann óskar þess.
Eftir að deilu er vísað
Ef slitnar upp úr samningaviðræðum aðila eða annar hvor þeirra telur vonlítið um árangur af frekari samningaumleitunum getur hvor þeirra um sig eða báðir sameiginlega vísað deilunni til sáttasemjara.
Þegar sáttasemjari hefur fengið tilkynningu þess efnis er honum skylt að kveðja aðila eða umboðsmenn þeirra til fundar svo skjótt sem kostur er. Halda síðan áfram sáttaumleitunum meðan von er til þess að þær beri árangur. Sáttasemjari tekur enn fremur við stjórn viðræðna eftir því sem ákveðið hefur verið í viðræðuáætlun. Honum er þó jafnan heimilt að fresta formlegri sáttameðferð og beina því til samningsaðila að þeir láti reyna á samkomulagsmöguleika í beinum viðræðum sín á milli telji hann það líklegra til árangurs. Ríkissáttasemjara er ávallt heimilt að taka í sínar hendur stjórn samningaviðræðna ef hann telur það heppilegt.
Úr lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur – sjá nánar >