Sáttamiðlun
er aðferð sem notuð er til aðstoðar við úrlausn ágreinings
Um er að ræða skipulagt ferli sem leitt er af óháðum þriðja aðila og þátttöku sjálfviljugra einstaklinga. Aðferðin, sem er viðurkennd og margreynd, hefur lengi verið notuð til úrlausnar ágreinings af öllum stærðum og gerðum, milli einstaklinga eða hópa í ólíkum aðstæðum.
Sáttamiðlun grundvallast á nýrri nálgun ólíkri eldri hugmyndum sem byggjast á að forðast eigi ágreining, að aðilarnir séu andstæðingar sem skella skuldinni hvor á annan og markmiðið sé að finna eina sanna lausn þar sem annar bíður lægri hlut en hinn fer með sigur af hólmi. Þvert á móti byggir sáttamiðlun á að deilur séu óumflýjanlegur hluti lífsins þar sem um sé að ræða sameiginlega deilu á ábyrgð beggja/allra aðilanna þar sem enginn einn býr yfir öllum sannleika málsins.