Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ríkissáttasemjara
í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins
Atkvæðagreiðsla hefst klukkan 12:00 föstudaginn 3. mars og
líkur 8. mars klukkan 10:00
Ef miðlunartillaga ríkissáttasemjara verður samþykkt í atkvæðagreiðslu félagsfólks Eflingar og Samtaka atvinnulífsins þá fá félagar í Eflingu sömu launahækkanir og í samningi annarra félaga Starfsgreinasambandsins. Launahækkanirnar verða afturvirkar frá 1. nóvember 2022.
Kauptaxtar aðalkjarasamnings hækka á bilinu 35.000 krónur til 52.258 krónur á mánuði og er meðalhækkun um 42.000 krónur. Hlutfallsleg hækkun kauptaxta er á bilinu 9.5% til 13% og meðalhækkun rúmlega 11% Hægt er að sjá hækkun taxta í miðlunartillögunni og reikna út launahækkanir hvers og eins í reiknivélinni.
Með tillögunni er stofnað nýtt starfsheiti, Almennt starfsfólk gistihúsa, sem að loknum þriggja mánaða reynslutíma raðast í launaflokk 6.
Mánaðarlaun félagsfólks sem tekur ekki laun samkvæmt kauptöxtum kjarasamnings hækka um 33.000 krónur frá
1. nóvember 2022.
Allar hækkanir – einnig kjaratengdir liðir eins og bónusar – gilda frá 1. nóvember 2022, sem þýðir að allir fá afturvirkar hækkanir fyrir nóvember og desember 2022 og janúar og febrúar 2023.
greitt atkvæði hérAðildafélög Samtaka Atvinnulífsins geta greitt atkvæði hér
Atkvæðagreiðsla hefst klukkan 12:00 föstudaginn 3. mars og líkur 8. mars klukkan 10:00.
Fyrir þá sem ekki geta greitt atkvæði rafrænt verður skrifleg atkvæðagreiðsla á kjörfundi á skrifstofu ríkissáttasemjara að Borgartúni 21 mánudaginn 6. mars og þriðjudaginn 7. mars frá kl. 16:00 til 18:00.
Þeir sem óska að greiða atkvæði á kjörfundi skulu hafa með sér skilríki.
Hvernig greiði ég atkvæði?
Til að kjósa rafrænt er nauðsynlegt að hafa annað hvort Íslykil eða rafræn skilríki. Til að fá Íslykil ferðu inn á https://island.is/islykill og ýtir á hnappinn „panta íslykil“.
Hvað er ríkissáttasemjari?
Ríkissáttasemjari er skipaður af ráðherra til fimm ára í senn og hefur það meginhlutverk að aðstoða launafólk annars vegar og atvinnurekendur hins vegar í vinnudeilum. Ef slitnar upp úr samningaviðræðum aðila eða ef annar hvor þeirra telur vonlítið um árangur af frekari samningsumleitunum getur annar hvor þeirra eða báðir sameiginlega vísað deilunni til sáttasemjara. Ef samningar takast ekki getur sáttasemjari lagt fram miðlunartillögu.
Hvað er miðlunartillaga?
Ef deiluaðilar ná ekki samkomulagi getur ríkissáttasemjari lagt fram miðlunartillögu til lausnar deilunni. Bæði félagsfólk í Eflingu og Samtökum atvinnulífsins kjósa um tillöguna. Tillagan telst felld ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæði eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá.