Frá árslokum 2017 hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins haldið fundi um ýmis efni er snúa að samskiptum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Forsvarsfólk heildarsamtaka á vinnumarkaði hefur sótt fundina en jafnframt forsvarsfólk Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar, þ.e forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ríkissáttasemjari hefur sótt fundina og aðrir ráðherrar eftir þörfum.

Á fundunum hafa ýmis mál verið til umræðu, til að mynda launaákvarðanir kjörinna fulltrúa, nýting launatölfræði og útvíkkun Þjóðhagsráðs, svo eitthvað sé nefnt.

Nánari upplýsingar um samráðsfundina má finna á vef stjórnarráðsins.

Þjóðhagsráð

Endurskoðað samkomulag um hlutverk og umgjörð Þjóðhagsráðs var undirritað í Ráðherrabústaðnum þann 18. júní 2019.

Markmið Þjóðhagsráðs er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Þjóðhagsráð skal ræða samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni.

Í Þjóðhagsráði eiga sæti formenn stjórnmálaflokka sem sitja í ríkisstjórn hverju sinni en ætíð forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra ásamt forystufólki Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands.

Nefnd um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga

Eitt þeirra verkefna sem hrint var úr vör á samráðsfundum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins var skipun nefndar um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga.

Nefndinni var falið það verkefni að skoða aðferðafræði um launatölfræði á Íslandi, alþjóðlega launatölfræði og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, þarfir vinnumarkaðarins á þessu sviði og hugmyndir um stofnun launatölfræðinefndar að erlendri fyrirmynd.

Nefndin lauk störfum í lok árs 2018. Tillögur hennar voru meðal annars stofnun Kjaratölfræðinefndar að norskri fyrirmynd. Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 19. desember 2019.