Heildarsamtök aðila á vinnumarkaði (ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Samband sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, fjármála- og efnahagsráðuneytið og SA) höfðu með sér formlegt samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (Salek) á árunum 2013 til 2016. Fulltrúar heildarsamtakanna fóru í ferð til Norðurlandanna í febrúar 2013 og gáfu í kjölfarið út skýrslu sem ber heitið Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum.  

Í október 2015 undirrituðu þessi heildarsamtök, að undanskildum BHM og KÍ, rammasamkomulag um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerðina. Hluti þess samkomulags var að vinna að mótun nýs samningalíkans fyrir Ísland sem BHM og KÍ tóku þátt í. Hópurinn réði Steinar Holden, norskan prófessor í vinnumarkaðshagfræði, til ráðgjafar við sig. Steinar Holden skilaði bráðabirgðaskýrslu í ágúst 2016 þar sem hann lýsir hugmyndum sínum um úrbætur á íslenska samningalíkaninu.

Heildarsamtökin stóðu fyrir útgáfu þriggja skýrslna um efnahagsumhverfi og launaþróun, tvær þeirra bera yfirskriftina Í aðdraganda kjarasamninga. Sú fyrri kom út í október 2013 en sú síðari í febrúar 2015. Þriðja skýrslan, Í kjölfar kjarasamninga var gefin út í júlí 2016.