Skip to main content

Samtök atvinnulífsins boða verkbann

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Samtök atvinnulífsins boðuðu verkbann þann 22. febrúar 2023.

Verkbannið tekur til aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins og nær til félagsmanna Eflingar – stéttarfélags, sem starfa á félagssvæði stéttarfélagsins og sinna störfum sem falla undir:

  • Almennan kjarasamning SA og Eflingar
  • Kjarasamning SA og Eflingar vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi

Verkbannið er ótímabundið og hefst kl. 12:00 fimmtudaginn 2. mars 2023.
Atkvæði voru greidd á grundvelli gildandi atkvæðaskrár SA. Þátttaka var 87,9% af heildaratkvæðafjölda. Atkvæði með boðuninni voru 94,7% gegn 3,3%. 2,0% tóku ekki afstöðu.

Niðurstaða Landsréttar um miðlunartillögu embættis ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Úrskurður var kveðinn upp í Landsrétti, mánudaginn 13. febrúar, um kröfu embættis ríkissáttasemjara um að fá aðgengi að skrá allra atkvæðisbærra félagsmanna Eflingar – stéttarfélags um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu stéttarfélagsins og Samtaka atvinnulífsins. Landsréttur snéri við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði áður heimilað kröfu embættisins. Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að embætti ríkissáttasemjara sé ótvírætt heimilt að eiga frumkvæði að því að efna til atkvæðagreiðslu og gefa fyrirmæli um framkvæmd þeirrar miðlunartillögu sem lögð hefur verið fram. Hins vegar sé ekki ljóst að embættinu sé heimilt að knýja aðila vinnudeilu til afhendingar kjörskrár eða aðgangs að henni.

Úrskurðinn er að finna á vefsvæði Landsréttar – https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=88c38f48-8cec-4428-8955-6296a4b0dba9&verdictid=1c827f0a-9956-4792-be3e-84d16e01bb69

Öll félög sjómanna, skipstjórnarmanna og vélstjóra hafa náð samningum

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Skrifað var undir nýjan kjarasamning milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar og hins vegar Sjómannafélags Íslands (SÍ) undir hádegi í dag – 13. febrúar. Þar með hafa öll félög sjómanna, skipstjórnarmanna og vélstjóra náð samningum við sína viðsemjendur til næstu 10 ára.

Frá undirritun 13. febrúar 2023

Stéttarfélög sjómanna skrifa undir kjarasamninga

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Samningar tókust milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar og

  • Félags skipstjórnarmanna, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum og Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Vísis á Suðurnesjum
  • Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur
  • Sjómannasambands Íslands, fyrir hönd:
    • Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Snæfellinga, Verkalýðs og sjómannafélags Bolungarvíkur, Verkalýðsfélags Vestfirðinga (VerkVest), Stéttarfélagsins Samstöðu, Öldunnar – stéttarfélags – Sauðárkróki, Sjómannafélags Ólafsfjarðar, Sjómannafélags Eyjafjarðar, Framsýnar – stéttarfélags, Verkalýðsfélags Þórshafnar, ASA vegna AFL – starfsgreinafélags, Sjómannafélagsins Jötuns – Vestmannaeyjum, Verkalýðsfélagsins Bárunnar, Eflingu- stéttarfélags, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis auk Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis
  • VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna

hins vegar um framlengingu á kjarasamninga þessara aðila, með ýmsum breytingum. Ná þær meðal annars til aukinna lífeyrisréttinda og hækkun kaupliða. Fulltrúar hlutaðila undirrituðu kjarasamninga þess efnis aðfaranótt föstudagsins 10. febrúar, í húsakynnum embættis ríkissáttasemjara í Höfðaborg – Borgartúni. Gildistími samninganna er til næstu 10 ára, sem er einsdæmi. Þeir bíða nú atkvæðagreiðslu félagsmanna til endanlegrar staðfestingar.

Héraðsdómur Reykjavíkur

Niðurstaða Héraðsdóms um miðlunartillögu embættis ríkissáttasemjara

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Úrskurður var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur, mánudaginn 6. febrúar, um kröfu embættis ríkissáttasemjara um að fá aðgengi að skrá allra atkvæðisbærra félagsmanna Eflingar – stéttarfélags um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu stéttarfélagsins og Samtaka atvinnulífsins. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að embætti ríkissáttasemjara hefði sýnt fram á rétt sinn til að leggja fram miðlunartillögu, með þeim hætti sem raun bar vitni. Í kjölfarið heimilaði dómurinn kröfu embættisins en hafnaði jafnframt kröfu Eflingar um frestun réttaráhrifa, á meðan úrskurði æðra dómsvalds væri beðið.

Úrskurðinn er að finna á vefsvæði Héraðsdóms Reykjavíkur – https://www.heradsdomstolar.is/domar/domur/?id=c736e76d-180a-4d42-b61f-427c7de8547f

Efling – stéttarfélag boðar vinnustöðvanir

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Efling – stéttarfélag boðaði neðangreindar vinnustöðvanir þann 8. febrúar 2023:

Vinnustöðvun hjá hótelum keðjunnar Berjaya Hotels Iceland og hótelinu The Reykajvík Edition. Vinnustöðvunin nær til starfa á tilteknum starfsstöðvum sem unnin eru skv. kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi. Starfsstöðvar fyrirtækjanna tveggja á félagssvæði Eflingar – stéttarfélags eru eftirfarandi:

  • Berjaya:
    • Alda hótel
    • Berjaya Reykjavík Marína
    • Reykjavík Marína Residence
    • Berjaya Reykjavík Natúra
    • Canop – Hilton Reykjavík
    • Hilton Reykjavík Nordica
    • Reykjavík Konsúlat
  • Cambridge Plaza Hotel Comp:
    • Reykjavík EDITION

Vinnustöðvunin er ótímabundin og hefst kl. 12:00 þann 15. febrúar 2023.

Á kjörskrá voru 487 félagsmenn Eflingar – stéttarfélags sem vinnustöðvunin tekur til. Af þeim greiddu 255 atkvæði. Atkvæði með boðuninni voru 209 (82,0%) gegn 40 (15,7%). 6 atkvæði (2,4%) töldust auð eða ógild.

Vinnustöðvun meðal bifreiðarstjóra hjá fyrirtæjunum Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi. Vinnustöðvunin nær til tiltekinna starfa á vegum fyrirtækjanna skv. aðalkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags. Þessi störf eru:

  • Allur vörubifreiðaakstur á vegum Samskipa, sem gerður er út frá starfstöðvum þeirra á félagssvæði Eflingar.
  • Allrar vinnu við olíudreifingu á vegum Olíudreifingar og Skeljungs.

Vinnustöðvunin er ótímabundin og hefst kl. 12:00 þann 15. febrúar 2023.

Á kjörskrá voru 74 félagsmenn Eflingar – stéttarfélags sem vinnustöðvunin tekur til. Af þeim greiddu 57 atkvæði. Atkvæði með boðuninni voru 48 (84,2%) gegn 7 (12,3%). 2 atkvæði (3,5%) töldust auð eða ógild.

Efling – stéttarfélag boðar vinnustöðvun

By Frétt frá ríkissáttasemjara

Efling – stéttarfélag boðaði vinnustöðvun þann 31. janúar. Vinnustöðvunin nær til þeirra starfa sem unnin eru á starfsstöðvum Íslandshótela og Fosshótela Reykjavíkur, skv. kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.

Starfsstöðvar fyrirtækjanna tveggja á félagssvæði Eflingar – stéttarfélags eru eftirfarandi:

  • Fosshótel Reykjavík
  • Hótel Reykjavík Grand
  • Hótel Saga Grand
  • Hótel Reykjavík Centrum
  • Fosshótel Baron
  • Fosshótel Lind
  • Fosshótel Rauðará

Vinnustöðvunin tekur, eftir atvikum, einnig til fleiri starfsstöðva ofangreindra fyrirtækja á félagssvæði Eflingar, sem ekki eru taldar upp.

Vinnustöðvunin er ótímabundin og hefst klukkan 12:00 á hádegi þann 7. febrúar 2023.

Á kjörskrá voru 287 félagsmenn Eflingar – stéttarfélags sem vinnustöðvunin tekur til. Af þeim greiddu 189 atkvæði. Atkvæði með boðuninni voru 124 (65,6%) gegn 58 (30,7%). 7 atkvæði (3,7%) töldust auð eða ógild.