Annast sáttastörf í vinnudeilum

Ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar.

Fylgist með þróun kjaramála

Ríkissáttasemjari fylgist með þróun kjaramála um allt land og atriðum sem valdið gætu ágreiningi í samskiptum samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga.

Skráir gildandi kjarasamninga

Ríkissáttasemjari heldur skrá yfir alla gildandi kjarasamninga í landinu.

Meginhlutverki ríkissáttasemjara er lýst í III. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Það felst einkum í því að annast sáttastörf í vinnudeilum, fylgjast með stöðu og horfum á vinnumarkaði um land allt og skrásetja gildandi kjarasamninga.

Frekari stefnumótun hefur verið unnin á vegum embættisins á grundvelli þeirrar leiðsagnar sem veitt er í lögum nr. 80/1938.  Markviss söfnun upplýsinga um stöðuna í samningamálunum, þróun kjaramála og horfur á vinnumarkaði er þáttur í því að rækja það hlutverk sem lög fela embættinu og verða slíkar upplýsingar birtar á vef embættisins eftir föngum.

Samtökum launafólks og atvinnurekendum er skylt að senda ríkissáttasemjara afrit allra kjarasamninga sem gerðir eru. Breytingar á kjarasamningum skulu jafnframt sendir ríkissáttasemjara og samrit allra kauptaxta og kjaraákvæða.