Fréttir

Samninganefndir Sjúkraliðafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs undirrituðu kjarasamning á áttunda tímanum í morgun. Verkfallsaðgerðum Sjúkraliðafélagsins gagnvart ríkinu hefur verið aflýst.

Samninganefndir Sjúkraliðafélags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu kjarasamning á sjötta tímanum í nótt. Verkfalli félagsmanna sem starfa hjá Akureyrarbæ og átti að hefjast klukkan 8:00 hefur verið aflýst.

Bæjarstarfsmannafélög innan BSRB undirrituðu kjarasamning við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs á sjötta tímanum í nótt. Verkfallsaðgerðum félaganna gagnvart ríkinu hefur verið aflýst. Félögin sem undirrituðu kjarasamninginn eru Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, Félag opinberra starfsmanna
á Vestfjörðum, Starfsmannafélag Dala- og Snæfellssýslu, FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Fjallabyggðar, Starfsmannafélag Fjarðabyggðar, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Starfsmannafélag Húsavíkur, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Suðurnesja og Starfsmannafélag Vestmannaeyja.

Samningurinn gildir til 31. mars 2023.

Samninganefndir Sameykis og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs undirrituðu kjarasamning um klukkan 5 í nótt. Verkfallsaðgerðum Sameykis gagnvart ríkinu, sem hófust á miðnætti hefur verið aflýst. Kjarasamningur nær til um 4000 félagsmanna Sameykis sem starfa hjá ríkinu. Samningurinn gildir til 31. mars 2023.