Fréttir

Nokkur fjöldi kjarasamninga losnar á seinni hluta árs 2017, eða 37, og þar af losna 29 samningar þann 31. ágúst. Þar á meðal er gerðardómur 18 aðildarfélaga BHM og íslenska ríkisins og samningur Skurðlæknafélags Íslands við íslenska ríkið. Síðar í haust renna út 4 kjarasamningar Flugvirkjafélags Íslands, 5 samningar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, kjarasamningur Félags framhaldsskólakennara við íslenska ríkið og kjarasamningur Félags grunnskólakennara og Sambands sveitarfélaga.

Næsta stóra samningalota verður svo við lok árs 2018 þegar 78 kjarasamningar losna. Fljótlega þar á eftir, eða þann 31. mars 2019, renna út 146 kjarasamningar.

Félagsdómur er sérdómstóll sem starfar á grundvelli laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og hefur það hlutverk að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins.

Á árinu 2016 féllu alls 14 dómar og úrskurðir í Félagsdómi, 3 úrskurðir og 11 dómar. Það eru nokkru færri dómar og úrskurðir en árið 2015 sem var metár hjá Félagsdómi en þá féllu 24 dómar og úrskurðir.

Á árunum 2000-2016 féllu alls 182 dómar og úrskurðir í Félagsdómi.

Séu dómar og úrskurðir ársins skoðaðir með hliðsjón af málsaðilum kemur í ljós að í flestum, og jafnmörgum tilfellum voru félög sem aðild eiga að ASÍ eða standa utan heildarsamtaka málsaðilar fyrir Félagsdómi, eða í 31% tilfella. Félög BHM voru aðilar að 23% mála, aðildarfélög BSRB að 12% og félög KÍ að 3%.

Sé litið til launagreiðendanna sést að flestum tilfellum, eða 44%, var SA málsaðili. Íslenska ríkið var aðili að næstflestum málum, eða 37%, sveitarfélög að 14% mála og aðrir launagreiðendur að 6%.

Samkvæmt lögum 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur ber stéttarfélögum og launagreiðendum að skila viðræðuáætlun til ríkissáttasemjara að lágmarki 10 vikum áður en kjarsamningur aðila rennur út. Hafi viðræðuáætlun ekki borist 8 vikum áður en samningurinn rennur út skal ríkissáttasemjari útbúa viðræðuáætlun fyrir aðila.

Ríkissáttasemjari hvetur aðila til að senda viðræðuáætlanir innan tilskilins frests.

Nánari upplýsingar um skil viðræðuáætlana má nálgast hér.

Skrifstofa ríkissáttasemjara lokar vegna sumarleyfa frá mánudegi 3. júlí til þriðjudagsins 8. ágúst. Ef erindið er brýnt má hafa samband við ríkissáttasemjara á þessu tímabili með tölvupósti – bryndis@rikissattasemjari.is, eða í síma 699-3414. Gleðilegt sumar!