Fréttir

Samninganefndir Félags íslenskra flugumferðarstjóra og SA vegna Isavia undirrituðu kjarasamning í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Máli FÍF og SA v. Isavia var vísað til ríkissáttasemjara þann 13. apríl 2019. Samningurinn gildir til 31. desember 2020. Atkvæðagreiðsla um samninginn mun fara fram á næstu dögum.

Á fjórða tímanum í dag var undirritaður kjarasamningur á milli 17 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023. Um 4.000 félagar í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins munu greiða atkvæði um samninginn og lýkur atkvæðagreiðslunni þann 10. febrúar.

Af þeim 42 málum sem vísað var til ríkissáttasemjara á árinu 2019 eru 34 enn í vinnslu á árinu 2020. Aðallega er um að ræða mál aðildarfélaga BSRB við ríki og sveitarfélög en einnig nokkur mál flugstétta og viðsemjenda á almennum vinnumarkaði, mál Blaðamannfélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins og mál Hlífar, VR, Rafiðnaðarsambandsins, VM – félags vélstjóra og málmtæknimanna og FIT og Samtaka atvinnulífsins vegna Ísal.

Félags- og barnamálaráðherra hefur sett Helgu Jónsdóttur, aðstoðarsáttasemjara, í embætti ríkissáttasemjara á meðan unnið er úr umsóknum um embættið. Helga hefur þegar tekið til starfa.