Ársskýrsla 2017

Tækifæri til umbóta


Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari

Árið 2017 var ekki annasamt hjá embætti ríkissáttasemjara ef litið er til fjölda sáttamála, sem voru 18 til meðferðar hjá embættinu á árinu. Eigi að síður gætti nokkurrar ólgu á vinnumarkaði. Í tveimur sáttamálum voru boðaðar vinnustöðvanir á árinu auk sjómannaverkfallsins sem hófst á árinu 2016 og lauk ekki fyrr en í febrúar 2017 eftir um 10 vikna verkfallsaðgerðir. Í einu sáttamáli kom til framlagningar miðlunartillögu ríkissáttasemjara og lauk deilunni með samþykkt hennar. Auk vinnu við kjarasamningagerðina var á árinu 2017 hafinn undirbúningur hjá embættinu að fræðslufundum fyrir samninganefndarfólk, sem verða haldnir á árinu 2018. Nýtt vefsvæði var tekið í notkun á árinu og stefnumótun embættisins hélt áfram.

Vinna heildarsamtaka á vinnumarkaði að nýju samningalíkani lá að mestu leyti niðri á árinu og er ekki fyrirséð hvenær þeirri vinnu verður fram haldið. Norræna samningalíkanið hefur skilað launafólki á Norðurlöndum stöðugleika og kaupmáttaraukningu sem eftir hefur verið tekið um heim allan auk þess sem það hefur aukið skilvirkni við gerð kjarasamninga. Því hafa heildarsamtök launafólks hér á landi stutt það að unnið sé að slíku líkani, þótt ekki hafi tekist sátt um leiðina að því markmiði. Heildarsamtökin hafa kallað eftir aðkomu stjórnvalda að vinnunni og hafa samtök launafólks lagt á það áherslu að nýtt samningalíkan taki ekki aðeins mið af efnahagslegum stöðugleika, heldur einnig þeim félagslega. Reglulegt og markvisst samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um vinnumarkaðinn í efnahagslegu og félagslegu samhengi er óhemju mikilvægt. Á Norðurlöndum er þetta samtal kjölfestan í hinu svokallaða norræna velferðarsamfélagi.

Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort leiðangur heildarsamtakanna í átt að nýju samningalíkani nái í höfn. Að því undanskildu er mikilvægt að vinna áfram að bættum vinnubrögðum við kjarasamningagerðina, bæta skilvirknina með það í huga að samningur taki sem oftast við af samningi. Í síðustu samningalotu tókst það í 0% tilvika hér á landi á meðan sambærileg tala í Noregi var 90%. Þar er því verk að vinna fyrir stjórnvöld og alla sem koma að kjarasamningagerðinni og tækifæri til umbóta finnast víða.

Kjarasamningarnir 2017

Á árinu 2017 voru gerðir 22 kjarasamningar, þar af 12 undir stjórn ríkissáttasemjara. (Samningsaðilum ber að skila gerðum kjarasamningum til ríkissáttasemjara.Greining embættisins á kjarasamningum byggir á þeim samningum sem skilað hefur verið). 50 kjarasamningar runnu út á árinu og við árslok var enn ósamið í 37 þeirra. Stór hluti þeirra samninga sem gerður var á árinu var því vegna kjarasamninga sem runnu út á fyrri árum.

Kjarasamningar voru að meðaltali undirritaðir 94 vikum eftir að fyrri samningur rann út en lengst liðu 320 vikur frá því að samningur rann út þar til nýr var undirritaður. Það gerðist í málum VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Sjómannasambands Íslands (SSÍ), Sjómannafélags Íslands (SÍ), Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG) og Verkalýðsfélags Vestfjarða (VerkVest) annars vegar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hins vegar. Séu þeir samningar undanskildir varði samningsleysi að meðaltali í 24 vikur.

Víðast hvar í samanburðarlöndum okkar er það opinbert markmið þeirra sem koma að kjarasamningagerðinni að samningur taki við af samningi þannig að nýr kjarasamningur sé ávallt undirritaður áður en sá fyrri rennur sitt skeið.Þetta er ekki algengt hér á landi en gerðist í einu tilfelli á árinu 2017, í máli Skurðlæknafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.

Sé litið til síðustu kjarasamningalotu (2014-2016) var hlutfall þeirra samninga sem gerðir voru áður en fyrri samningur rann út – 0%. Sambærileg tala í Noregi (2015-2016) var 90% að sögn embættis ríkissáttasemjara þar í landi.

Að samningi Skurðlæknafélagsins og ríkisins frátöldum leið aldrei skemmri tími en fimm vikur frá því að kjarasamningur rann út þar til nýr samningur var undirritaður.

Sáttamál

Á árinu var 11 málum vísað til meðferðar hjá ríkissáttasemjara. Auk þeirra hafði embættið til meðferðar sjö mál sem vísað hafði verið á fyrri árum. Alls voru því 18 sáttamál til meðferðar hjá embættinu á árinu. Gerður var kjarasamningur í fimm málum sem vísað var á árinu 2017 og að auki lauk einu máli í kjölfar dóms Félagsdóms í nóvember 2017. Þeirri deilu var þó vísað aftur til ríkissáttasemjara síðar á árinu. Þá voru gerðir kjarasamningar í sex málum sem voru til meðferðar frá fyrri árum. Við árslok 2017 voru fimm mál enn til meðferðar sem vísað var til meðferðar hjá ríkissáttasemjara árið 2017 og eitt mál frá árinu 2016.

Stysti vinnslutími sáttamála sem lauk á árinu 2017 var tvær vikur en sá lengsti 248 vikur. Meðal vinnslutími hjá embættinu var 89 vikur. Inni í þeim tölum eru mál SÍ, SSÍ, VerkVest og VM annars vegar og SFS hins vegar. Ljóst er að þau mál lengja meðalvinnslutíma sáttamála umtalsvert enda er hér um að ræða hátt hlutfall lokinna sáttamála á árinu sem höfðu verið til meðferðar hjá embættinu frá árinu 2012, eða í tæp fimm ár. Séu þau mál undanskilin var meðalvinnslutími sáttamála 18 vikur.

Vinnustöðvanir

Vinnustöðvanir stóðu yfir í ársbyrjun í málum SSÍ, SÍ, og VerkVest annars vegar og SFS hins vegar. Þá hafði SFS sett verkbann á VM þann 28. desember 2016 en VM hafði aflýst verkfalli í kjölfar undirritunar samninga þann 14. desember 2016 sem voru svo felldir í atkvæðagreiðslum allra félaga. Vinnustöðvununum lauk með undirritun kjarasamninga þann 18. febrúar 2017. Alls stóðu vinnustöðvanirnar yfir í tæpar sjö vikur á árinu 2017 en þess má geta að þær hófust þann 14. desember 2016 og vörðu því alls í tæpar 10 vikur.

Vinnustöðvanir voru boðaðar í tveimur af þeim 11 sáttamálum sem vísað var til meðferðar hjá ríkissáttasemjara á árinu 2017; í máli Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og Primera Air Nordic SIA og í máli Flugvirkjafélags Íslands (FVFÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna Icelandair. FFÍ boðaði vinnustöðvun hjá Primera Air Nordic sem hefjast átti þann 15. september en frestaði henni ótímabundið. Félagið boðaði aftur vinnustöðvun þann 10. nóvember en frestaði henni aftur ótímabundið. Félagsdómur dæmdi vinnustöðvunina ólögmæta þann 20. nóvember og kom hún aldrei til framkvæmda. Í kjölfar þess dóms var málinu vísað að nýju til ríkissáttasemjara og eldra málinu lokið. FVFÍ boðaði vinnustöðvun hjá Icelandair sem kom til framkvæmda klukkan 6:00 þann 17. desember og lauk klukkan 4:00 þann 19. desember. Vinnustöðvunin stóð því yfir í 46 klukkustundir og náði til 283 félagsmanna FVFÍ.

Miðlunartillaga

Eitt þeirra úrræða sem ríkissáttasemjari getur notað til að stuðla að lausn kjaradeilu er framlagning miðlunartillögu. Ekki er algengt að úrræðinu sé beitt en þó hefur það gerst í tvígang að undanförnu, í máli verkalýðsfélaganna í Straumsvík og SA vegna RioTinto Alcan árið 2016 og svo í janúar 2017 í máli Kennarasambands Íslands (KÍ) vegna Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samningur aðila hafði verið laus síðan í október 2015 og haldnir höfðu verið 20 árangurslausir sáttafundir þegar ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu til að höggva á hnútinn. Samkomulag hafði náðst á milli samningsaðila um öll meginatriði, að undanskildu því að hvaða leyti samningslaust tímabil skyldi bætt og gildistíma samningsins.

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara byggði á fyrirliggjandi samkomulagsdrögum auk þess að taka á útistandandi ágreiningi. Tillagan var borin undir atkvæði félagsmanna í FT og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún var samþykkt og deilan þar með leyst.

Horft til 2018

Samkvæmt besta yfirliti ríkissáttasemjara munu 86 kjarasamningar renna út á árinu 2018. Við árslok var sex sáttamálum ólokið sem voru til meðferðar á árinu 2017 og halda þau því áfram á árinu 2018. Flestir þeir samningar sem losna á árinu eru samningar á almennum markaði.

Fundir hjá ríkissáttasemjara 2017

Á árinu 2017 var haldinn 71 fundur í húsnæði ríkissáttasemjara vegna mála sem vísað hafði verið til meðferðar hjá embættinu.

Að auki fer stór hluti kjaraviðræðna í landinu fram í húsakynnum ríkissáttasemjara þótt málum hafi ekki verið vísað til embættisins. Voru haldnir 142 fundir í slíkum málum á árinu.

Alls voru skráðir fundir hjá embættinu því 213 á árinu.

Rekstur embættis ríkissáttasemjara 2017

Á árinu 2017 voru fjórir starfsmenn á launaskrá hjá ríkissáttasemjara í 3,5 stöðugildum. Þetta voru Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari, Elísabet Sigurveig Ólafsdóttir skrifstofustjóri og Emma Björg Eyjólfsdóttir verkefnastjóri í fullu starfi og Anna Sigríður Guðmundsdóttir í hálfu starfi.

Húsakynni ríkissáttasemjara telja alls 1000 fermetra. Notkunin er mismikil og veltur á stöðu á vinnumarkaði hverju sinni. Hluti suðurálmunnar hefur því verið leigður út, ýmist í skammtímaleigu eða til lengri tíma. Á árinu voru sex fundarsalir af 12 leigðir út til Fjölmiðlanefndar, Vísindasiðanefndar og Barnaverndarstofu. Á síðari hluta ársins hófust framkvæmdir við norðurálmu en markmið breytinganna er betri nýting húsnæðisins.

Tekjur og gjöld

Heildarútgjöld embættins árið 2017 voru  134.150.788. Stærsti kostnaðarliðurinn var launakostnaður, eða 45,3%. Húsaleiga var tæp 23,8% af heildarútgjöldum embættisins en þar á móti koma tekjur vegna framleigu á fundarsölum. Húsnæðiskostnaður að frádregnum leigutekjum var 18,9% af heildarútgjöldum embættisins á árinu. Annar rekstrarkostnaður nam 30,9% af útgjöldum embættisins.

Ríkisframlag nam 91,6% af heildartekjum embættisins og rekstrarhalli ársins var 18.255.427 krónur. Sá halli er tilkominn vegna framkvæmda á húsakynnum embættisins og er dreginn af framlögum ársins 2018.


Tafla 1. Tekjur og gjöld ríkissáttasemjara 2016. Heimild: Ársreikningur ríkissáttasemjara

Tekjur Gjöld
Framlag ríkissjóðs 106.185.995 Launakostnaður 60.717.840
Húsaleigutekjur 6.599.200 Húsaleiga 31.925.128
Aðrar tekjur 3.110.166 Rekstur 41.507.820
Samtals 115.895.361 Samtals 134.150.788
Rekstrarafgangur/halli -18.255.427

Breytingar á húsnæði

Ríkissáttasemjari flutti í núverandi húsnæði árið 2000. Frá upphafi var búið vel að embættinu, bæði hvað varðar stærð húsnæðisins, tækja- og húsbúnað. Engar breytingar hafa verið gerðar á húsakynnum embættisins frá árinu 2000 og afar lítil endurnýjun hefur orðið á tæknibúnaði og húsgögnum. Þar af leiðandi var orðið tímabært að endurnýja tæknibúnað, húsgögn og fundaaðstöðu til að mæta nútímakröfum um fundaaðstöðu. Á árinu 2017 hófst vinna hjá ríkissáttasemjara við endurbætur á húsnæðinu. Markmið breytinganna er að bæta fundaaðstöðuna, fjölga og auka fjölbreytni fundarrýma og nýta húsnæðið betur.

Með þessum breytingum er vonast til þess að embættið sé betur í stakk búið til að þjóna sáttafundum með faglegri sáttamiðlun og takast á við álagspunkta í starfseminni. Endurbætt húsnæði verður tilbúið til notkunar í maí 2018.

Námstefna í samningagerð

Á árinu 2016 hóf ríkissáttasemjari vinnu við að undirbúa sameiginlega fræðslu fyrir samninganefndir í samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði. Fræðslan fer fram á námstefnum sem haldnar verða á árinu 2018, undir heitinu Námstefna í samningagerð, og er unnið að fyrimynd Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO).

ILO mælir með slíkri fræðslu til að tryggja sameiginlega sýn allra sem að kjarasamningagerðinni koma; á samningaferlið, hlutverk sitt og ábyrgð. Markmið námstefnunnar eru meðal annars að efla færni samninganefndarfólks, stuðla að aukinni fagmennsku við samningaborðið og stuðla að órofa kjarasamningaferli.

Á námstefnunni verður sjónum beint að þáttum á borð við lagaumgjörð kjarasamningagerðar, samskiptum og ábyrgð samninganefndarfólks, efnahagslegu samhengi kjarasamninga, íslensku kjarasamningaumhverfi í alþjóðlegum samanburði, samningatækni og teymisvinnu.

Stefnumótun ríkissáttasemjara

Vinna við stefnumótun fyrir embætti ríkissáttasemjara hélt áfram á árinu 2017. Stefnunni er ætlað að skýra hlutverk embættisins innan núgildandi lagaramma, auka skilvirkni og bæta sáttaferlið. Stefnan er í mótun og mun vinna við hana halda áfram á árinu 2018. Samkvæmt stefnudrögunum skilgreinir ríkissáttasemjari hlutverk sitt þannig að það sé fagleg, skilvirk og tímanleg þjónusta við aðila vinnumarkaðarins.

Helstu áherslur í starfseminni eru sáttamiðlun, fyrirbyggjandi aðgerðir og fræðsla og upplýsingagjöf. Þá gera stefnudrögin ráð fyrir framtíðarsýn sem snýst um sátt á vinnumarkaði þannig að ekki þurfi að koma til rofa á samningssamböndum á milli aðila. Samkvæmt drögunum felst grundvöllurinn í starfsemi ríkissáttasemjara í þremur gildum; fagmennsku, skilvirkni og trausti