Ársskýrsla 2019

Árið 2019 var stórt kjarasamningaár á íslenskum vinnumarkaði. Við árslok 2018 voru 82 kjarasamningar lausir á almenna markaðnum og 152 kjarasamningar til viðbótar í mars 2019. Því var ljóst að stór samningalota myndi fara fram á árinu. Máli Eflingar – stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness var vísað til ríkissáttasemjara í desember 2018 en í janúar og febrúar bættust við mál Verkalýðsfélags Grindavíkur, Starfsgreinasambandsins og Landssambands íslenskra verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Þessir aðilar stóðu svo að gerð kjarasamnings sem nefndur er lífskjarasamningur og undirritaður var af öllum framangreindum þann 3. apríl 2019.

Kjarasamningalotan í aðdraganda undirritunar lífskjarasamningsins í febrúar og mars var talsvert þung og í heildina séð voru fundastundir í húsakynnum ríkissáttasemjara að baki  lífskjarasamningunum á fimmta hundrað. Þá eru ótaldar vinnustundir við undirbúning og aðrir fundir.

Í kjölfarið fylgdu svo kjarasamningar samflots iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins en í byrjun maí 2019 höfðu verið undirritaðir kjarasamningar fyrir hönd meginþorra launafólks á almennum vinnumarkaði.

Í ársbyrjun 2019 var nýtt verklag tekið upp hjá ríkissáttasemjara en þá voru skipaðir tólf aðstoðarsáttasemjarar til að aðstoða í þungum kjarasamningalotum. Markmið þessara breytinga var að auka fagmennsku í sáttamiðlun og bæta þjónustu embættisins við aðila vinnumarkaðarins. Tveir úr þessum hópi komu til starfa í ársbyrjun 2019 og tóku þátt í sáttamiðlun við gerð lífskjarasamningsins, þeir Aðalsteinn Leifsson og Ástráður Haraldsson. Önnur nýbreytni var að fundadagskrá var ákveðin fyrir hvern dag og reynt að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika, til dæmis með tilliti til þess hvenær fundum lyki að kvöldi. Þetta létti töluvert álagi á samningsaðila þær vikur sem samningalotan stóð yfir.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna runnu út þann 31. mars 2019. Sex aðildarfélög Bandalags háskólamanna hafa undirritað kjarasamninga við fjármála- og  efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs en aðrir kjarasamningar opinberra starfsmanna eru enn lausir.