Ársskýrsla 2016

Árið í hnotskurn


Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari

Þrátt fyrir að árið 2016 væri ekki jafn annasamt og árið á undan í húsi ríkissáttasemjara, og ekki væru jafn margir samningar gerðir og árið áður, er langt í frá að það hafi verið tíðindalaust á vinnumarkaði. 14 kjarasamningar voru gerðir á árinu undir stjórn ríkissáttasemjara og verkföll voru boðuð í nokkrum málum.  Í einu þeirra kom til kasta Alþingis með lagasetningu, en þann 8. júní voru samþykkt lög á Alþingi sem stöðvuðu verkfallsaðgerðir Félags flugumferðarstjóra í deilu þeirra við SA vegna Isavia. Var gerðardómi falið að ákvarða laun félagsmanna ef ekki semdist fyrir tilskilinn frest. Ekki kom þó til kasta gerðardóms í málinu, þar sem deiluaðilar sömdu áður en frestur til uppkvaðningar gerðardómsins rann út.

Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í deilu SA vegna RioTinto Alcan og verkalýðsfélaganna í Straumsvík, sem leiddi til lausnar hennar.

Auk þessa leystust tvö mál með gerð vinnustaðasamnings á grundvelli 5. kafla í kjarasamningi.

Á árinu 2016 var mikill kraftur lagður í undirbúning heildarsamtaka á vinnumarkaði vegna upptöku samningalíkans að norrænni fyrirmynd. Ríkissáttasemjari stýrði starfi hópsins sem fékk meðal annars norska vinnumarkaðshagfræðinginn Steinar Holden til að vera hópnum til ráðgjafar. Var honum falið að koma með tillögur að því hvernig mætti nýta reynslu Norðurlandabúa til að koma á fót skilvirkara samningalíkani á Íslandi. Steinar skilaði skýrslu sinni um mitt ár og hefur hún verið til umfjöllunar hjá aðilum á vinnumarkaði síðan, en heildarsamtökin fólu ríkissáttasemjara að standa fyrir kynningum á skýrslu Holdens.

Nokkuð var um það á árinu að kjarasamningar væru felldir aftur og aftur. Sem dæmi má nefna deilu Félags grunnskólakennara og sveitarfélaganna, þar sem undirritaðir kjarasamningar voru felldir í tvígang. Í þriðju tilraun voru samningarnir loks samþykktir af félagsmönnum. Í deilu sjómanna og útgerðarmanna var kjarasamningur einnig felldur tvisvar áður en hann var samþykktur og sömu sögu er að segja í deilu Flugfreyjufélags Íslands og SA vegna Flugfélags Íslands en þar var samningur tvífelldur áður en hann var að lokum samþykktur af félagsmönnum. Þessi þróun er athyglisverð og vekur upp spurningar um það hvað kunni að valda þeirri fjarlægð sem er í slíkum málum á milli mats samninganefnda annars vegar og félagsmanna hins vegar á virði undirritaðs samnings. Ljóst er að sú staða er afar flókin. Erfitt getur reynst að vinna úr henni við samningaborðið og nokkur tími farið í að byggja upp traust á milli aðila að loknu slíku ferli.

Miðlunartillaga í ISAL deilu

Ríkissáttasemjari getur lagt fram  miðlunartillögu til lausnar kjaradeilu, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Úrræðinu hefur ekki verið beitt oft í seinni tíð en til þess kom á árinu 2016 í máli SA vegna RioTinto Alcan og verkalýðsfélaganna í Straumsvík. Haldnir höfðu verið 39 árangurslausir fundir í deilunni þegar ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu til að höggva á hnútinn. Deiluaðilar höfðu á þeim tímapunkti komið  sér saman um efni kjarasamnings að öðru leyti en því sem tók til ágreinings um það að hvaða leyti verktaka á verksmiðjusvæðinu skyldi heimiluð. Ákvæði í kjarasamningnum setti fyrirtækinu nokkrar  skorður hvað þetta varðar, nema ef samþykki stéttarfélaganna fengist. Þá tók miðlunartillagan einnig til þess að hvaða leyti skyldi bæta starfsmönnum þann tíma sem liðinn var frá því að síðasti samningur rann út. Tillagan var borin undir atkvæði starfsmanna í álverinu og stjórn fyrirtækisins og var hún samþykkt og deilan þar með leyst.

Kjarasamningarnir 2016

Alls voru gerðir 38 kjarasamningar á árinu 2016, 14 þeirra voru gerðir undir stjórn ríkissáttsemjara. Flestir þeir samningar sem gerðir voru á árinu renna út 31. mars 2019, en þá munu 128 kjarasamningar losna. 77 kjarasamningar losna við árslok 2018, 29 samningar í lok ágúst 2017 en að auki eru einstaka samningar sem losna á öðrum tímum.

Vinnustöðvanir

Af 11 sáttamálum sem var vísað til meðferðar hjá ríkissáttasemjara á árinu 2016 voru boðaðar vinnustöðvanir í fjórum og komu tvær þeirra til framkvæmda.

Hér má geta þess að aðeins var talinn fjöldi þeirra sáttamála þar sem boðað var til vinnustöðvunar en ekki hversu oft eða lengi þær vörðu.

Auk þess voru átta mál frá fyrri árum  til meðferðar hjá embættinu. Í sex þeirra voru boðaðar vinnustöðvanir og komu fimm þeirra til framkvæmda.

Þannig má sjá að vinnustöðvanir voru boðaðar í rúmum helmingi þeirra sáttamála sem voru til meðferðar hjá embættinu og 70% boðaðra vinnustöðvana kom til framkvæmda, eða í 37% allra sáttamála sem voru til meðferðar 2016.

Vinnustöðvun var boðuð frá 10. nóvember í deilu SSÍ, SÍ, VerkVest, SVG og VM við SFS. Vinnustöðvanir allra félaga tóku gildi nema VM, sem aflýsti vinnustöðvun þegar samningar náðust þann 14. nóvember. Önnur félög frestuðu vinnustöðvum sínum þar til niðurstöður atkvæðagreiðslna lægju fyrir. Samningarnir voru felldir í atkvæðagreiðslum allra félaga, og því skullu á ótímabundnar vinnustöðvanir allra nema VM 14. desember. Þann 28. desember tilkynnti SFS að verkbann yrði sett á VM 20. janúar 2017, næðust samningar ekki fyrir þann tíma.

Fundir hjá ríkissáttasemjara 2016

Nokkur fjöldi funda var haldinn í húsnæði ríkissáttasemjara á árinu 2016. Alls var 11 deilum vísað til ríkissáttasemjara á árinu á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur og efndi embættið til 117 funda vegna þeirra.

Auk funda sem embættið boðar til í vísuðum málum fer langstærstur hluti annarra kjaraviðræðna einnig fram í húsakynnum  embættisins. Alls voru haldnir 76 slíkir fundir og skráðir fundir í heild, bæði vegna vísaðra og annarra mála, voru  því 193.

Rekstur embættis ríkissáttasemjara

Á launaskrá voru Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari og Elísabet S. Ólafsdóttir skrifstofustjóri í fullu starfi, og Anna Sigríður Guðmundsdóttir í 50% starfi við að sinna móttöku og kaffistofu. Í október var Emma Björg Eyjólfsdóttir ráðin tímabundið í afleysingar hjá embættinu. Magnús Jónsson var í hlutastarfi sem aðstoðarsáttasemjari. Auk þessa var greitt í tímavinnu fyrir aðstoð við húsvörslu, ræstingu og aðra umsjón.

Embætti ríkissáttasemjara hefur yfir stóru húsnæði að ráða, þar sem gert hefur verið ráð fyrir því að bakhópar viðræðunefnda geti fundað í húsinu auk þess sem aðilar hafa aðgang að húsnæðinu þótt málum hafi ekki verið vísað til ríkissáttasemjara. Fundarsalir fyrir samninganefndir eru 12. Afar misjafnt er hversu mikil nýting er á húsnæðinu, allt eftir stöðu á vinnumarkaði. Undanfarin ár hafa fundarsalir verið leigðir út, þegar aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki þurft að nýta húsnæðið. Útleiga fundarsala hélt áfram  á árinu 2016 en auk fastrar útleigu til Fjölmiðlanefndar og Vísindasiðanefndar leigði  Velferðarráðuneytið fjóra stóra fundarsali fyrir starfsfólk til að leysa tímabundinn húsnæðisvanda ráðuneytisins.

Tekjur og gjöld

Heildarútgjöld embættisins á árinu voru 100.556.678 krónur. Launakostnaður vóg þar þyngst, eða tæp 46%. Inni í þeirri tölu eru laun verkefnisstjóra Salek sem voru endurgreidd til embættisins. Kostnaður vegna húsaleigu var 34% af heildarkostnaði. Þar á móti komu leigutekjur vegna útleigu á fundarsölum upp á 10 milljónir sem lækkar raunhúsaleigukostnað um 35% frá fyrra ári. Rekstrarvörur, aðkeypt þjónusta og önnur gjöld námu 19% af heildarrekstrarkostnaði ársins.

Innan við 85% tekna embættisins eru beint ríkisframlag. Heildarrekstrarafgangur ársins var 2.540.080 krónur.


Tafla 1. Tekjur og gjöld ríkissáttasemjara 2016. Heimild: Ársreikningur ríkissáttasemjara

Tekjur Gjöld
Framlag ríkissjóðs 85.100.000 Launakostnaður 46.403.050
Húsaleigutekjur 10.028.560 Húsnæði 33.859.244
Endurgr. v/launa 5.887.338 Rekstur 19.101.032
Aðrar tekjur 2.080.860 Eignakaup 1.193.352
Samtals 103.096.758 Samtals 100.556.678
Rekstrarafgangur/halli 2.540.080

Fundur norrænna ríkissáttasemjara á Íslandi

Dagana 28.-31. ágúst 2016 fékk ríkissáttasemjari til sín góða gesti frá Norðurlöndum en þá daga fór fram ráðstefna norrænna ríkissáttasemjara í Húsafelli. Slíkar ráðstefnur eru haldnar annað hvert ár og skiptast embættin á að bjóða til fundarins. Alls voru 17 þátttakendur á ráðstefnunni, en að auki voru 9 makar með í för svo hópurinn taldi 26 manns.

Fyrsti hluti dagskrárinnar var helgaður stuttum skýrslum frá hverju landi þar sem gerð var grein fyrir helstu viðfangsefnum ríkissáttasemjara í hverju landi.

Tvö efni voru til sérstakrar umræðu á fundinum. Fyrra efnið var hvaða valdheimildir ríkissáttasemjarar hefðu í hverju landi, en undir þessum lið héldu kynningar Nils Dalseide, ríkissáttasemjari í Noregi, Carina

Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sáttamiðlunarstofnunarinnar í Svíþjóð og Birger Stein Christensen, fulltrúi ríkissáttasemjara í Danmörku.

Seinni hluti dagskrárinnar bar yfirskriftina „Vinnumarkaðslíkön í mótun“ en þar fjölluðu þær Minna Helle, ríkissáttasemjari í Finnlandi og Bryndís Hlöðversdóttir um vegferð aðila á vinnumarkaði við að að koma á fót nýju samningalíkani í Finnlandi og á Íslandi. Í Finnlandi hefur verið til umræðu að taka upp nýtt samningalíkan, líkt og hér á landi. Ríkissáttasemjara þar í landi hefur verið falið af aðilum vinnumarkaðarins að taka upp ný vinnubrögð í anda þess sem tíðkast í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Gert er ráð fyrir að nýtt líkan verði komið í gagnið fyrir septemberbyrjun 2017.

Ráðstefnan var afar vel heppnuð í alla staði og auðsýnt þykir að hún hafi átt þátt í að efla samstarf á milli ríkissáttasemjara- embættanna. Embætti ríkissáttasemjara vill nota tækifærið og þakka þeim sem lögðu hönd á plóg og styrktu ráðstefnuna.

Umbótaverkefni hjá ríkissáttasemjara 2016


Á árinu 2016 hóf ríkissáttasemjari vinnu við umbótaverkefni hjá embættinu. Mark- mið verkefnisins er meðal annars að skýra  stefnu embættisins innan núgildandi lagaramma, auka skilvirkni og bæta sáttaferlið. Þá er vonast til að breytt vinnubrögð hjá embætti ríkissáttasemjara geti átt þátt í að stuðla að friði á vinnumarkaði.

Fyrirbyggjandi sáttamiðlun

Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 (22. gr) er það m.a. hlutverk ríkissáttasemjara að fylgjast með ástandi og horfum í atvinnulífi og á vinnumarkaði um allt land. Þá skal hann fylgjast með þróun kjaramála og atriðum sem gætu valdið ágreiningi í samskiptum samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga. Þannig má segja að ríkissáttasemjari hafi ákveðið vöktunarhlutverk með vinnumarkaðnum en yfirleitt hefur ríkissáttasemjari ekki haft frumkvæði að því að kalla aðila að samningaborðinu.  Embættið er til staðar ef aðilar leita til þess eða vísa kjaradeilu þangað. Samkvæmt sömu lögum (23. og 24. gr.) ber aðilum að skila viðræðuáætlun um endurnýjun kjarasamnings til ríkissáttasemjara eigi síðar en tíu vikum áður en samningur rennur út og skal ríkissáttasemjari gefa út viðræðuáætlun átta vikum áður en samningur verður laus, ef hún hefur ekki borist fyrir þann tíma. Reyndin er sú að þrátt fyrir þessi lagaákvæði hefur viðræðuáætlun litla þýðingu í reynd. Henni er ýmist ekki skilað eða hún ekki höfð raunverulega til hliðsjónar við samningagerðina. Fyrirhugað er að efla aðkomu embættisins að málum með fyrirbyggjandi sáttamiðlun, þannig að ríkissáttasemjari hafi frumkvæði að því að leiða aðila að samningaborðinu sex til átta mánuðum áður en samningur rennur út. Þá verði kallað eftir markvissri viðræðuáætlun þar sem fundir verða boðaðir með góðum fyrirvara og undirbúningi kjarasamningagerðarinnar þannig ýtt mun framar en reyndin hefur verið.

Markmiðið er að auka skilvirkni við samningagerðina, en fyrirbyggjandi sáttamiðlun hefur reynst vel til að draga úr átökum á vinnumarkaði í nágrannalöndunum. Rannsóknir sýna að því fyrr sem aðilar eru leiddir að samningaborðinu, því meiri möguleikar eru að ná sáttum áður en til átaka kemur og hér getur ríkissáttasemjari gegnt lykilhlutverki.

Stefnt er að því að byrjað verði smátt og smátt að innleiða ný vinnubrögð hjá embættinu á árinu 2017 og að unnið verði samkvæmt hugmyndafræði fyrirbyggjandi sáttamiðlunar fyrir næstu kjarasamningalotu.

Sameiginleg fræðsla fyrir  samninganefndir

Í tengslum við umbótaverkefni ríkissáttasemjara er fyrirhugað, í samvinnu við aðila á vinnumarkaði, að embættið bjóði upp á sameiginlega fræðslu fyrir samninganefndarfólk sem áætlað er að fari fram á vordögum 2018.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) mælir eindregið með því að samninganefndir aðila vinnumarkaðarins fái sameiginlega fræðslu. Þetta er talið mikilvægt til að tryggja að allir sem að samningaviðræðum koma séu vel í stakk búnir til að gegna því ábyrgðarhlutverki sem í því felst að gera kjarasamninga og hafi sameiginlega sýn á hlutverkið. Þeir sem koma að hverri samningalotu hér á landi skipta hundruðum og er undirbúningur þeirra misjafn í dag. Þá er nokkuð um endurnýjun í samninganefndum frá einni lotu til annarrar og því ekki óalgengt að stór hluti samninganefnda sé óreynt fólk. Til að stuðla að aukinni fagmennsku við samningaborðið er talið rétt að bjóða upp á sameiginlega fræðslu fyrir samninganefndir stéttarfélaga og launagreiðenda og hafa heildarsamtökin fallist á að ríkissáttasemjari undirbúi slíka fræðslu fyrir næstu lotu.

Horft til 2017

Miðað við þá samninga sem embætti ríkissáttasemjara hefur yfirsýn yfir losna 50 kjarasamningar á árinu 2017.

Sjö málum sem vísað var til ríkissáttasemjara á fyrri árum var ólokið við árslok 2016 og héldu því áfram á árinu 2017.

Af samningum sem losna á árinu má nefna samning Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Einnig gerðardóm 18 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna sem starfa hjá ríkinu og kjarasamning Félags grunnskólakennara og Sambands sveitarfélaga sem rennur út í nóvember.

Lagasetning og dómsmál

Á Alþingi voru sett lög á eina vinnudeilu á árinu þegar yfirvinnubann flugumferðarstjóra var stöðvað með lögum nr. 45/2016 um kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra, þann 8. júní 2016. Með lögunum voru verkfallsaðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra gagnvart Isavia ohf., svo og frekari vinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir félagsins sem var ætlað að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin ákváðu, óheimilar frá gildistöku laganna. Aðilum var gefinn frestur til 24. júní að semja, ella skyldi gerðardómur ákveða kaup og kjör félagsmanna Félags íslenskra flugumferðarstjóra fyrir 18. júlí 2016. Gerðardómur skyldi samkvæmt lögunum við ákvörðun sína fyrst og fremst taka mið af launaþróun samkvæmt þeim kjarasamningum sem gerðir höfðu verið á almennum vinnumarkaði misserin á undan. Ákvarðanir gerðardóms skyldu vera bindandi með sama hætti og kjarasamningur á milli aðila frá og með gildistöku laganna og gilda þann tíma sem gerðardómur myndi ákveða. Í gerðardómnum skyldu eiga sæti þrír dómendur skipaðir  af ráðherra, einn tilnefndur af Hæstarétti  Íslands, einn af Félagi íslenskra flugumferðarstjóra og einn af Samtökum atvinnulífsins. Dómendur skyldu hafa hæfni til starfans í ljósi starfsferils og þekkingar á kjarasamningum og vera ótengdir aðilum. Sá aðili sem tilnefndur var af Hæstarétti skyldi vera formaður dómsins og kalla hann saman. Gerðardómurinn var skipaður og hóf hann störf, en þann 25. júní sömdu deiluaðilar í húsi ríkissáttasemjara. Kjarasamningi þeim var hins vegar hafnað af félagsmönnum Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Gerðardómi var gert að kveða upp úrskurð um kjaramál flugumferðarstjóra yrir 18. júlí 2016. Áður en til úrskurðar kom náðu aðilar sátt fyrir gerðardómi og lauk málinu þar með.

Samkvæmt upplýsingum frá Félagsdómi kvað dómurinn upp 14 dóma og úrskurði á árinu 2016. Árið 2015 voru kveðnir upp 23 dómar og úrskurðir hjá dóminum og var það mesti málafjöldi fyrir dóminum um árabil. Árið 2016 var því rólegra hjá dóminum en árið áður, enda var árið 2015 metár.

Séu málsaðilar fyrir Félagsdómi skoðaðir út frá heildarsamtökum launafólks annars vegar og launagreiðenda hins vegar kemur í ljós að ASÍ var aðili að sex dómum eða úrskurðum á árinu. BSRB var aðili að þremur málum, BHM að tveimur og KÍ að einu máli. Stéttarfélög utan heildarsamtaka voru aðilar að tveimur málum.

Þegar litið er til heildarsamtaka launagreiðenda má sjá að SA var aðili að sjö málum. Opinberir launagreiðendur voru aðilar að öðrum sjö; sveitarfélögin að fjórum og íslenska ríkið þremur málum.


Samstarf heildarsamtaka á vinnumarkaði


Heildarsamtök á vinnumarkaði héldu áfram vinnu sinni við gerð nýs samningalíkans og á árinu 2016 var mikill þungi lagður í verkefnið. Ríkissáttasemjari stýrði starfi hópsins áfram, en Emma Björg Eyjólfsdóttir var ráðin verkefna- stjóri og starfaði fyrir hópinn til 1. nóvember. Í upphafi árs setti Salek hópurinn af stað þrjá vinnuhópa sem unnu að greinargerð um íslenskan vinnumarkað fyrir Steinar Holden, sem hafði verið ráðinn sem ráðgjafi hópsins á árinu 2015. Í hópnum sátu sérfræðingar heildarsamtaka á vinnumarkaði; ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Fjármála- og efnahagsráðuneytis, Reykjavíkurborgar, Sambands sveitarfélaga og SA. Meðal þess sem fjallað er um í greinargerðinni eru upplýsingar um lagaumhverfi á íslenskum vinnumarkaði, ástand og horfur í efnahagslífinu og réttindi og skyldur launafólks á Íslandi.

Heimsóknir Steinars Holden

Í febrúar kom Steinar Holden í heimsókn til Íslands vegna starfa sinna fyrir Salek hópinn. Átti hann fund með Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra og einnig með fulltrúum þeirra samtaka sem sæti eiga í Salek hópnum. Steinar Holden átti auk þess fundi með Bryndísi Hlöðversdóttur, ríkissáttasemjara, Magnúsi Péturssyni, fyrrverandi ríkissáttasemjara og Sigurði Snævarr, hagfræðingi. Í þessari ferð fræddist Steinar Holden frekar um stöðu mála á íslenskum vinnumarkaði og vinnubrögð við kjarasamningagerðina. Þá reynslu sína, og skýrslu sem skrifuð var af sérfræðingum heildarsamtakanna um íslenskan vinnumarkað, notaði Steinar Holden svo til að vinna að tillögum að úrbótum á íslenskum vinnumarkaði.

Þann 23. maí stóð Salek hópurinn fyrir stefnumóti aðila á vinnumarkaði þar sem um 100 fulltrúar komu saman á Grand hótel til að ræða hugmyndir um breytingar á íslenska samningalíkaninu. Steinar Holden flutti erindi á fundinum og þar komu fram ýmsar áhugaverðar ábendingar frá þátttakendum sem nýttust við áframhaldandi vinnu og tillögugerð.

Í þessari seinni ferð til Íslands hitti Steinar Holden jafnframt þá Gylfa Zoëga, prófessor í hagfræði, og Gylfa Dalmann Aðalsteinsson, dósent í viðskiptafræði og ræddi við þá um íslenskan vinnumarkað. Þá var honum boðið til fundar í ráðherrabústaðnum við Suðurgötu þar sem hann hitti Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og fulltrúa allra þingflokka. Steinar kynnti þeim hugmyndina um norrænt vinnumarkaðslíkan og þær áskoranir sem að hans mati blöstu við á íslenskum vinnumarkaði. Steinari var einnig boðið til fundar við fulltrúa frá Seðlabanka Íslands þar sem tengsl peningastefnu og samningalíkansins voru rædd.

Greinargerð Steinars Holden

Steinar Holden skilaði skýrslu sinni um íslenskan vinnumarkað í ágúst og hófst umræða um innihald hennar fljótlega eftir það á vettvangi heildarsamtakanna. Í skýrslunni er að finna eins konar hlaðborð hugmynda um það hvernig koma megi á samningalíkani að norrænni fyrirmynd á Íslandi. Aðilum vinnumarkaðarins er síðan ætlað að taka afstöðu til þeirra hugmynda, sem meðal annars fjalla um það hvernig megi koma á undanfarasamningum sem gefi „merkið“ fyrir aðra hópa á vinnumarkaði. Þá leggur Holden beinlínis til að samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda verði komið í formlegri farveg en verið hefur hér á landi. Þar bendir hann á norska nefnd, Teknisk beregningsutvalg (TBU), sem fjallar skipulega og markvisst um launatölfræði, gerir áætlanir fyrir kjarasamningagerðina og metur hvernig til hafi tekist að henni lokinni. Skýrsla Holdens hefur verið til umfjöllunar hjá samtökum á vinnumarkaði og einstökum félögum síðustu mánuði, en ríkissáttasemjara var falið að sjá um kynningu hennar fyrir hönd hópsins. Skýrslu Steinars Holden má nálgast á vef ríkissáttasemjara.

Norðurlandaferð Salek hópsins

Dagana 12.-14. september fóru 20 fulltrúar frá heildarsamtökum á vinnumarkaði og ríkissáttasemjara í heimsókn til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur þar sem hópurinn hitti fulltrúa aðila vinnumarkaðanna í löndunum, og ríkissáttasemjara hvers lands fyrir sig. Ríkissáttasemjari skipulagði fundina í samráði við kollega í hinum löndunum. Markmið ferðarinnar var að fræðast nánar um afstöðu aðila vinnumarkaðanna til þeirra samningalíkana sem búið er við á hverjum stað, ræða um það sem betur mætti fara og fá góð ráð sem nýst gætu í líkanasmíð hér heima fyrir. Óhætt er að segja að markmiðum ferðarinnar hafi verið náð og að þátttakendur hafi komið heim margs vísari.

Næstu skref í samstarfinu

Á haustdögum 2016 var fyrirhugað að setja tvö mál í forgang á vettvangi Salek hópsins. Annað var að halda stórt stefnumót á vinnumarkaði, þar sem til stóð að velja af því hugmyndahlaðborði sem Steinar Holden kynnti í sinni skýrslu. Hitt verkefnið var að ráðast í endurskoðun á fyrirkomulagi launatölfræði hér á landi. Af þessum áformum hópsins varð ekki á árinu 2016 því þrátt fyrir góðan gang í starfinu á fyrri hluta ársins var ákveðið að setja samstarfið á ís í byrjun október. Ástæður þess voru fyrst og fremst óvissa um jöfnun lífeyrisréttinda sem er forsenda þess að unnt sé að taka upp samningalíkan að norrænni fyrirmynd. Umræðan um umbætur við samningagerðina og samningalíkan að norrænni fyrirmynd heldur eigi að síður áfram á meðal aðila á vinnumarkaði. Tíminn einn mun hins vegar leiða í ljós hvenær og með hvaða hætti samstarfinu verður fram haldið.

Gefið út af embætti ríkissáttasemjara í Reykjavík 2017.